fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Matur

„Máltíð sem er elduð með þessum hætti getur ekki verið neitt annað en hreinn unaður“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 25. apríl 2021 19:30

Matarmennirnir Anton og Bjarki Þór. Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarki Þór Valdimarsson og Anton Levchenko eru öfluga tvíeykið á bak við hina stórkostlegu Matarmenn. Þeir njóta mikilla vinsælda á Instagram, skrifuðu uppskriftir í matreiðslubók Friðrik Dórs og hafa verið í samstarfi við stór fyrirtæki eins og Nettó auk þess að reka netverslunina Matarmenn.is.

Matarmenn eru ekki einungis samstarfsfélagar heldur bestu vinir með brennandi ástríðu fyrir mat og matargerð.

Anton er 29 ára gamall, fæddur í Úkraníu og flutti til Íslands tólf ára gamall. Á daginn vinnur hann við smíði, á kvöldin eldar hann mat. Hann býr í Reykjanesbæ með fjölskyldu sinni. Bjarki er ekki langt frá. Hann býr tveimur íbúðum frá Antoni og því lítið vandamál að slá upp smá matarveislu.

Bjarki er 27 ára gamall og er lærður atvinnuþyrluflugmaður. Á daginn rekur hann netverslunina matarmenn.is og sinnir verkefnum sem tengjast Matarmönnum.

Matarmennirnir Anton og Bjarki Þór. Mynd/Sigtryggur Ari

Byrjuðu að sýna frá matarboðum

„Hugmyndin að Matarmönnum varð skyndilega til í einu af mörgum matarboðum sem við höfum boðið hvor öðrum í,“ segir Bjarki.

„Í raun byrjuðum við að sýna frá matarboðunum á persónulegu Instagram og Snapchat miðlunum okkar. Fljótlega tókum við eftir því að fólk hafði gaman að þessu og var að leita til okkar varðandi ráð um matargerð og með almennar spurningar um mat. Í október 2018 varð Instagram-síða Matarmanna til og í kjölfarið fengum við fullt af skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum. Viðbrögðin hafa verið ótrúlega skemmtileg og það er gaman að sjá hvað fólk hefur gaman að þessu matarævintýri með okkur.“

Hógværð og græðgi

Hvernig mynduð þið lýsa mataræði ykkar?

Bjarki: „Mataræðið mitt er rosalega fjölbreytt. Ég elska kjöt, fisk og grænmeti og skil oft ekki hvaðan aukakílóin koma. Svo þegar ég hugsa betur út í það er ég mjög mikið fyrir bernaise, rjómalagaðar sósur og kartöflur, svo ætli þau komi ekki þaðan.“

Anton: „Ég myndi segja að það samanstandi af miklu jafnvægi. Bæði hollusta og óhollusta, hógværð en á sama tíma græðgi. Ég byrja daginn alltaf á hafragraut en enda stundum hann á sex Mars stykkjum.“

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Matarmenn (@matarmenn)

Það sem gerir góða máltíð góða

Það kemur að því að nefna hvað gerir góða máltíð góða getur Anton ekki orða bundist. „Sem Matarmaður gæti ég talað um þetta umræðuefni endalaust. En ég verð að hafa svar mitt í styttri kantinum ykkar allra vegna,“ segir hann.

„Góð máltíð byrjar í höndunum á áhugasömum einstaklingi. Þar á eftir verður maður að vera með góð hráefni sem eru valin af gætni og varkárni með gæði efst í huga. Næst mikilvægast er að máltíðin sé elduð af virðingu fyrir hráefnunum og ferlinu. Máltíð sem er elduð með þessum hætti getur ekki verið neitt annað en hreinn unaður, en það sem fullkomnar máltíð er glas af vel völdu rauðvíni.“

Nauðsynlegt að eiga kjarnhitamæli

Hvaða eldhúsáhöld eru nauðsynleg í eldhúsið að ykkar mati?

Anton: „Fimm lítra pottur, 26cm „nonstick“ panna, góður kokkahnífur, tappatogari (helst CorkPops) og það sem við Bjarki köllum hjarta eldhússins – kjarnhitamælir.“

Bjarki: „Cast Iron panna og pottur, hnífabrýnir, gott skurðbretti og kjarnhitamælirinn góði.“

Matseðill Bjarka

Morgunmatur:

Ótrúlegt en satt er ég lengi að ná matarlystinni í gang en bæti yfirleitt upp fyrir það þegar líður á daginn

Millimál nr. 1:

Ferskir ávextir verði oftar en ekki fyrir valinu

Hádegismatur:

Ég reyni að koma mér í heitan mat í hádeginu og er heiðarlegur heimilismatur í uppáhaldi. Þar má nefna plokkfisk, kjötbollur í brúnni og kjúklingur.

Millimál nr. 2:

Flatkökur með hangikjöti og köld kókómjólk eru í miklu uppáhaldi þessa dagana

Kvöldmatur:

Það er ekkert eitt sem ég fæ mér oftar en annað, ég reyni að halda kvöldmatnum fjölbreyttum en fyrst og fremst bragðgóðum

Kvöldsnarl :

Ég steinligg ef mér er boðið upp á vanilluís með Mars sósu

Matarmennirnir Anton og Bjarki Þór. Mynd/Sigtryggur Ari

Matseðill Antons

Morgunmatur:

Alla virka daga byrja ég á „leti“ hafragraut sem er fimm matskeiðar haframjöl blandað við mjólk í blender og drukkið eins og boost. Hef gert þetta hverju morgni í sex ár. En um helgar byrja dagarnir alltaf á eitthverju sem inniheldur mitt uppáhalds hráefni: EGG.

Millimál nr. 1:

Skyrdrykkur og banani hafa komið sér vel fyrir sem mitt uppáhalds millimál.

Hádegismatur:

Alltaf upphitaðir afgangar eða heitur bakkamatur

Millimál nr. 2:

Vanilluskyr með ferskum bláberjum eða hleðsla og fincrisp

Kvöldmatur:

Þriðji hver þriðjudagur er frátekinn fyrir þriðjudagstilboðið á Domino’s. Annars erum við dugleg að elda heimilismat. Það getur verið allskonar – allt frá grjónagraut og pylsum upp í grillaða nautalund með heimagerðri bernaise.

Kvöldsnarl:

Það á alltof oft til með að vera, kex, súkkulaði eða snakk. Og í guðanna bænum ekki hleypa mér í Ritzkex með Nutella. Þá verður allur fjandinn laus.

Fylgstu með Matarmönnum á Instagram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa