fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Matur

Þetta borðar Heiða Björg á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 14. nóvember 2020 18:00

Heiða Björg Hilmisdóttir. Mynd/Stefán

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heiða Björg Hilmisdóttir er þúsundþjalasmiður. Hún er borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar. Hún er einnig þriggja barna móðir, menntuð í næringarfræði og hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur. Hvað ætli þessi ofurkona borði á venjulegum degi?

Heiða Björg lýsir venjulegum degi í sínu lífi, en enginn dagur er eins. „Dagarnir mínir eru frekar fjölbreyttir en sem Borgarfulltrúi og varaformaður í stórum stjónmálaflokk er ég yfirleitt með frekar þétta dagskrá sem ég þarf alltaf að vera viðbúin að breyta ef eitthvað kemur upp,“ segir Heiða Björg.

„Alla jafna vakna ég rétt fyrir klukkan átta þegar maðurinn minn færir mér kaffi eftir að hann hefur vakið börnin okkar. Hann er morgunhressa týpan meðan mér finnst hverjar fimm mínútur mikils virði á morgnana. Ég er svo mætt í vinnu klukkan níu og er þar flesta daga til um það bil 18 ef ekki eru kvöldfundir.“

Heiðu Björg finnst mikilvægt að ná að borða með fjölskyldunni. „Með þrjú börn heima sem eru með ólík verkefni settum við reglu um engan síma við matarborðið og að enginn standi upp fyrr en allir eru búnir að borða. Þarna náum við að ræða saman, skipuleggja og stilla saman strengi sem er ekki síður mikilvægt en maturinn stundum. Ég reyni svo að taka göngutúra nokkrum sinnum í viku til að hreyfa mig og fá súrefni. Þess á milli geng ég mikið milli staða og reyni að blanda hreyfingu inn í daginn minn. Mér finnst óskaplega notalegt ef ég á frí á kvöldin að snúast eitthvað með dætrum mínum eða bara horfa á sjónvarpið eða spjalla við yngstu dóttur mína sem finnst ennþá gaman að hangsa með foreldrum. Um helgar er allra best að ná að hitta vini eða taka gott spjall og gjarna smá hláturskast með vinkonum mínum hvort sem það er live eða gegnum zoom á þessum síðustu og skrítnustu.“

Menntaður næringarfræðingur

Heiða Björg er menntuð í næringarfræði. „Sem ung kona var ég óskaplega áhugasöm um allskonar mataræði og prófaði ýmislegt í þeim efnum. Í dag er ég kannski einhverskonar „flexitarian“, þó ég borði í sjálfu sér allt nema svínakjöt og þorramat þá borða ég mest úr jurtaríkinu, enda er það hollast og best fyrir okkur og umhverfið,“ segir hún.

„Góðir fiskréttir eru þó það besta sem ég fæ og með stóra fjölskyldu þá hef ég ekki fengið mig til að sleppt því að bjóða upp á slíka próteingjafa.  Ég er með mjólkuróþol og sleppi því yfirleitt öllu sem inniheldur laktósa en elska engu að síður rjóma og smjör svo það eru andstæður í þessu.“

Heiða Björg segist hafa lært ýmislegt í náminu. „Næringarfræðin kenndi mér að boð og bönn eru ekki endilega málið og það er mikilvægt að borða fjölbreyttan mat og ríkulega úr jurtaríkinu og ég fylgi því og finnst það bæði bragðbest og mér líða best af því. Aðalatriðið er að njóta matarins og ekki líta á það að borða neinn mat sem synd eða eitthvað sem maður á að skammast sín fyrir. Ef mig langar í köku þá fæ ég mér hana og nýt hvers einasta bita. Mér finnst mikilvægt að við horfum þannig á mat almennt. Svo er ég smá dellukelling og ég get dottið inn í að kynna mér matarmenningu einhvers lands til hlítar og prófa þá allskonar. Einu sinni eldaði ég indverska matreiðslubók frá upphafi og ferðaðist þannig um þetta risastóra fjölbreytta land og það er  með því skemmtilegasta sem ég hef gert. Núna er ég að kynna mér Georgíu en þar er ótrúlega fjölbreytt og spennandi matarmenning sem ég er að kynna mér.“

Líður best í eldhúsum

Aðspurð hvort hún verji miklum tíma í eldhúsinu svarar Heiða Björg.

„Mér líður eiginlega alltaf best í eldhúsum enda alin upp í stórri fjölskyldu þar sem eldhúsið var miðpunktur tilverunnar einhvernvegin. Lærði ung að elda mat og lærði það og næringarfræði og stýrði einu stærsta eldhúsi landsins um árabil. Ég hef skrifað tvær uppskriftabækur og starfað sem matarblaðakona fyrir blöð og tímarit. Ég var alveg komin að því í byrjun fyrstu covid bylgjunnar að vera komin með leið á að elda þennan daglega kvöldmat sem mér fannst leiðinlegt svo það eru að minnsta kosti jákvæð áhrif þessa hörmungar ástands fyrir mig og mína fjölskyldu að ég fór að elda aftur sem aldrei fyrr,“ segir hún.

„Mér finnst óskaplega gaman að prófa eitthvað nýtt, blanda saman kryddum og hráefni og finna eitthvað stórskostlega spennandi verða til.  Að skoða matreiðslubækur og lesa fróðleik um mat finnst mér endalaust áhugavert og gaman. Ég er svo lánsöm að vera með garð þar sem ég rækta mitt grænmeti á sumrin og ég get enn núna um miðjan október sótt mér salat og hnúðkál í garðinn. Haustin eru svolítill gósentími fyrir mig en þá finnst mér yndislegt að sulta og þurrka sveppi og týna krydd og annað sem ég get síðan notað í vetur. Mamma og amma kenndu mér að elda þegar ég var krakki og mér fannst mikilvægt að börnin mín fengju sömu þjálfun. Ég segi stundum að ég sé að borga til baka til næstu kynslóðar öll þrifin sem foreldrar mínir hafa þurft að gera eftir mig á sínum tíma en ég veit það er ótrúlega mikilvægt að fá að þjálfa sig í að elda sem barn. Það lifir með manni alla æfi og skiptir máli því mikið af tilbúnum mat sem fólk er að kaupa er ekkert endilega hollasta valið sem í boði er og svo er mun hagkvæmara að elda sjálf.“

Matseðill Heiðu Bjargar

Morgunmatur: 

Byrja daginn á kaffi og hafrajógúrt með múslí

Hádegismatur:

Ég borða yfirleitt í vinnunni og þá það sem mér líst best á hvort sem það er spennandi salat  eða heitur heimilismatur, þar er alltaf í boði grænmetisréttur.

Millimál: 

Kaffi er mitt millimál alla daga en mér finnst líka gott að fá mér ávexti og möndlur og rúsínur eða aðra þurrkaða ávexti ef mig vantar orku. Er oftast með eitthvað nasl í töskunni til að grípa í.  Ef ég er á fundi þá á ég það nú til að fá mér kanilsnúð eða kleinu ef það er í boði. Stundum ef ég er mjög svöng fer ég á kaffitár og fæ mér ristaða brauðsneið eða beiglu, held þau séu farin að þekkja mig þarna í Borgartúninu.

Kvöldmatur:

Elda heima eitthvað sem helst flestum finnst gott. Við eldum nokkuð oft fiskrétti, vegan spagettí bolognese, lasagna og annað ítalskt því Sólkatla mín elskar það meðan hin börnin eru meira í þessu kryddaða og sterka. Þannig að indverskur pottréttur og hrísgrjón eða steiktar núðlur með grænmeti eru líka oft á borðum heima.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa