fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Matur

Bjóddu í bröns – Fjórir ómótstæðilegir réttir

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 3. nóvember 2019 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er fátt skemmtilegra en að bjóða góðu fólki heim, borða, hlæja og hafa gaman. Hér eru nokkrar dásamlegar uppskriftir og eiga réttirnir það sameiginlegt að sóma sér vel á dögurðarborðinu á fallegum sunnudögum.

Vöfflur klikka seint Þessar eru algjört æði. Mynd: Sunna Gautadóttir

Vöfflur með pekanhnetum

Hráefni:

1 1/2 bolli hveiti
1/2 bolli maíssterkja
1/2 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
1 tsk. kanill
1/2 tsk. múskat
1 tsk. sjávarsalt
2 bollar nýmjólk
2/3 bolli olía
2 egg
3 tsk. sykur
2 tsk. vanilludropar
1 bolli pekanhnetur, saxaðar
þeyttur rjómi
hlynsíróp

Aðferð:

Blandið saman hveiti, maíssterkju, matarsóda, lyftidufti, kanil, múskati og salti í skál.

Blandið mjólk, olíu, eggjum, sykri og vanilludropum saman í annarri skál.

Blandið þurrefnum saman við mjólkurblönduna þar til allt er blandað, en ekki blanda alltof lengi. Blandið hnetunum varlega saman við með sleif eða sleikju. Leyfið blöndunni að standa í hálftíma og hitið svo vöfflujárnið.

Bakið vöfflurnar og berið fram með þeyttum rjóma og hlynsírópi. Þessar eru aðeins of dásamlegar!

Franskt brauð Þetta klárast fljótt. Mynd: Sunna Gautadóttir.

„French toast“

Hráefni:

6–10 sneiðar dagsgamalt brauð
5 stór egg, þeytt
2 bollar rjómi
1 bolli nýmjólk
1 msk. vanilludropar
börkur af 1 sítrónu
1/4 bolli púðursykur
fersk bláber, ef vill
flórsykur
myntulauf, ef vill

Aðferð:

Takið til stórt, eldfast mót og smyrjið það vel. Skerið brauðsneiðarnar í tvennt og raðið þeim í einfalda röð í mótið. Sneiðarnar mega skarast aðeins en ekki mikið.

Blandið eggjum, rjóma, mjólk, vanilludropum, berki og púðursykri saman í skál. Hellið blöndunni yfir brauðið þar til brauðið er næstum því allt hulið. Notið gaffal til að ýta sneiðunum létt niður.

Leyfið þessu að standa í 20–30 mínútur við stofuhita, og þrýstið reglulega á brauðið með gafflinum. Bætið við meiri eggjablöndu ef brauðið er búið að sjúga hana alla í sig.

Hitið ofninn í 180°C og bakið í 45–50 mínútur eða þar til brauðið er orðið gyllt að lit. Takið úr ofninum og leyfið þessu að standa í 5 mínútur.

Dustið flórsykri yfir brauðið og skreytið með myntulaufum og bláberjum. Þetta er algjörlega skothelt!

Fyrir Nutella-elskendur Rétt’ upp hönd sem elskar Nutella! Mynd: Sunna Gautadóttir

Nutella-horn

Deig – Hráefni:

1/4 l nýmjólk
50 g smjör
1/2 pakki þurrger
4 msk. sykur
3 bollar hveiti
1/2 tsk. sjávarsalt

Aðferð:

Hitið mjólkina í örbylgjuofni. Hún á ekki að sjóða heldur vera volg. Hjá mér tekur þetta 30–45 sekúndur.

Bræðið smjörið og blandið saman við mjólkina. Bætið þurrgerinu og sykrinum út í og látið standa í 4–5 mínútur.

Bætið síðan hveiti og sjávarsalti saman við og hnoðið deigið vel. Setjið hreint viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 40–50 mínútur á hlýjum stað. Gott er að hnoða deigið svo aftur og leyfa því að hefast á ný í 20–25 mínútur.

Fylling – Hráefni:

Nutella
3–4 bananar, skornir í bita
1 egg
smá mjólk

Hitið ofninn í 200°C og setjið smjörpappír á tvær ofnplötur.

Skiptið deiginu í 3–4 jafnstóra parta og fletjið út litla hringi. Skiptið hverjum hring upp í 8 þríhyrninga með pítsuskera. Smyrjið Nutella á efsta part þríhyrninganna og smellið einum bananabita ofan á. Rúllið þríhyrningunum upp og raðið á ofnplöturnar.

Þeytið eggið og mjólk saman og penslið toppana á hornunum með því.

Bakið í 12–15 mínútur og leyfið að standa í 10 mínútur áður en þið gúffið hornin í ykkur. Ekki er verra að bræða smá Nutella eða súkkulaði og drissa því yfir.

Epli og karamella Geggjuð kaka með ís eða rjóma. Mynd: Sunna Gautadóttir

Ómótstæðileg epla- og karamellukaka

Botn – Hráefni:

115 g brætt smjör
1/4 bolli sykur
1 tsk. vanilludropar
1/4 tsk. salt
1 bolli hveiti

Aðferð:

Hitið ofninn í 150°C og takið til form sem er sirka 20 sentímetra stórt. Smyrjið það með smjöri eða bökunarspreyi.

Blandið smjöri, sykri, vanilludropum og salti vel saman í skál. Bætið hveitinu við og hrærið þar til allt er blandað saman.

Þrýstið blöndunni í botninn á forminu og bakið í 15 mínútur, eða á meðan þið takið til fyllinguna og toppinn.

Eplafylling – Hráefni:

2 stór epli, afhýdd og skorin í þunnar sneiðar
2 msk. hveiti
2 msk. sykur
1 tsk. kanill
1/8 tsk. múskat

Aðferð:

Blandið öllu saman í stórri skál og setjið til hliðar.

Toppur – Hráefni:

1/2 bolli haframjöl
1/3 bolli púðursykur
1/4 tsk. kanill
1/4 bolli hveiti
60 g smjör, kalt og skorið í teninga

Aðferð:

Blandið haframjöli, sykri, kanil og hveiti saman í skál.

Notið fingurna til að blanda smjörinu vel saman við þar til blandan byrjar að minna á grófsaxaða brauðmola.

Takið botninn úr ofninum og hækkið hitann í 180°C. Raðið eplunum ofan á heitan botninn. Ykkur finnst þetta vera of mikið af eplum en treystið mér! Raðið þeim bara þétt saman og ýtið þeim niður í botninn.

Dreifið toppinum yfir eplin og bakið í 30–35 mínútur, eða þar til toppurinn er gullinbrúnn.

Takið úr ofninum og leyfið kökunni að kólna í 20–30 mínútur við stofuhita.

Saltkaramellusósa – Hráefni:

1 bolli sykur
90 g smjör
1/2 bolli rjómi
1 tsk. sjávarsalt

Aðferð:

Setjið sykur í pott og hitið yfir meðalhita. Hrærið stanslaust í sykrinum, en fyrst mun hann verða að kögglum og síðan bráðna í ljósbrúna blöndu.

Þegar sykurinn er bráðnaður bætið þið smjörinu út í og hrærið áfram stanslaust. Passið ykkur, því blandan mun bubbla og láta illa þegar smjörið snertir sykurinn. Hrærið þar til allt smjörið er bráðnað og búið að blandast saman við sykurinn.

Hellið síðan rjómanum varlega út í á meðan þið hrærið en blandan mun aftur láta illa. Leyfið þessu að sjóða í um 1 mínútu en haldið áfram að hræra stanslaust.

Takið pottinn af hellunni og blandið saltinu saman við. Hellið blöndunni í aðra skál og leyfið henni að kólna í 10–15 mínútur áður en þið hellið henni yfir kökuna. Ekki hella samt allri sósunni yfir kökuna – geymið smá til að bera fram með henni. Eða þið bara frystið kökuna án sósunnar, en hún helst góð í frysti í 3 mánuði. Nammi!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa