Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær að selja 79 fermetra af lóð Vesturbæjarlaugar til eigenda einbýlishúss við Einimel 22. Gengið var árið 2023 frá sölu þriggja annarra hluta lóðarinnar til eigenda jafn marga húsa við götuna. Kjartan Magnússon fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá í atkvæðagreiðslunni í gær. Gagnrýndi hann aftur á móti söluna í bókun og sagði hana minnka enn frekar aðgang almennings að túninu við Vesturbæjarlaugina. Furðaði Kjartan sig sömuleiðis á því að fulltrúar Flokks fólksins og Sósíalista hefðu samþykkt söluna í ljósi mótmæla fulltrúa þessara sömu flokka þegar fyrri salan fór fram 2023. Þá voru flokkarnir í minnihluta í borgarstjórn en eru nú í meirihluta.
Eigendur Einimels 22 greiða um 5,3 milljónir króna fyrir fermetrana 79. Árið 2023 gerðu eigendur Einimels 18, 24 og 26 samning við borgina um kaup á hlutum af lóð Vesturbæjarlaugar og samhliða því var deiliskipulagi breytt og lóðarmörk lóðanna þriggja færð um 3,1 metra inn á lóð Vesturbæjarlaugar en lóðirnar þrjár voru stækkaðar um samtals 236 fermetra og borguðu eigendur húsanna þriggja samtals rétt yfir 16 milljónir króna fyrir það. Þegar sú sala átti sér stað voru Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Framsóknarflokkurinn í meirihluta borgarstjórnar. Vildi meirihlutinn meina að þrátt fyrir þetta myndi hið opna svæði við Vesturbæjarlaug sem almenningur hefði aðgang að stækka þar sem girðingar sem lóðarhafarnir hefðu reist inni á borgarlandi yrðu fjarlægðar.
Þegar greidd voru atkvæði um söluna 2023 í borgarráði og borgarstjórn voru fulltrúar Sósíalistaflokksins og Flokks Fólksins á móti og það sama átti við breytingar á deiliskipulaginu. Mótmæltu fulltrúar flokkanna í borgarráði, umhverfis- og skipulagsráði og borgarstjórn.
Þegar greidd voru atkvæði um nýju söluna í borgarráði í gær sat Kjartan eins og áður segir hjá en andmælti henni þó í bókun. Einnig ber að taka fram í þessu samhengi að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru á móti sölunni 2023. Í bókun sinni á fundinum í gær sagði Kjartan meðal annars að túnið við Vesturbæjarlaug sé vinsælt leiksvæði barna og unglinga en skortur sé á grænum svæðum í Vesturbænum og hafi þeim farið fækkandi á undanförnum árum.
Kjartan sagði athyglisvert að oddviti Sósíalistaflokks Íslands, Sanna Magdalena Mörtudóttir, skyldi nú flytja tillögu um sölu á landi úr almenningsgarði til einkaaðila og fara fram á að hún yrði samþykkt. Rifjaði hann upp andmæli Sönnu við sölunni sem fram fór 2023 og bókun hennar um að um slæmt fordæmi væri að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi einnig tekið einarða afstöðu gegn málinu en styðji það nú. Stuðningur borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins við sölu umrædds lands til einkaaðila nú, feli í sér umsnúning og veki athygli í ljósi harðrar andstöðu þessara sömu flokka við söluna árið 2023.
Fulltrúar Sósíalistaflokksins mótmæltu sölunni 2023 í borgarstjórn, borgarráði og umhverfis- og skipulagsráði. Þegar greidd voru atkvæði um hana í borgarstjórn greiddu borgarfulltrúar flokksins Sanna Magdalena Mörtudóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon atkvæði á móti og lögðu fram bókun þar sem meðal annars stóð:
„Íbúar í einbýlishúsum við Einimel reistu girðingar inn fyrir það svæði og hindruðu þannig aðgang að almannalóð. Í stað þess að segja að slíkt sé óboðlegt ætlar borgin að láta undan og stækka lóð viðkomandi. Með því er verið að setja slæmt fordæmi sem sendir þau skilaboð að með því að taka almannalóðir af borginni sé möguleiki á að hún láti undan. Fulltrúi Sósíalista veltir því fyrir sér hvar slíka undangjöf er að finna gagnvart fátækum borgarbúum sem er oft og tíðum mætt með stálhnefa.“
Síðar hætti Trausti í borgarstjórn og Sósíalistar fóru í meirihluta með Samfylkingunni, Pírötum, Vinstri grænum og Flokki fólksins.
Helga Þórðardóttir tók við sem oddviti og eini borgarfulltrúi Flokks fólksins þegar Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir hætti í kjölfar þess að hún var kjörin á Alþingi í lok árs 2024. Þegar greidd voru atkvæði um söluna 2023 var Kolbrún enn í borgarstjórn en hafði vikið af fundi og Helga tekið við. Helga greiddi atkvæði á móti og lagði fram eftirfarandi bókun um áðurnefndar breytingar á deiliskipulagi sem gerðar voru samhliða sölunni:
„Leyfa á stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði og minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.“
Kolbrún lagði hins vegar fram nokkuð harðorðari bókanir í borgarráði og umhverfis- og skipulagsráði. Um deiliskipulagsbreytinguna sagði meðal annars í bókun hennar á fundi borgarráðs í febrúar 2023:
„Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu. Landrými á þessu svæði er eftirsótt. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.“
Helga og Sanna voru báðar viðstaddar fund borgarráðs í gær þar sem nýja salan var samþykkt. Helga er þó áheyrnarfulltrúi í borgarráði og því ekki með atkvæðisrétt en samkvæmt fundargerð samþykkti Sanna söluna sem varla hefði verið samþykkt af meirihlutanum gegn andmælum Helgu. Meirihlutaflokkarnir lögðu ekki fram neina bókun um söluna og því liggur ekki fyrir hvað skýrir þessi sinnaskipti Flokks fólksins og Sósíalistaflokksins.