Skiptum er lokið í búi B Reykjavík ehf. en félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 19. febrúar síðastliðinn. Skiptin tóku því um hálft ár en alls var kröfum upp á 100.901.817 krónur lýst í búið. Engar eignir var hins vegar þar að finna.
B Reykjavík ehf. var rekstrarfélag utan um skemmistaðinn Bankastræti Club, sem áður hét B5. Samfélagsmiðlastjarnan Birgitta Líf Björnsdóttir var í forsvari fyrir félagið fyrstu tvö árin en um mitt ár 2023 var greint frá því að athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson hefði keypt reksturinn.
Í hönd fór viðburðarríkt ár þar sem Sverrir Einar lenti fyrst í deilum við fyrri eigendur vegna þeirra fyrirætlanna sinna að endurvekja heitið B5 á skemmistaðnum. Vörumerkið var skráð í eigu fyrri eigenda hjá Hugverkastofu og að endingu varð niðurstaðan sú, eftir að lögbanni hafði verið beitt, að B var látið duga sem heiti á skemmtistaðnum.
Þá lenti Sverrir Einar einnig í deilum við lögreglu og var um miðjan september 2023 leiddur í járnum út af staðnum vegna þess að of margir gestir voru á staðnum og einhverjir þeirra undir lögreglu. Sendi Sverrir Einar svo frá sér harða yfirlýsingu síðar þar sem framganga lögreglu í málinu var fordæmd og lagði hann síðar fram kæru á hendur lögreglumanni fyrir rangar sakargiftir.
Í apríl 2024 var var síðan skemmtistöðunum B og Exit, sem var einnig í eigu Sverris Einars, lokað að kröfu skattayfirvalda og Sverrir Einar aftur leiddur út í járnum, nú af síðarnefnda staðnum.
Sendi Sverrir Einar í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði lokun B, sem hann kallaði reyndar B5, réttmæta.
„Rekstur B5 í Bankastræti hefur verið þungur eftir að til lokunar kom í kjölfar yfirgangs og afskipta lögreglu sem kvartað hefur verið yfir til lögreglu. Beiðni skattayfirvalda um lokun á staðnum er því lögmæt og ekki gerður ágreiningur um hana. Staðurinn hefur enda verið lokaður um nokkurn tíma. Unnið er að því að greiða úr þeim málum og stefnt að opnun aftur í maí,“ sagði í tilkynningunni frá Sverri.
Hann sagði hins vegar lokun Exit ekki standast neina skoðun.
Fyrirætlanirnar gengu hins vegar ekki eftir og í maí var tilkynnt um að B hefði lokað fyrir fullt og allt.
Sverrir Einar hefur marga fjöruna sopið í íslensku viðskiptalífi. Hann hef sýslað með gull og demanta, rekið veitinga- og skemmtistaði, stofnaði Nýju vínbúðina og seldi Herbalife. Þá rak hann starfsmannaleigu og stofnaði einnig smálánafyrirtæki.
Í sumar var greint frá því að skiptum var lokið í öðru félag í hans eigu, Þak byggingarfélag ehf. Rekstur félagsins vakti verulega athygli árið 2017 þegar það hóf sölu á tíu íbúðum í uppgerðu húsi við Kársnesbraut í Kópavogi og bauð væntanlegum kaupendum að fjármagna kaupin með því að taka allt að 95% lán.
Sex árum síðar var félagið svo úrskurðað gjaldþrota. Engar eignir fundust í búinu en lýstar kröfur voru tæplega 157 milljónir króna.
Í apríl 2022, skömmu áður en B5-ævintýrið hófst, var greint frá því að Sverrir Einar hefði hlotið 10 mánaða dóm fyrir skattsvik í rekstri þriggja einkahlutafélaga og var hann dæmdur til greiðslu 64,4 milljóna króna sektar í ríkssjóðs. Sendi athafnamaðurinn frá sér yfirlýsingu í kjölfar dómsins þar sem hann sagði dóminn mikið áfall enda hefði hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.