fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson kemur víða við

Björn Þorfinnsson
Fimmtudaginn 9. febrúar 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á dögunum hóf Þak byggingafélag ehf. sölu á íbúðum við Kársnesbraut í Kópavogi. Alls eru tíu íbúðir í boði og stærðir þeirra eru frá 29 og upp í 47 fermetra. Söluverð íbúðanna er á bilinu 15,9 til 23,9 milljónir króna en það sem vekur athygli er að kaupendum stendur til boða að taka 95 prósent af kaupverðinu að láni. Kaupendur þurfa því aðeins að reiða fram 5 prósent af kaupverðinu, sem í tilfelli þeirrar ódýrustu er 795 þúsund krónur. Fyrirkomulagið er á þá leið að kaupendur geta tekið 80 prósent lán frá bankastofnun að eigin vali og síðan lánar Þak 15 prósent kaupverðsins. Lánin verða til sjö ára og bera 9,8 prósenta óverðtryggða vexti.

Rak starfsmannaleigu fyrir hrun

„Ef fólk getur borgað leigu í dag þá getur það borgað þetta,“ segir framkvæmdastjóri og eigandi Þaks, Sverrir Einar Eiríksson, í samtali við visir.is. Hann sagði að í áætlunum sínum gerði fyrirtækið ráð fyrir því að verð á fasteignamarkaði myndi halda áfram að hækka. Ef allt færi á fyrsta veg og fólk gæti ekki borgað af eigninni yrði Þak einfaldlega að leysa íbúðina til sín.

Óhætt er að segja að Sverrir Einar hafi átt fjölbreyttan feril í íslensku viðskiptalífi. Á árunum fyrir hrun rak hann starfsmannaleiguna Proventus sem var með um 80 pólska starfsmenn hérlendis þegar mest lét. Um mitt sumar 2009 var félagið úrskurðað gjaldþrota en lífeyrissjóðurinn Gildi gerði 40 milljóna króna kröfu í búið. Þá fjallaði Fréttablaðið um frábæran árangur hans og eiginkonunnar við sölu á Herbalife í mars 2005. Tilefnið var lúxussigling á vegum fyrirtækisins sem afburðasölumönnum var boðið í.

Veðlán með gull og demanta

Í hringiðu hrunsins opnaði Sverrir Einar skrifstofu á Laugaveginum þar sem hann bauðst til að kaupa gull af landsmönnum. Síðan hélt hann til Afríku, nánar tiltekið Lesótó og Síerra Leóne þar sem hann stundaði viðskipti með demanta á árunum 2009–2011. Þegar heim var komið hélt hann áfram að kaupa gull af Íslendingum. Verulega athygli vakti þegar hann bauðst til að lána einstaklingum allt að 100 milljón krónum gegn veði í demöntum, gulli eða málverkum. Sætti hann nokkurri gagnrýni fyrir vextina á lánunum sem hljóðuðu upp á 4 prósent á mánuði, eða um 60 prósent á ári en úrskurðað var að veðlán féllu ekki undir lög um hefðbundin neytendalán, sem mega að hámarki bera 50 prósenta ársvexti.

Sölumaður og smálánakóngur

Sverrir Einar var einn af stofnendum smálánafyrirtækisins Hraðpeningar undir lok ársins 2009, ásamt Skorra Rafni Rafnssyni og Gísla Rúnari Rafnssyni. Upp úr sauð milli eigendanna og fór Sverrir Einar í mál gegn Skorra Rafni þar sem hann hélt því fram að Skorri Rafn hefði sölsað undir sig eignarhlut hans. Málinu var að lokum vísað frá dómi. Þá starfaði hann samhliða sem sölufulltrúi á fasteignasölunni DomusNova.

Borgaðu leiguna, Sighvatur

Þá skaut Sverrir Einar upp kollinum sem eigandi pítsustaðarins Gömu Smiðjunnar við Lækjargötu. Í sumar fjallaði DV um deilumál þar sem viðskiptavinurinn Frank Cassata kvartaði yfir því að hafa fengið ranga afgreiðslu en fékk þá tilbaka óborganlegt svar frá Sverri: „Leiðinlegt að heyra Sighvatur, vona að pizzurnar hafi verið góðar. Fyrst ég er með þig hérna á línunni þá þætti mér vænt um ef þú borgaðir leiguna fyrir Vatnsnesveg 5.“

Síðan þá hefur rekstur staðarins verið fluttur yfir í Þrastarlund í Grímsnesi, sem er í eigu Sverris Einars. Þar er ætlunin að byggja upp lúxushótelrekstur í nánustu framtíð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka

Móðirin í Kópavogi ákærð fyrir að reyna að drepa eldri soninn líka
Fréttir
Í gær

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum

Björn Leví: Þess vegna telja Píratar að ekki sé hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi

Ljósmyndaði nakinn mann í búningsklefa – Braut gróflega gegn kynferðislegri friðhelgi