Lögbann hefur verið sett á notkun nafnsins B5 en Sverrir Einar Eiríksson tók yfir rekstur skemmtistaðarins að Bankastræti 5 í júní síðastliðnum úr hendi Birgittar Líf Björnsdóttur. Er staðurinn var í hennar eigu bar hann heitið Bankastræti Club, en Sverrir tók upp fyrra nafn staðarins, B5.
„Samkvæmt skráningu Hugverkastofu er vörkumerkið í eigu KG ehf. og hafði því verið notað í heimildarleysi frá því að eigendaskipti urðu á skemmtistaðnum. Þá var nafni staðarins breytt úr Bankastræti Club í B5,“ segir í frétt Vísis um málið.
Sverrir Einar Eiríksson hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið og tilkynnt um nýtt nafn staðarins. Hann heitir núna B:
„Tekin hefur verið ákvörðun um að breyta nafni skemmtistaðarins í Bankastræti fimm, sem þekktur hefur verið sem B5, í B. Ákvörðun er tekin í kjölfar þess að lögbann var lagt á notkun heitisins B5.
„Okkur urðu á mistök þegar við gáfum staðnum nafn eftir eigendaskiptin í sumar, en heitið B5 reyndist í eigu einkahlutafélags. Síðan fór lögbannskrafan fram hjá mér þannig að málið rataði í þetta lögbannsferli. Þetta þykir mér miður og bið ég hlutaðeigandi afsökunar á því,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, sem ásamt unnustu sinni, Vestu Minkute, tók yfir rekstur Bankastrætis Club í byrjun júní sl.
Yfirlýst markmið nýrra rekstraraðila var að endurvekja stemninguna sem áður einkenndi B5 og gera hann aftur að besta skemmtistað borgarinnar. Breytingum sem gerðar hafa verið á staðnum hefur verið afar vel tekið og er hann nú með vinsælli viðkomustöðum í skemmtanalífi Reykjavíkur.
„Við erum því ekkert að flækja hlutina þegar við breytum nafni staðarins og fellum bara niður fimmuna í heitinu. Hér eftir nefnist hann B. Annað er óbreytt og gleðin áfram við völd á besta stað í bænum í Bankastræti 5,“ segir Sverrir.“