Rafmagnslaust er í miðbænum, Granda og í Vesturbæ Reykjavíkur. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins sló út í spennustöð sem varð til þess að rafmagn datt út á einhverjum stöðum í Miðborginni og Vesturbænum.
Verið er að vinna að lausn. Veitingastaðir eru margir án rafmagns og sjá sumir fram á að þurfa að farga mat ef rafmagnsleysi varir mikið lengur.
Samkvæmt vef Veitna er ekki víst hvað viðgerð muni taka langan tíma er er ramminn gefinn upp allt til miðnættis í kvöld eða 23:59.
Fólki sem rafmagnsleysið hefur áhrif á er bent á að slökkva á þeim rafmagnstækjum sem ekki slökkva á sér sjálf og geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Sérstaklega eldavélar, mínútugrill og fleiri hitunartæki. Eins er fólki ráðlagt að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp og fólki er ráðlagt að hafa kæli- og frystiskápa ekki opna lengur en þörf krefur.
Biðst starfsfólk Veitna velvirðingar á óþægindunum.
Samkvæmt frétt Vísis eru verslanir á Grandanum lokaðar vegna rafmagnsleysisins.
Samkvæmt mbl.is hefur ringulreið myndast við Lækjargötu þar sem umferðarljós eru óvirk sem stendur og víða liggi rafræn greiðslukerfi niðri.
Uppfært: 19:00 – Rafmagn er komið allsstaðar á samkvæmt tilkynningu frá Veitum, en rafmagn kom á um 18:27 eftir að hafa staðið yfir í um 90 mínútur. Um var að ræða bilun í háspennustreng.