Íslenskur karlmaður var nýlega dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir að hafa veist með ofbeldi að starfsmanni Krónunnar í Rofabæ í Reykjavík.
Árásin átti sér stað í janúar 2021 innan í versluninni en maðurinn veittist að starfsmanni með ofbeldi, sparkaði í líkama hans og sló hann ítrekað með krepptum hnefa í andlitið.
Maðurinn játaði skýlust brotið en verjandi hans krafðist þess að honum yrði ekki gerð frekari refsing eða að hann yrði látinn sæta vægustu refsingu sem lög leyfi og að refsingin yrði skilorðsbundin.
Þar sem játning lá fyrir í málinu var hægt að flytja málið án frekari sönnunarfærslu hins vegar kom til álita hvernig ætti að ákvarða refsingu.
Fram kom í dómi að maðurinn hafi árið 2014 verið dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Síðan aftur 2017 fyrir þjófnaðarbrot og rán í Hæstarétti. Aftur var maðurinn dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir rán 2018 og var það brot litið alvarlegum augum.
Dómari í þessu. máli leit til þess að maðurinn hafi lengi glímt við fíknivanda, hann sé þó metinn sakhæfur. Í dómi Hæstaréttar hafi verið litið til stöðu mannsins og sagt að þess yrði að gæta að hann fái þá heilbrigðisþjónustu sem hann þurfi á að halda. Í dómi kemur enn fremur fram að maðurinn hafi nýtt sér aðstoð með hléum frá árinu 2017 og hafi jákvæðar breytingar orðið á högum hans er hann hafi fengið íbúð þar sem hann búi í sjálfstæðri búsetu með stuðning.
Dómari leit þó einnig til þess að enn einu sinni hafi maðurinn gerst sekur um ofbeldisbrot. Því bæri að líta til ákvæðis hegningarlaga um ítrekuð ofbeldisbrot sem heimilar þyngdri refsingu í slíkum tilvikum. Í dómi segir: „Þó að líkamsárásin teljist ekki vera meiri háttar var hún með öllu tilefnislaus.“
Því þótti hæfileg refsing vera 45 daga fangelsi sem ekki væri fært að skilorðsbinda m.t.t. sakaferils mannsins og með vísan til þess að ekki sé komin reynsla á að maðurinn geti haldið sig frá neyslu.