fbpx
Fimmtudagur 02.desember 2021
Fréttir

Tveggja turna tal: Útvarp Saga og Öfgar í hár saman – „Er þetta fjárkúgun eða hvað?“ 

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 13. október 2021 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stálin mættust stinn hjá Útvarpi Sögu í gær þegar Arnþrúður Karlsdóttir fékk þrjá aktívista úr aðgerðarhópnum Öfgar í viðtal til sín til að ræða um umræðuna í samfélaginu um kynferðisbrot. Velti Arnþrúður því fyrir sér meðal annars hvernig Öfgar velji þá menn sem þær „taka úr umferð“ með aktívismanum sínum og hver yrði þeirra næsta skotmark.

Trúa þolendum

Meðlimir Öfga í viðtalinu voru þær Hulda Hrund Sigmundsdóttir, Ninna Karla Katrínardóttir og Ólöf Tara Harðardóttir en þar sem um útvarpsþátt var að ræða og blaðamaður illa læs á raddir þá verður ekki gert grein fyrir því hér að neðan hver þeirra sagði hvað heldur verða ummælin eignuð hópnum sem heild.

„Við veljum ekki að taka neinn úr umferð, þeir [gerendur] velja það algjörlega sjálfir með því að brjóta á fólki.“

Öfgar minntu Arnþrúði á þá staðreynd að Öfgar hafi aldrei nafngreint meinta gerendur í umræðunni, þeir hafi séð um slíkt sjálfir, svo sem Ingólfur Þórarinsson veðurguð og knattspyrnumennirnir Kolbeinn Sigþórsson og Aron Einar Gunnarsson.

Arnþrúður spurði hvort Öfgar kanni áreiðanleika þeirra frásagna sem þeim berast, svo sem í tilviki þeirra rúmlega þrjátíu frásagna sem Öfgar birtu sem fjölmiðlar tengdu svo við Ingó Veðurguð.

Öfgar benta á að í tilviki Ingólfs hafi sögur um hann gengið lengi og hafi verið að finna á netinu í ríflega áratug. Einn meðlimur Öfga hafði um tveggja ára skeið fengið sendar frásagnir af tónlistarmanninum og á bak við birtu frásagnirnar séu 32 hugrakkar konur sem stigu fram og fengu nafnvernd frá Öfgum. „Við erum bara með það prinsipp að við trúum þolendum.“

Mál Kolbeins Sigþórssonar

Arnþrúður spurði þá hvort Öfgar geri ekki þá kröfu að konur sem saki menn um kynferðisofbeldi segi satt. „Það að koma fram í Ríkissjónvarpinu og halda fram einhverjum hlutum eins og í sambandi við ofbeldi og annað og svo sýnir það sig kannski á öðrum vettvangi eða í opinberum skjölum að þetta er bara ekki sönn frásögn – hvað þá?“

Öfgar spurðu þá hvort Arnþrúður væri þarna að meina mál Kolbeins Sigþórssonar, en Þórhildur Gyða Arnardóttir steig eftirminnilega fram í fréttum RÚV fyrir skömmu til að benda á að þáverandi formaður KSÍ færi með rangt mál þegar hann hélt því fram að sambandinu væri ókunnugt um ásakanir á hendur landsliðsmönnum um meint kynferðisofbeldi.

„Ertu að vísa þá í mál hennar Þórhildar Gyðu? Hvað í hennar frásögn? Nú erum við bara virkilega að reyna að skilja hvað það er í hennar frásögn sem er ekki satt?“

Arnþrúður vísaði þá í hluta lögregluskýrslu málsins sem hafa verið opinberaðar.

„Til dæmis að hún hafi orðið fyrir mun meira ofbeldi og áverkum heldur en hún sagði hjá lögreglu og í lögregluskýrslu“

Öfgar leiðréttu þann misskilning. Þórhildur hafi aldrei talað um sýnilega áverka heldur bara um áverka og það komi líka fram í lögregluskýrslunni að hún hafi haft áverka sem þó voru ekki sýnilegir.

Arnþrúður lét þó ekki þar við sitja og spurði hvort að sáttargreiðslur í málinu megi ekki telja sem eins konar fjárkúgun. „Samkvæmt því sem stendur upp úr þá er það lögmaður Þórhildar sem bíður 300 þúsund og setur fram 300 þúsund króna kröfu sem allt í einu verður að sex milljónum og þar af fá Stígamót 3 milljónir. Er þetta fjárkúgun eða hvað?“

Öfgar benda á að lögmaður Þórhildar Gyðu hafi lagt fram tillögu að sáttum en síðan hafi komið inn nýr lögmaður fyrir hönd Kolbeins. Öfgar geti ekki tjáð sig meira um það en segja þó að fjárhæðin 1,5 milljón fyrir Þórhildi annars vegar og hins vegar fyrir hina konuna sem sakaði Kolbein um ofbeldi hafi ekki verið þeirra tillaga. Það hafi þó verið þeirra tillaga að þrjár milljónir myndu renna til Stígamóta.

Brotin á Bessastöðum

Arnþrúður vék einnig að málefnum forseta Íslands. Á Bessastöðum hafi komið upp kynferðisbrotamál og meðal annars hafi fyrrverandi starfsmaður embættisins kært til lögreglu kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsmanns. Þar hafi verið reynt að leysa málið innanhúss og þolendum gert að starfa við hlið geranda þar til þeir hrökkluðust úr starfi. Hvers vegna hafi Öfgar ekki beitt sér í því máli?

„Við gerum ekkert án samþykkis eða án samráðs við þolendur. Við erum ekki að fara í fjölmiðla eða skrifa yfirlýsingar til að gagnrýna það sem gerist á Bessastöðum nema tala við þolendur fyrst,“ sögðu Öfgar og bentu á að þolendur í umræddu máli hafi ekki haft samband við hópinn og því ekki tilefni til að beita sér í því máli.

Þær hafi þó ekki veigrað sér við því að gagnrýna störf forsetans og hafi til að mynda gagnrýnt að hann hafi skrifað upp á uppreist æru barnaníðings.

Stroka eftir baki

Arnþrúður benti þá á að rosalegur munur væri á ólíkum brotum sem rúmist undir hugtakinu kynferðisofbeldi. Dæmi um það sé mál Jóns Baldvins Hannibalssonar sem nú til meðferðar héraðsdóms en þar er Jóni gert að sök að hafa kynferðislega áreitt konu í matarboði sem hann hélt á Spáni.

Öfgar benda á að umrætt mál sé bara toppurinn á ísjakanum á þeim ásökunum sem hafa komið fram á hendur Jóni Baldvini, en honum hafi meðal annars verið gert að sök að hafa brotið gegn börnum í þeim fjölmörgu #metoo-sögum sem um hann hafa verið birtar.

„Sitjum við ekki svolítið á botni jarðarinnar ef við erum farin að verja Jón Baldvin á einhverjum tímapunkti í lífinu?“, segja Öfgar.

Benda Öfgar á að kynferðisofbeldi – sama í hvaða formi það er – geti lagst mismunandi á þolendur. Einn geti kannski hrist af sér kynferðislega áreitni á meðan annar sem verður fyrir sama broti upplifir mikið áfall og jafnvel með áfallastreitu.

Brotalamir kerfisins

Öfgar nýtti einnig viðtalið til að benda á brotalamir réttarkerfisins. Það sé erfið reynsla fyrir þolendur að kæra brot þegar komið er fram við þá eins og vitni í sínum eigin málum og að upplifa drusluskömmun frá lögreglunni. Það sé aðeins lítill hluti brota tilkynntur, enn minni sem gefin er út ákæra vegna og enn minni sem sakfellt sé fyrir. Rannsóknir mála taki alltof langan tíma sem verði stundum til þess að sönnunargögn fari forgörðum, vinnslutími sé einnig langur og viðmótið gegn þolendum sé óvinveitt.

„Lögreglan er með rosalega langan lista um, og ég ætla bara að segja það, „Hvernig á ég að drusluskamma þolenda hérna sem er að tilkynna nauðgun, eða einhvers konar ofbeldi“. Og svo er bara pínulítill listi fyrir gerendur“

„Alvöru nauðganir“

Arnþrúður velti því þá fyrir sér hvort að þau mál gegn þjóðþekktum einstaklingur sem komið hafi í umræðuna undanfarið, þar sem þeir eru nafngreinir og myndbirtir, séu ekki ósanngjörn gagnvart þeim sem hafi lent í alvarlegum nauðgunum – en ekki sé fjallað með sama hætti um þeirra mál.

„Mætti líka spyrja sig gagnvart mjög sýnilega alvarlegum nauðgunarmálum sem eru bara alvöru nauðgunarmál. Alvöru nauðgun þar sem samræði hefur átt sér stað og verulegir líkamlegir áverkar. Það eru mjög alvarleg brot og það er verið að dæma menn núna undanfarið jafnvel ítrekað en ekki séns að það sé birt mynda af viðkomandi og ekki nafnið, þá njóta þeir sérstakrar verndar.“

Öfgar benda þá á að það séu ekki þær sem myndbirta og nafngreina menn og það sé á ábyrgð fjölmiðla ef þeir geri slíkt.

Gluggagægir næstur

Að lokum spurði Arnþrúður hver væri næsta skotmark Öfga.

Gluggagægir. Við vorum að hugsa um að taka jólasveinana. Við heyrðum að hann væri eitthvað pervertískur og svo er hann ekki vegan heldur. Nei ég er bara að grínast. Það er enginn næstur og í fullkomnum heimi og fullkomnu réttarkerfið þyrftum við ekki að sitja hérna. Það hefði aldrei verið brotið á okkur og það væri engin nauðgunarmenning og við værum ekki hræddar um börnin okkar. Og í fullkomnum heimi værum við ekki hræddar við að fara að sofa þar sem verið er að hóta okkur daglega,“ sögðu Öfgar og bentu á að vegna aktívisma síns séu meðlimir hópsins daglega að fá sendar hótanir. Hótanir um nauðgun, ofbeldi og jafnvel líflátshótanir.

Arnþrúður velti því þá upp hvort þær hefðu kallað slíkt yfir sig með því að kalla sig Öfga. Öfgar bentu þá á að orðið hefði verið notað til að smætta femínista undanfarin ár, kalla málflutning þeirra öfgafullan og tala um öfga femínisma. Þær hafi ákveðið að kalla sig þetta til að eigna sér orðið alveg eins og hefur verið gert við orðið píka og uppnefnið drusla.

Varðandi ásakanir um að Öfgar vilji að menn séu sekir uns sakleysi sé sannað benda öfgar á það að talið sé að um 1,8 prósent kvenna ljúgi til um kynferðisofbeldi og Öfgar kjósi að trúa þeim 98,2 prósentum sem gera það ekki. Og þó svo 98 prósent gerenda í kynferðisbrotamálum á Íslandi séu karlmenn þýði það ekki að nokkur sé að halda því fram að 98 prósent allra karlmanna séu gerendur.

Viðtalið hefur vakið nokkra athygli, enda mörgum ljóst að hugmyndafræði Arnþrúðar og meðlima Öfga í ofangreindum málum er töluvert ólík. Það má þó taka fram að Arnþrúður var þó sammála Öfgum með það að taka þurfi til í réttarkerfinu svo þolendur kynferðisbrota geti treyst kerfinu til að hlusta á þær og trúa og að hægt sé að ná fram réttlæti.

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hriplek Vinnumálastofnun – Enn á ný láku persónuupplýsingar út

Hriplek Vinnumálastofnun – Enn á ný láku persónuupplýsingar út
Fréttir
Í gær

Ekið á mann á hlaupahjóli

Ekið á mann á hlaupahjóli
Fréttir
Í gær

Litlar líkur á að mál Margrétar verði rannsökuð – Fékk bréf frá forsætisráðuneytinu – Lýsir hryllilegri meðferð á fósturheimili

Litlar líkur á að mál Margrétar verði rannsökuð – Fékk bréf frá forsætisráðuneytinu – Lýsir hryllilegri meðferð á fósturheimili
Fréttir
Í gær

Læknaprófessorinn Jón Ívar vill ekki sjá bóluefnapassa hér á landi – Þeir virki ekki og sé „ætlað að kúga fólk til að þiggja lyf gegn eigin samvisku“

Læknaprófessorinn Jón Ívar vill ekki sjá bóluefnapassa hér á landi – Þeir virki ekki og sé „ætlað að kúga fólk til að þiggja lyf gegn eigin samvisku“