fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Fasteignadeilur í Hvassaleiti – Hélt eftir hluta af kaupverði út af myglu og hálfglötuðu parketi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 6. október 2021 17:00

Frá Hvassaleiti. Mynd: Já.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona hélt eftir rúmlega 5,8 milljónum krónum króna af kaupverði fasteignar sem hún keypti í Hvassaleiti sumarið 2019 vegna vanefnda. Seljandinn stefndi konunni vegna þessa og var kveðinn upp dómur í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 4. október.

Um er að ræða jarðhæð í fjölbýlishúsi í götunni og var ásett kaupverð tæplega 50 milljónir króna. Samningar tókust um mitt sumar 2019 og átti að afhenda eignina í síðasta lagi 1. desember sama ár. Ekki átti að vera raki í íbúðinni en rakamælingar á vegum kaupandans leiddu annað í ljós. Ákvað seljandinn þá að gera úrbætur svo afhending eignarinnar dróst. Úrbæturnar voru ekki að fullu leyti að skapi kaupandans og hélt hún því eftir ofangreindri upphæð af kaupverðinu.

Um skemmdirnar segir meðal annars þetta í texta dómsins:

„Stefnandi sendi tölvupóst til stefndu, dags. 24. janúar 2020, og með honum fylgdi verklýsing frá Lýði Péturssyni ehf. Í skjalinu var að finna almenna lýsingu á því hvernig viðgerðum hefði verið háttað og að unnið hefði verið eftir fyrirmælum Stefáns Andréssonar í Verkís. Skjalinu fylgdi einnig sérgreind og ódagsett lýsing á
framkvæmdum fyrir fasteignina Hvassaleiti XX. Kom þar fram að í viðgerðunum hefði falist að brjóta múr og einangrun af útveggjum í tveimur herbergjum og gangi. Sár og fletir hefðu verið myglueitraðir og veggir endureinangraðir og múrað yfir. Þá hefði verkið falist í því að brjóta upp gólfílögn við útveggi herbergja og í gangi, taka af flísar og timburklæðningu á salerniskassa og setja nýjar flísar. Loks hefði verið dælt þéttiefni undir glugga í herbergjum þar sem múr hafði verið tekinn af og allir veggir þar sem múr hafði verið tekinn af hefðu verið endurnýjaðir.“

Íbúðin var ekki afhent fyrr en 28. janúar 2020, 59 dögum eftir umsaminn afhendingardag, og eftir þær viðgerðir sem seljandinn hafði ráðist í vegna rakaskemmdanna. Ljóst er að kaupandanum þóttu þær viðgerðir ekki fullnægjandi því í bréfi lögmanns hennar til fasteignasalans snemma í febrúar kemur fram að „fúkkalykt og raki sé á baðherbergi, raki hafi mælst í hjónaherbergi og barnaherbergjum og að parket hafi verið sett á hluta eignarinnar sem sé hvorki sömu tegundar né af sömu gæðum og það parket sem var fyrir. Einnig eru gerðar athugasemdir við viðgerðir og frágang ásamt því að naglfastur skápur í stofu hafi verið fjarlægður úr eigninni fyrir afhendingu hennar. Var stefnandi upplýst um að fenginn yrði sérfræðingur til að leggja mat á umrædda galla, umfang þeirra og kostnað við úrbætur,“ eins og segir í texta dómsins.

Var brugðið yfir gólfefnunum – Seljandinn stefndi

Kaupandinn segir að henni hafi verið verulega brugðið þegar hún kom í húsið rétt fyrir jólin og sá að það var búið að rífa helminginn af gólfefninu án þess að henni hafi verið gert viðvart um það. Sagðist hún ennfremur strax í lok nóvember hafa sett fram þá hugmynd að rifta kaupunum. Hún ákvað að halda eftir eftirstöðvum kaupverðsins þar sem ástand íbúðarinnar samræmdist ekki skilmálum.

Seljandinn fór hins vegar í mál og hélt því fram að greiðsluskylda samkvæmt skriflegum kaupsamningi væri óumdeilanleg. Um væri að ræða notaða fasteign og slík fasteign væri ekki gölluð nema ágallinn rýri verðmæti hennar svo nokkru nemi.

Kaupandinn telur hins vegar að sér hafi verið heimilt að beita svokölluðum stöðvunarrétti þar sem gallar á fasteigninni væru það miklir að kaupandinn hefði sýnt af sér saknæma háttsemi við sölu eignarinnar. Hafi hún átt rétt á skaðabótum vegna galla á íbúðinni og væri það skuldajöfnun að halda eftir hluta af kaupverðinu.

Það var niðurstaða dómsins að kaupandinn hefði beðið tjón af viðskiptunum en að það væri miklu minna en sem dæmi upphæðinni sem haldið var eftir, rúmlega 5,8 milljónir króna. Er bent á að seljandinn hafi brugðist við athugasemdum kaupandans varðandi rakaskemmdir með endurbótum.

Voru skaðabætur sem kaupandinn átti rétt á metnar á tæplega 1,7 milljónir króna. Kaupandinn var því dæmdur til að greiða seljandanum tæplega 4,2 milljónir króna auk dráttarvaxta. Málskostnaður fellur hins vegar niður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni