fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Murat neitar sök í Rauðagerðismálinu: „Armando var vinur minn, ég á enn erfitt með að trúa að hann sé dáinn“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 13. september 2021 14:55

Murat Selivrada. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albaninn Murat Selivrada, er einn fjögurra ákærðu í Rauðagerðismálinu. Fólkið er ákært fyrir samverknað um morðið á Armando Beqirai sem Angjelin Sterkaj skaut til bana laugardagskvöldið 13. febrúar.

Murat er gefið að sök að hafa leiðbeint Claudiu Cavalho um hvaða bíl í eigu Armando hún ætti að vakta. Claudia fylgdist með hvítum sendibíl af gerðinni Ford, sem lagt var í port við Rauðarárstíg á meðan Armando fundaði með félögum sínum nærliggjandi húsi, og gerði Angjelin Sterkaj viðvart er Armando steig upp í bílinn og ók af stað upp í Rauðagerði. Skömmu síðar koma Angjelin að Armando fyrir utan heimili þess síðarnefnda í Rauðagerði og skaut hann til bana.

„Armando var vinur minn, ég á enn erfitt með að trúa að hann sé dáinn,“ segir Murat sem nú ber vitni í málinu fyrir Héraðsdómi.

Murat segir að Armando hafi verið einn besti vinur sinn á Íslandi en þeir kynntust í byggingarvinnu. Hann segist hins vegar lítið hafa kynnst Angjelin en þó verið kunnugur honum.

Bæði Claudia og Angjelin hafa vitnað um þessar meintu bílaleiðbeiningar Murats til Claudiu en hann neitar þessu.

Murat segist hafa komið tvisvar eða þrisvar inn á heimili Angjelin þetta kvöld en hann segist ekki muna hvort hann hafi hitt hann sjálfan. Hann hafi komið þarna með Sphetim og Claudiu og hafi drukkið með þeim bjór. Sphetim og Murat hafi síðan litið á baðherbergið í íbúðinni sem Angjelin vildi að þeir gerðu upp.

Kolbrúnu Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara, þótti framburður Murats sérkennilegur. „Armando var vinur þinn og þetta er kvöldið sem hann var myrtur en samt manstu ekki hvort þú hittir hann þetta kvöld? En þú manst vel að þú hittir Sphetim og Claudiu,“ sagði hún. Murat sagði að hafi hann hitt Angjelin þetta kvöld þá hafi þeir ekki rætt neitt merkilegt.

Murat gat ekki gefið skýringu á því hvers vegna Angjelin og Claudia halda því fram að hann hafi veitt Claudiu leiðbeiningar um hvaða bíl í eigu Angjelins hún ætti að vakta.

Murat sagðist ekki hafa haft vitneskju um deilur Armandos og Angjelin. Honum var bent á að Angjelin hefði vitnað um að hann hefði greint honum frá símtali milli Angjelin og Armando fimmtudagskvöldið 11. febrúar þar sem hótanir gengu á milli þeirra. Murat segist bara hafa hlegið að þessu og ekkert sett sig inn í málið.

Aðspurður sagðist Murat ekki hafa farið í Rauðagerði laugardagskvöldið 13. febrúar en hann hafi farið í Borgargerði, sem er þar rétt hjá, með Sphetim, sem sýndi honum tiltekið hús þar sem átti að gera upp og var því væntanlegt verkefni fyrir það.

Síðar sama kvöld fór Sphetim í bíl með Angjelin í Rauðagerði og Angjelin myrti Armando.

Murat svaraði spurningum verjanda síns um líf sitt á Íslandi. Hann sagðist eiga konu og börn og ræki fyrirtæki þar sem unnið væri við múrbrot og gólfefnalagningu. Hann hafi aldrei lent í útistöðum áður við yfirvöld og hans hugsun hefði bara verið sú að lifa venjulegu lífi á Íslandi og vinna heiðarlega vinnu.

Murat sagði enn fremur að málið hefði haft afar slæm áhrif á líf sitt, í fyrsta lagi að vinur hans Armando hafi verið myrtur, í öðru lagi að kunningi hans Angjelin hafi verið að verki og í þriðja lagi að hann sé grunaður í málinu.

Sjá einnig um vitnisburð Angjelin

Sjá einnig um vitnisburð Claudiu

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom

Hvað má barnið heita? – Herkúles en ekki Boom
Fréttir
Í gær

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala

Stefnir í miklar úrbætur á stöðu leigjenda á Íslandi – Þetta eru helstu skyldurnar sem munu falla á herðar leigusala