fbpx
Mánudagur 20.september 2021
Fréttir

Rauðagerðismálið: Claudia flutti morðvopnið í tösku – „Ég geri yfirleitt það sem mér er sagt að gera“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 13. september 2021 13:26

Claudia Cavalho. Mynd: Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Claudia Sofia Cavalho heitir portúgölsk kona sem ákærð er fyrir hlutdeild í morðinu á Armando Beqirai, sem Angjelin Sterkaj skaut til bana fyrir utan heimili Armando í Rauðagerði, laugardagskvöldið 13. febrúar.

Claudia talar bæði íslensku og ensku og svaraði spurningum dómara og héraðssaksóknara í fyrstu á báðum tungumálunum uns dómarinn, Guðjón Marteinsson, lagði til að hún héldi sig við móðurmál sitt, portúgölsku, svo allt kæmist skýrt til skila. Túlkur situr við hlið Claudiu í vitnastúkunni og túlkar allt sem hún segir á íslensku.

Sjá einnig um vitnisburð Angjelin, sem játað hefur á sig morðið á Armando

Hittust í Borgarnesi

Angjelin bað Claudiu föstudagskvöldið 12. febrúar um  að sækja Shpetim og skutla honum í Borgarnes til að hitta sig, en Shpetim var án ökuréttinda. Einnig að koma með lítilræði af fíkniefnum handa sér í leiðinni. Er þau hittust þar fóru Angjelin og Sphetim afsíðis og ræddu saman. Nokkuð sérstakt er að Angjelin afhenti Claudiu síma sinn og úr áður en hann fór afsíðis og ræddi við Sphetim. Eftir það samtal afhenti hann Claudiu tösku og bað hana um að fara með töskuna til Reykjavíkur. Claudia segist ekki hafa vitað hvað var í töskunni en hluturinn hafi virkað þungur og harður er hún handfjatlaði töskuna. Hlutverk hennar í þessu var að hún bar töskuna út í bílinn en eftir að til Reykjavíur kom var taskan í höndum Sphetim. Þau tvö ræddu ekki saman á leiðinni þar sem Shpetim talar hvorki ensku né íslensku og Claudia talar ekki albönsku

„Ég geri yfirleitt það sem ég er beðin um að gera og spyr ekki spurninga,“ sagði Claudia varðandi það hvort hún hafi ekki vitað hvað var í töskunni né hver tilgangurinn með þessu öllu var.

Vaktaði bíla Armando

Angjelin bað Claudiu um að vakta bíl Armando í porti að Rauðarárstíg 31 og láta vita er honum væri ekið burt. Samkvæmt vitnisburði hennar var henni ekkert sagt um hver myndi aka bílnum. Murat, einn sakborninga í málinu, benti Claudiu á hvaða bíl hún ætti að vakta. Var það hvítur sendibíll af tegundinni Ford.

Er Claudiu tók að leiðast beiðin hafði hún samband við Angjelin sem sagði henni að hafa líka gát á gráum Volvo-bíl í eigu Armando. Nokkru síðar ók Armando burtu á hvíta sendibílnum og lét Angjelin vita af því.

Síðar sama kvöld skaut Angjelin Armando til bana.

Aðstoðarhéraðssaksóknari dró framburð Claudiu í efa og þráspurði hana hvort hún hafi virkilega ekki vitað um áform Angjelin. Claudia segist smám saman hafa áttað sig á hvað hafi gerst er hún las fréttir um morðið daginn eftir. Þann dag skýrði Angjelin frá því að hann hefði drepið Armando er hún spurði hann út í fréttirnar.

Ákæruvaldið spurði Claudiu hvort henni hafi þá ekki dottið í hug að leita til lögreglu og skýra frá vitneskju sinni. Hún svaraði: „Ég var svo hrædd, ég vissi ekki hvað ég ætti að gera, ég hef aldrei lent í svona áður, aldrei verið í einhverju morðmáli.“

Eftir að Claudia var handtekin skömmu eftir morðið veitti hún ekki þessar upplýsingar í yfirheyrslu lögreglu. Spurð hvers vegna segist hún einfaldlega hafa verið hrædd. Angjelin hafi verið búin að fremja morð og hún hafi verið hrædd við að hann gæti unnið henni mein eða einhver annar. Hún segir þó að Angjelin hafi aldrei ógnað henni eða hótað.

Aðspurð af verjanda sínum segist hún hafa kynnst Angjelin í júlí 2020. Hún segist aldrei hafa gerst brotleg við lög.

Þess má geta að Claudia hefur búið á Íslandi í tíu ár og er með hreina sakaskrá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirlýsing frá Jakobi Frímanni Magnússyni

Yfirlýsing frá Jakobi Frímanni Magnússyni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Yfirlýsing DV: Beittu barni til að stöðva frétt

Yfirlýsing DV: Beittu barni til að stöðva frétt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Stefnir í erfiðan vetur fyrir ferðaþjónustuna

Stefnir í erfiðan vetur fyrir ferðaþjónustuna
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Okuriðgjöld, fákeppni og fádæma góð afkoma tryggingafélaga segir FÍB

Okuriðgjöld, fákeppni og fádæma góð afkoma tryggingafélaga segir FÍB