fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Faðir segist dæmdur í héraðsdómi fyrir að að bjarga dóttur sinni – Jörgen segist saklaus: „Þennan dag bjargaði faðir minn lífi mínu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 11. febrúar 2020 20:00

Jörgen Már Guðnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta var sjálfsvörn. Hann réðst á mig með hafnarboltakylfunni sinni en mér tókst að afvopna hann. Ágreiningurinn fyrir dómi stóð hins vegar um það hvenær sjálfsvörn hættir og breytist í árás. Miðað við hvernig hann réðst á mig og ofbeldissöguna sem hann á að baki þorði ég ekki að hætta fyrr en hann var hættur að verja sig, ég varð að gera hann óvirkan,“ segir 63 ára gamall maður sem sakfelldur hefur verið í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás á Jörgen Má Guðnason í nóvember síðastliðnum. Jörgen, sem er 52 ára, hefur sjálfur verið tvisvar dæmdur fyrir heimilisofbeldi gegn tveimur konum.

Maðurinn er sakfelldur fyrir að hafa slegið Jörgen mörgum sinnum með hafnarboltakylfu svo hann hlaut af skurð vinstra megin á hnakka, mar í andliti hægra megin, lítilsháttar blæðingu og bólgur á fótleggjum. Áverkarnir eru ekki varanlegir en í dómnum segir að tilviljun hafi ráðið því að ekki hafi verra líkamstjón hlotist af árásinni. Árásarmaðurinn, sem hefur ekki áður gerst brotlegur við lög, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu rúmlega einnar milljónar króna í skaðabætur að meðtöldum dráttarvöxtum og rúmlega 1.300 þúsund króna í málskotnað.

Árásin átti sér stað á heimili Jörgens en þangað var maðurinn kominn til að sækja viðkvæm stafræn gögn sem Jörgen hafði í vörslu sinni og tengdust dóttur mannsins, að því er maðurinn og dóttir hans segja. Jörgen hafði hótað að birta gögnin vinnufélögum konunnar. Dóttir árásarmannsins er fyrrverandi sambýliskona Jörgens og segist hún sjálf vera með viðamikið dómsmál á hendur Jörgen í undirbúningi vegna meints alvarlegs og grófs ofbeldis hans gagnvart henni. Sem fyrr segir er Jörgen tvídæmdur fyrir ofbeldi gegn sambýliskonum sínum.

Þess skal getið að maðurinn er ekki dæmdur fyrir húsbrot gegn Jörgen. Segir hann enda að dyrnar hafi verið opnar þegar hann kom og Jörgen tekið á móti honum með kylfu sinni. Eftir að maðurinn hafði yfirbugað Jörgen og barið á honum afhenti Jörgen honum gögnin, þ.e. maðurinn gat eytt þeim úr síma hans og tölvu.

Árásarmaðurinn og dóttir hans voru tilbúin að veita DV nafnlaust viðtal. Segjast þau tilbúin að stíga fram síðar í fjölmiðlum undir nafni og mynd þegar málarekstur konunnar gegn Jörgen er kominn lengra. „Þetta er mjög viðkvæmt á þessu stigi því ég á sex ára gamlan son en ég mun samt verða tilbúin að stíga fram til fulls og skila skömminni þegar mál mitt gegn Jörgen er komið lengra,“ segir konan sem er þrítug.

„Ég mun kæra Jörgren fyrir gróft ofbeldi til fjögurra ára. Málið er í rannsókn hjá lögreglu sem þarf að afla margra gagna og ræða við vitni. Þetta mun því taka sinn tíma en þegar að því kemur mun ég verða tilbúin að stíga fram til fulls og segja þessa sögu,“ segir konan.

Um árásarvopn föður hennar gegn Jörgen segir konan: „Ég veit allt um þessa kylfu. Hún var alltaf til taks í anddyrinu hjá honum.“

Segist hafa verið í sjálfsvígshættu vegna ofbeldis

Aðdragandi árásarinnar í nóvember var nokkurra ára mánaða gamall. Dóttir mannsins var þá enn í sambandi við Jörgen sem henni tókst ekki að slíta til fulls, að sögn hennar vegna ofbeldishótana hans og óttans sem þær vöktu. Hún starfaði þá sem bókari á skrifstofu hjá góðu fyrirtæki og var þetta fyrsta starfið hennar á því stigi en áður hafði hún bara verið í þjónustustörfum. Hún segir að Jörgen hafi verið á móti því að hún starfaði þarna og gengi vel því hann hafi viljað halda henni niðri. Hafi hann sent yfirmanni hennar mjög ljót skilaboð um hana. DV hefur skjáskot af þessum skilaboðum undir höndum. Jörgen hafi einnig hótað því að senda viðkvæmu stafrænu gögnin um konuna á alla vinnufélaga hennar.

„Ég var farin að þurfa að taka öndunaræfingar áður en ég fór á skrifstofuna. Þessi framganga var hrikalega niðurlægjandi fyrir mig sem var að reyna að standa mig í nýju starfi á meðan hann reyndi að sverta svona ímynd mína.Þetta var það sem var í gangi þegar pabbi minn sá ekki annað í stöðunni en fara að tala við hann og freista þessa að ná gögnunum,“ segir konan en lýsir því jafnframt að meint ofbeldi Jörgens hafi bæði verið líkamlegt og andlegt.

„Við erum ekki að tala um einhverja löðrunga heldur mjög gróft ofbeldi með ljótum áverkum og innvortisblæðingum,“ segir konan en þrátt fyrir þetta hafi andlega ofbeldið verið enn verra.

„Þetta var komið í þann farveg að ég var hjá samtökunum Pieta út af sjálfsvígshættu. Hótanir Jörgens vorum með þeim hætti að ég sá enga aðra leið en að binda endi á þetta. Samt átti ég fimm ára gamlan son. En örvæntingin og vonleysið verða svo mikið þegar ofbeldismaðurinn er byrjaður að hóta ástvinum manns, maður vill hlífa þeim og staðan getur orðið sú að manni finnst skást að láta sig bara hverfa frá öllu saman,“ segir konan en hún og faðir hennar staðhæfa að Jörgen hafi meðal annars hótað því að leggja fyrirtæki barnsföður hennar í rúst og kveikja í húsi móður hennar.

„Jörgen reynir sífellt að halda því fram ég hafi verið í neyslu en það er fullkominn hugarburður. Ég var að standa mig vel í krefjandi starfi og að ala upp son minn. Hans útgáfa er sú að ég hafi verið illa farin af óreglu og hann hafi verið að reyna að bjarga mér. Þetta er taktík sem hann hefur beitt áður. Ég hef þurft að vera í meðferð hjá sálfræðingum og Kvennaathvarfinu og hef vitnisburð sérfræðinga um að andlegt ástand mitt á sínum tíma stafaði af langvarandi ofbeldi. Ég gat ekki meira og var fyrir löngu farin að semja kveðjubréf til foreldra minna.“

Segir að faðir sinn hafi bjargað lífi sínu

„Þennan dag bjargaði faðir minn lífi mínu,“ segir konan um árás föður hennar á Jörgen. Atvikið hafi leitt til þess að hún hafi horfið frá því að taka eigið líf og flýja þannig frá öllu saman og þess í stað öðlast kjark til að kæra Jörgen.

„Eftir þetta kærði hann og það varð til þess að ég varð tilbúin að segja mína sögu og kæra hann. Dómsmálið sem ég er að undirbúa er miklu alvarlegra og viðameira en þetta árásarmál.“

Konan segir jafnframt að fortíð Jörgens segi mikla sögu um hvernig maður hann sé. Það sé enginn venjulegur ofbeldismaður sem hafi verið tvídæmdur fyrir ofbeldi gegn sitthvorri konunni því eins og allir viti sé mjög erfitt að knýja fram sakfellingu í heimilisofbeldismálum og flest slíkt ofbeldi sé aldrei kært.

Birti myndbönd þar sem hann sat fyrir þolanda sínum

Sem fyrr segir hefur Jörgen Már, sem fæddur er árið 1968, tvisvar verið dæmdur fyrir ofbeldi gegn konum. Hann hefur hins vegar ekki áður verið þolandi í ofbeldismáli. Mikið hefur verið fjallað um mál Jörgens í fjölmiðlum í gegnum tíðina, mest í DV og Stundinni. Hann hefur einnig verið sakaður um að sitja um og ofsækja sambýliskonur sínar eftir að þær voru farnar frá honum. Um eitt slíkt mál er fjallað í Stundinni árið 2015. Þar kemur fram að eftir dóminn tók Jörgen upp myndbönd af fyrirsát sinni um heimili konunnar og birti á Youtube.

Jörgen segir konuna hafa rústað heimili hans

„Það er búið að handtaka hana tvisvar, einu sinni á heimili mínu og einu sinni úti á Skólavörðustíg, fyrir líkamsárás á mig. Lögregla leiddi hana út af heimili mínu eftir að hún hafði mölvað allt og brotið heima hjá mér og veitt mér líkamsáverka,“ segir Jörgen við blaðamann DV en hann veitti góðfúslega viðtal vegna málsins.

Sagði Jörgen að lögmaður hans ætti gögn um þessi atvik, þ.e.a.s. afrit af lögregluskýrslum. Er DV hafði samband við lögmann Jörgens sagðist hann engin gögn hafa um málin.

Er DV bar þetta undir konuna sagði hún að í báðum tilvikum hefði lögreglan forðað henni frá Jörgen vegna meints ofbeldis hans.

Jörgen segir einnig við DV að konan hafi lengi þjáðst af alkóhólisma og eiturlyfjafíkn. „Hún hefur líka komið drukkin að heimili mínu og barið alla glugga að utan,“ segir Jörgen og tilgreindi vitni að þeim atvikum.

Jörgen harðneitar því að hafa átt kylfuna sem maðurinn beitti gegn honum og enn síður að hann hafi beitt henni fyrst gegn árásarmanninum. Þess skal getið að texti dómsins er mjög stuttur og ekki er farið út í þessi álitamál í atvikalýsingu í dómnum sem er örstutt.

Jörgen segir að maðurinn hafi notað þessa sömu kylfu til að brjótast inn í bílinn hans og hann hafi auk þess stolið bílnum hans. „Það eru fleiri mál í undirbúningi,“ segir hann.

Jörgen segir jafnframt að árásin hafi verið framin á afmælisdaginn hans og þann dag hafi konan sent honum skilaboð þar sem hún sagðist hlakka til að hitta hann um kvöldið og halda upp á fimm ára sambandsafmæli þeirra. Sagðist Jörgen eiga skjáskot af þessum skilaboðum.

DV minnti Jörgen á að hann hafi hlotið tvo dóma fyrir heimilisofbeldi. „Ég er örugglega með helling, ég er sjálfur mjög latur við að kæra. Ég er með lítinn ungling hérna heima hjá mér sem ég passa mikið upp á. Svona kemur mjög illa við hann.“

DV vill árétta að samkvæmt dómsorði er Jörgen hér þolandi en ekki árásarmaður og árásarmaðurinn var sannanlega dæmdur í héraðsdómi fyrir alvarlegt ofbeldi gegn honum. En málið virðist hluti af stærri og flóknari framvindu mála sem engan veginn sér fyrir endann á.

Jörgen sagðist vilja senda DV gögn sem sönnuðu orð hans um konuna, bæði frá honum sjálfum og lögmanni hans. Gögnin bárust DV ekki fyrir birtingu fréttarinnar en verða nýtt í fréttaflutning síðar ef þau berast og efni þeirra gefur tilefni til þess.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga