fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fréttir

Óupplýst glæpamál sem ollu óhug- Mæðgur hurfu sporlaust – Blásýra í lyfjahylkjum

Auður Ösp
Sunnudaginn 9. júní 2019 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fátt vekur meiri óhug en óleyst glæpamál. Eftir því sem tíminn líður minnka líkurnar á að ráðgátan leysist. Hvarf bresku stúlkunnar Madeleine McCann í Portgúal er án efa eitt þekktasta málið sem upp hefur komið seinustu ár. Hér fyrir neðan má lesa um nokkur dæmi í viðbót.

Hurfu sporlaust

Þann 7. júní 1992 hurfu þrjár konur í bænum Springfield í Missouri. Þetta voru þær Sherrill Levitt 47 ára, dóttir hennar Suzie Streeter 19 ára og vinkona hennar Stacy McCall, 18 ára.

Um ellefuleytið að kvöldi 6. júní ræddi Sherill við vinkonu sína í síma. Ekki er vitað hvað hún gerði eftir það. Suzie og Stacy sáust seinast um tvöleytið aðfaranótt 7. júní, þegar þær yfirgáfu partý í nágrannabæ Springfield. Allt bendir til að þær stöllur hafi því næst farið heim til Suzie.

Morguninn eftir hringdi vinkona Suzie dyrabjöllunni á heimili mæðgnanna en enginn kom til dyra. Engu að síður voru bifreiðar kvennanna fyrir utan.

Móðir Stacy mætti nokkrum klukkustundum síðar til að grennslast fyrir um dóttur sína og hleypti sjálfri sér inn þar sem útidyrahurðin var ólæst. Enginn var heima. Móðirin hafði samband við lögregluna í kjölfarið.

Lyklar, peningar og veski kvennanna þriggja höfðu verið skilin eftir í húsinu, auk þess sem heimilishundurinn var einn og yfirgefinn. Þá fundust óhreinir þvottapokar með andlitsmálningu á baðherberginu sem bendir til að vinkonurnar hafi komið heim og gert sig tilbúnar í háttinn. Þá benti allt til þess að Sherill hefði sofið í rúminu sína um nóttina.

Á heimili mæðgnanna fundust engin merki um átök eða innbrot og ekkert hafði verið átt við verðmæti í húsinu. Þrátt fyrir fjölda ábendinga og ítarlega lögreglurannsókn hefur aldrei tekist að upplýsa hvað varð um konurnar þrjár þessa nótt.

Andlát Natalie Wood

Bandaríska leikkonan Natalie Wood lést árið 1981, þá 43 ára að aldri. Hún hafði verið í bátsferð ásamt eig­in­manni sínum, sjón­varps­stjörn­unni Robert Wagner og leik­ar­an­um Christoph­er Wal­ken. Morguninn eftir fannst lík hennar fljótandi í sjónum, 200 metra frá landi við Suður-Kaliforníu. Dánardómstjóri úrskurðaði að hún hefði látist af slysförum. Opinber dánarorsök var sögð vera drukknun.

Ýmsar kenningar spruttu hins vegar upp um hvernig dauða leikkonunnar hefði borið að og vöknuðu grunsemdir um að eiginmaður hennar hefði ráðið henni bana. Vitað er að hann var sá sem seinast sá Wood á lífi.

Rúmlega þremur áratugum síðar steig skipstjórinn á bátnum fram og upplýsti að hann hefði heyrt há­vært rifr­ildi frá ká­etu þeirra hjóna umrædda nótt. Í kjölfarið var málið tekið til rannsóknar á ný og beindist rannsóknin sérstaklega að Wagner. Wagner hefur ávallt neitað allri aðild að dauða eiginkonu sinnar og verið afar ósamvinnuþýður við rannsókn málsins.

Árið 2013 tók annar dánardómsstjóri málið til rannsóknar og komst að þeirri niðurstöðu  að dánarorsök leikkonunnar væri óljós. Miðað við staðsetningu og fjölda áverka væri líklegast að Wood hefði verið ráðinn bani áður en hún lenti í sjónum.

Í viðtali í sjónvarpsþættinum 48 Hours á seinasta ári sagði John Corina lögreglumaður að enn skorti á að framburður Wagner passaði við framburð vitna í málinu og að svo virðist sem Wagner hafi margoft breytt framburði sínum. Þegar upp er staðið þá passi frásögn hans ekki við atburðarásina. Wagner hefur aldrei ekki verið ákærður og telst málið enn í dag óupplýst.

Tylenol morðin

Árið 1982 létust sex fullorðnir og eitt barn í Chicago. Engin tengsl voru milli fólksins en öll áttu þau það sameiginlegt að hafa tekið inn hylki af verkjalyfinu Tylenol.

Síðar kom í ljós að einhver eða einhverjir höfðu laumað blásýru út í lyfjahylkin. Lyfin sem fólkið innbyrti komu frá mismunandi verksmiðjum og voru seld í mismunandi apótekum víðsvegar um borgina. Það var því talið fullvíst að hylkin höfðu ekki verið eitruð í framleiðsluferlinu. Líklegast þykir að einhver hafi farið á milli apóteka og laumað eitrinu í lyfin.

Árið 1986 tilkynnti James E. Burke, formaður fyrirtækisins Johnson & Johnson, að framleiðslu lyfja í hylkjaformi, sem afgreidd væru án lyfseðils hefði verið hætt.

Fljótlega eftir að rannsókn málsins hófst barst lyfjafyrirtækinu Johnson & Johnson bréf frá karlmanni sem játaði að hafa byrlað eitri í lyfin. Krafðist hann hárrar peningagreiðslu ella myndi hann halda því áfram. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að um blekkingu var að ræða. Málið telst enn í dag óupplýst.

JonBenét Ramsey

Að morgni 26.desember 1996 barst tilkynning til lögreglunnar í Boulder í Colorado fylki að sex ára gamalli stúlku, JonBenét Ramsey hefði verið rænt af heimili sínu. Í örvæntingarfullu símtali til Neyðarlínunnar fullyrti móðir hennar, Patsy Ramsey, að bréf hefði verið skilið eftir í húsinu þar sem krafist var lausnargjalds.

Lögreglan mætti á staðinn og hóf rannsókn en þar sem gengið var út frá því að um mannrán væri að ræða var ekki leitað í húsinu. Síðar um daginn fór John Ramsey, faðir JonBenét, niður í kjallara hússins og fann þar lík dóttur sinnar. Hafði hún verið barin og síðan kyrkt.

Ekkert benti til að brotist hefði verið inn í húsið fyrr um nóttina. Í kjallaranum var brotinn gluggi en síðar kom í ljós að John Ramsey hafði sjálfur verið þar að verki nokkrum mánuðum áður eftir að hafa læst sig úti. Á nærbuxum JonBenét fannst erfðaefni sem reyndist vera af ókunnugum aðila. Þrátt fyrir ítarlega leit í gagnagrunni lögreglunnar reyndist ómögulegt að finna viðkomandi, en jafnvel er talið líklegt að umrætt erfðaefni eigi sér aðrar skýringar. Það gæti til að mynda verið úr starfsmanni verksmiðjunnar sem framleiddi nærbuxurnar.

Ramsey fjölskyldan var glæsileg á yfirborðinu; John og Patsy voru vel stæð, áttu glæsilegt hús og tvö falleg börn, Burke 10 ára og JonBenét 6 ára. JonBenét hafði keppt í fegurðarsamkeppnum fyrir börn en Patsy var sjálf fyrrverandi fegurðardrottning.

Rannsókn lögreglunnar beindist fljótlega að þeim John og Patsy og þótti ýmislegt benda til þess að þau hefðu ráðið dóttur sinni bana. Til að mynda kom í ljós að bréfið þar sem lausnargjalds var krafist hafði verið skrifað á bréfsefni af heimilinu. Orðalag og lengd bréfsins þótti einnig undarlegt  auk þess sem í ljós kom að rithöndin var skugglega lík rithönd Patsy Ramsey. Það þótti einnig grunsamlegt að upphæð lausnargjaldsins væri 18 þúsund dollarar, en það var nákvæmlega sama upphæð og John Ramsey hafði fengið í bónusgreiðslu frá vinnunni nokkrum mánuðum áður.

Í kjölfarið spruttu upp getgátur um John og Patsy hefðu banað dóttur sinni og því næst sviðsett ránið til að hylma yfir það sem raunverulega gerðist. Við yfirheyrslur neituðu þau bæði staðfastlega að hafa drepið JonBenét. Þau hafa aldrei verið ákærð vegna málsins. Patsy lést úr krabbameini árið 2016.

Í seinni tíð hafa spjótin einnig beinst að Burke, stóra bróður JonBenét og vaknað upp getgátur um að hann hafi orðið systur sinni að bana í ógáti og foreldrar þeirra reynt að hylma yfir með honum.

Rannsókn lögreglunnar hefur einnig beinst að nokkrum aðilum sem ekki tengjast fjölskyldunni og þá helst dæmdum barnaníðingum.

Bandarískur karlmaður, John Mark Karr, var handtekinn og ákærður vegna morðsins árið 2006 og játaði hann á sig glæpinn. Honum var síðar sleppt þegar í ljós kom að erfðaefni úr honum passaði ekki við það sem fannst á morðstaðnum.

Á seinasta ári tók málið nýjan snúning þegar Gary Oliva, 54 ára dæmdur barnaníðingur, játaði í bréfi að hafa orðið JonBenét að bana.

Í kjölfarið gaf lögreglan í Boulder frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að þáttur Oliva í málinu hafi þegar verið rannsakaður.

Reglulega berast nýjar ábendingar til lögreglunnar varðandi þetta óhugnanlega mál. Rannsókn málsins er enn opin, 22 árum eftir að það hófst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum

Sjáðu myndbandið: Sverrir Einar handtekinn og leiddur út í járnum í miðbænum
Fréttir
Í gær

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“

Snorri og Patrik vekja hneykslun: Konan hugsi um börnin og karlinn um peningana – „Gömlukallaraus í ungum mönnum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt

Kári Hansen skilaði inn meðmælum til forseta Íslands rafrænt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum