Þrír menn voru handteknir í nótt vegna hótana og brota gegn vopnalögum. Átti þetta sér stað í hverfi 104 í Reykjavík. Frá þessu er greint í dagbók lögreglu en ekki er greint nánar frá málinu.
Alls eru 125 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu 17 í gærdag til kl. 5 í nótt. Átta gista fangageymslur.
Eldur kviknaði í íbúðarhúsi í hverfi 105, slökkvilið kom á vettvang og vel gekk að slökkva eldinn.
Maður var handtekinn í miðborginni vegna líkamsárásar.
Maður sem var til vandræða í miðborginni var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar sem hann var ekki í ástandi til að vera úti á meðal almennings.
Mannlaus bíll rann á annan bíl í Kópavogi eftir að ökumaður bílsins hafði ekki gengið tryggilega frá honum.
Maður var handtekinn í hverfi 110 vegna eignaspjalla og hótana, og var hann vistaður í fangaklefa.
Hópur ungmenna voru að gera sér það að leik að ónáða íbúa í hverfi 110 með því að kasta flugeldum í hús. Ekki segir frá því til hvaða aðgerða lögregla greip í málinu.