Sextán ára unglingi hefur meinað að láta draum sinn um að læra svifflug rætast, á grundvelli þess að hann taki daglega inn lyf sem hann hefur ekki tekið í tvö ár. Ennfremur kann réttur hans til að hefja ökunám að vera í hættu vegna greiningar Samgöngustofu á heilsufari hans, sem er að sögn móður hans villandi og röng.
Ítrekaður úrskurður Samgöngustofu (frá 19. september 2023) um þetta barst piltinum (með ábyrgðarbréfi að lögheimili hans þann 17. október síðastliðinn, en erindið er dagsett 4. október 2024), ríflega einu ári eftir að Samgöngustofa synjaði drengnum um 2. flokks heilbrigðisskírteini. Erindið, dagsett 4. október 2024, var undirritað af yfirlækni Samgöngustofu og sérfræðingi flugskírteina, átta dögum eftir að Samgöngustofa var svipt aðgangi að sjúkraskrám.
„Þetta er skelfilegt áfall og í raun óskiljanleg ítrekun. Í þessu plaggi eru birtar rangar og villandi upplýsingar um 16 ára menntaskólabarn. Samgöngustofa heldur því ranglega fram að umsækjandinn taki 54 mg af Concerta á hverjum degi. Sérlæknir drengsins kom af fjöllum þegar ég færði henni þessi tíðindi enda getur hún staðfest að engin afgreiðsla lyfja af þessu tagi til drengsins hefur farið fram síðan árið 2022. Það er staðfest í lyfjagátt Landlæknis,“ segir móðirin í viðtali við DV.
Ekki aðeins er móðirin ósátt við að sonur hennar sé sviptur rétti til að læra það sem hugur hans stendur til á grundvelli rangra upplýsinga heldur svíður henni að úrskurðurinn er byggður á uppflettingum á mjög viðkvæmum persónupplýsingum og ítrekun hans færð syni hennar aðeins nokkrum dögum eftir að Samgöngustofu hefur verið gert óheimilt að fletta upp slíkum sjúkraupplýsingum um umsækjendur.
Þann 3. október síðastliðinn lokaði Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fyrir aðgengi heilbrigðisstarfsfólks hjá Samgöngustofu að sjúkraskrám og var þetta gert samkvæmt fyrirmælum landlæknis, sem komu í kjölfar úrskurðar Persónuverndar varðandi kvörtun sem henni barst frá manni vegna uppflettinga starfsmanns Samgöngustofu í sjúkrakrám hans. Í viðtali við RÚV segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri heilsugæslunnar, að ekki hafi verið staðið rétt að gerð samnings við Samgöngugöngustofu um uppflettingar starfsfólks stofnunarinnar í sjúkraskrám.
Móðir unglingsins sem hér um ræðir bendir á að í úrskurði Samsgöngustofu varðandi umsókn hans um leyfi til svifflugnáms komi fram afar viðkvæmar upplýsingar um piltinn. Í erindinu má lesa fremur nákvæma útlistun á þroskagreiningu unglingsins, sem fram fór þegar hann var þriggja ára gamalt barn. Númer sjúkdómsgreininga eru birt ásamt röngum staðhæfingum um inntöku ADHD lyfja. Ennfremur er vísað í reglugerð um áhafnir í almenningsflugi þar sem tiltekið er að í umræddu lyfi séu geðvirk efni sem ekki eru leyfð á meðal flugliða.
„Ég lít svo á að hér sé um að ræða alvarlega aðför að persónuvernd og persónuöryggi sonar míns sem hefur ekki falast eftir nýjum upplýsingum frá Samgöngustofu, tekur ekki þau lyf sem Samgöngustofa staðhæfir að hann geri, er á sínu fyrsta ári í menntaskóla, er dugmikill nemandi og batt vonir við að hann fengi að fara í sinn fyrsta ökutíma síðar á þessu ári eða snemma á næsta ári. En nú kann það að vera í uppnámi vegna þess að Samgöngustofa hefur gefið út rangar og villandi upplýsingar um hann,“ segir móðirin.
Hún segir að þessi sending hafi valdið vanlíðan og angist í fjölskyldunni. Hún hafi rætt við lögmann til að kanna möguleika á því að leita réttar sonar hennar fyrir hans hönd en lögmaðurinn tjáði henni að mjög dýrt væri að reka slíkt mál.
„Hvað á foreldri ungmennis eiginlega til ráðs að taka við svona aðstæður? Hvernig á venjuleg manneskja að geta varið persónuréttindi umsækjanda og tryggt að rangar upplýsingar séu afmáðar? Hvernig á venjuleg manneskja eiginlega að komast í gegnum slíkt ómanneskjulegt ferli án þess að greiða háar fjárhæðir fyrir til lögmanna sem auðvitað þurfa fá eðlilega þóknun fyrir störf sín?“
Hún segir líka með ólíkindum að Samgöngustofa hafi hvorki haft samráð við sérlækni piltsins né forráðamann hans við öflun og vinnslu upplýsinga sem leiddi til þess að rangar og villandi upplýsingar voru birtar í úrskurðinum.