„Nú eru komnir hátt í átta mánuðir síðan Einar S. Hálfdánarson, fyrrverandi hæstaréttarlögmaður, endurskoðandi og faðir þingkonu Sjálfstæðisflokksins sem var formaður utanríkisnefndar Alþingis á þeim tíma, kærði mig, Solaris og Maríu Lilju fyrir mútugreiðslur á erlendri grundu, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svona á meðal annars, vegna verkefnis sem fól í sér að koma Palestínufólki undan þjóðarmorði á Gaza og til Íslands,“ segir Sema Erla Serdar, formaður hjálparsamtakanna Solaris, í pistli á Facebook-síðu sinni.
Einar kærði þær stöllur fyrr á árinu en þær höfðu ásamt fleiri aðilum liðkað fyrir um för Palestínumanna frá Gaza til ættingja sinna á Íslandi í krafti réttar þeirra til fjölskyldusameiningar. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu felldi niður rannsókn málsins. Því vildi ríkissaksóknari ekki una og gerði embættinu skylt að taka aftur upp rannsókn málsins. En síðan er ekkert að frétta og Sema er orðin þreytt á þessari stöðu. Hún segir ásakanirnar ekki vera annað en brjálæðislega hugaróra lítils karls en sjálf hafi hún sýnt lögreglunni í Reykjavík gögn sem urðu til þess að rannsókn málsins var felld niður. Sema segir síðan í pistli sínum:
„Í sumar fyrirskipaði ríkissaksóknari lögreglu að taka málið aftur til rannsóknar og við fengum réttarstöðu sakbornings á nýjan leik. Athygli vakti að Helgi Magnús, vararíkissaksóknari, svaraði fyrir þá ákvörðun í fjölmiðlum. Það vakti athygli því sama dag ýjaði vararíkissaksóknari að því í annarri fjölmiðlaumfjöllun að Solaris væru hryðjuverkasamtök á sama tíma og hann lét falla hatursorðræðu um fólk frá Mið-austurlöndum. Solaris kærði hatursorðræðu og ærumriðandi aðdróttanir til lögreglu.
Þess ber að geta að málið okkar var ekki tekið aftur til rannsóknar vegna þess að ástæða þótti til að rannsaka frekar hvort við hefðum gerst sekar um einhverja glæpi. Heldur vegna þess að það var einhver formgalli var á vinnubrögðum lögreglu sem við erum látnar líða fyrir. Það þýðir að það er engin rannsókn í gangi og hefur ekki verið mánuðum saman og málinu ætti að vera löngu lokið formlega.“
Semsagt, engin rannsókn er í gangi en þær Sema og María hafa enn réttarstöðu sakbornings. Þó viti flestir að ásakanirnar séu ekki á rökum reistar. Rannsókn hafi ekki staðið yfir mánuðum saman og þær hafa fyrir löngu skilað inn endurskoðuðum gögnum til lögreglu, sem sýna hvernig söfnunarfénu var ráðstafað.
Sema segir að pólitískar ofsóknir séu hér á ferðinni:
„Þetta mál og meðferð þess er auðvitað ekkert annað en pólitískar ofsóknir frá upphafi til enda og það er óþolandi að valdamiklir einstaklingar í íslensku samfélagi geti misnotað kerfið til þess að ná sér niður á þeim sem þau skilgreina sem andstæðinga sína. Að halda kærumálinu opnu svona lengi getur ekki verið annað en meðvituð ákvörðun. Það er gert í því þeim tilgangi að hræða. Að valda óþægindum. Að halda okkur á tánum. Að setja fordæmi. Og það virkar.
Það er ekkert grín að vera kærður fyrir hryðjuverkastarfsemi. Það er jafn klikkað og það hljómar. Það eru mjög alvarlegar ásakanir sem hafa áhrif á okkar daglega líf með ýmsum hætti. Það er fólk þarna úti sem trúir þessum ásökunum. Ásökunum sem ég veit að munu ávallt fylgja mér, Maríu Lilju og Solaris. Þó þær eigi augljóslega ekki við nein rök að styðjast er skaðinn skeður. Og á meðan lögreglan lokar ekki málinu heldur snjóboltinn áfram að rúlla og við erum berskjaldaðar fyrir áreiti og ofbeldi.“