fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024
Fréttir

Símtal vegna dómsmáls kom lögmanni í vandræði

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 18. október 2024 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögmaður sem rekur lögmannsstofu hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða manni nokkrum miskabætur vegna símtals sem löglærður fulltrúi sem starfar á lögmannsstofunni átti við manninn, vegna annars dómsmáls. Fulltrúinn hljóðritaði símtalið að manninum forspurðum en áður höfðu Fjarskiptastofa og úrskurðarnefnd lögmanna komist að þeirri niðurstöðu að með þessari háttsemi hefði fulltrúinn brotið lög. Skaðabótakröfu mannsins var hins vegar hafnað.

Stefna mannsins vegna hljóðritunar símtalsins beindist að lögmanninum sem rekur lögmannsstofuna en fulltrúinn sem hljóðritaði símtalið var lögmaður yfirmanns síns í málinu.

Maðurinn fór fram á 3,2 milljónir króna í skaða- og miskabætur auk dráttarvaxta.

Uppphaf málsins má rekja til sumarsins 2022. Þá hringdi umræddur fulltrúi lögmannsins, sem rekur lögmannsstofuna, í manninn sem átti að bera vitni í dómsmáli sem framundan var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hljóðritunin var síðan lögð fram í því máli. Kom maðurinn af fjöllum þegar sú var raunin og sagðist aldrei hafa fengið að vita að símtalið hefði verið hljóðritað, á meðan á því stóð.

Kvartaði maðurinn yfir háttsemi fulltrúans við bæði Fjarskiptastofu og úrskurðarnefnd lögmanna.

Fjarskipastofa komst að þeirri niðurstöðu að fulltrúinn hefði brotið fjarskiptalög með því að tilkynna manninum ekki þegar í upphafi símtalsins að það væri hljóðritað.

Lögbrot

Yfirmaður fulltrúans, lögmaðurinn sem rekur lögmannstofuna þar sem fulltrúinn starfar, var áminntur af úrskurðarnefnd lögmanna sem komst að þeirri niðurstöðu að lögmaðurinn hefði brotið bæði lög um lögmenn og siðareglur lögmanna. Krafa mannsins um skaðabætur byggði á kostnaði hans við að reka málin fyrir Fjarskiptastofu og úrskurðarnefnd lögmanna.

Vísaði maðurinn til þess að þennan kostnað mætti flokka sem fjártjón og af því að um lögmann væri að ræða sé hægt að gera ríkari kröfur um vönduð vinnubrögð. Fullyrti maðurinn að símtalið við hann hefði ekki verið tekið upp og hann ekki upplýstur um það vegna gáleysis fulltrúans heldur hefði verið um viljaverk að ræða.

Sagði maðurinn einnig að hljóðritunin hefði skaðað viðskiptahagsmuni hans sem tengdust aðila að því dómsmáli sem símtalið snérist um. Maðurinn og lögmaður hans vísuðu í ákvæði skaðabótalaga máli sínu til stuðnings.

Lögmaðurinn, sem var stefnt, og fulltrúinn sem hljóðritaði símtalið sögðu hins vegar enga lagastoð vera fyrir bótakröfum mannsins. Hinn meinti kostnaður vegna kæranna til Fjarskiptastofu og úrskurðarnefndar lögmanna hafi verið óþarfur þar sem hægt sé að kvarta til beggja aðila án nokkurs kostnaðar. Höfnuðu þeir því einnig að miski mannsins væri svo mikill vegna hljóðritunarinnar að hann yrði að fá jafn háar bætur og hann krafðist.

Meingerð

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að það sé óumdeilt að fulltrúinn á lögmannsstofunni hafi brotið lög með því að hljóðrita símtalið, án þess að tilkynna manninum það, og lögmaðurinn beri ábyrgð á því sem vinnuveitandi.

Þegar komi að kröfu mannsins um miskabætur þá komi ekki fram í stefnu á hvaða lagagrundvelli krafan sé byggð. Slíkt sé ekki í samræmi við lög um meðferð einkamála. Þó hafi dómari leyfi til að meta meintan miska út frá ákvæðum skaðabótalaga.

Það er niðurstaða dómsins að hin ólögmæta hljóðritun símtalsins hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn friði og persónu mannsins í skilningi skaðabótalaga.

Lögmaðurinn var því dæmdur til að greiða manninum 350.000 krónur í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta en maðurinn hafði krafist einnar milljónar króna í miskabætur, auk vaxta og dráttarvaxta.

Dómurinn tekur hins vegar undir það með lögmanninum að það hafi ekki verið þörf á því fyrir manninn að leita sér lögfræðiaðstoðar vegna kæra sinna til Fjarskiptastofu og úrskurðarnefndar lögmanna. Segir í dómnum að maðurinn hafi allt eins getað sleppt þessum kærum og farið strax í dómsmál og þá verið dæmdur málskostnaður. Það sé ósannað að tengsl séu á milli þessa meinta fjárhagstjóns vegna málareksturs fyrir Fjarskiptastofu og úrskurðarnefnd lögmanna og háttsemi fulltrúans á lögmannsstofunni. Lögmaðurinn var því sýknaður af skaðabótakröfu mannsins.

Í dómnum segir að lokum:

„Hafa báðir aðilar unnið málið að nokkru og tapað því að nokkru.“

Málskostnaður milli málsaðila var því felldur niður og þurfa þeir þar með báðir að bera sjálfir sinn kostnað af málarekstrinum.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“

Ragnar fór úr rannsókn á ráni í mótmælin við Alþingi – „Ég get ekki bakkað úr svona aðstæðum og ég ætla ekki að skilja þá eftir“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“

Gagnrýnir Þorstein fyrir ummæli um verkakonu í frystihúsi – „En hvert skyldi nú sannleiksgildi þessara orða vera?“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands

Þetta eru helstu leikendurnir í baráttunni um framtíð Sýrlands
Fréttir
Í gær

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans

Eldri borgari vann 70 milljónir og nýbakaður tvíburapabbi 35 milljónir í Happdrætti Háskólans
Fréttir
Í gær

Var með mikið magn af OxyContin innvortis

Var með mikið magn af OxyContin innvortis
Fréttir
Í gær

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum

Efling boðar til aðgerða gegn 100 veitingastöðum
Fréttir
Í gær

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng

Vodafone byrjar að rukka mánaðargjöld fyrir netföng
Fréttir
Í gær

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“

Drápshundarnir í Langholtshverfi hafa drepið ketti og ráðist á fólk – „Hundarnir endurspegla eigendurna“