Í fjórða skipti hefur það gerst að ókunnugur maður hefur haft hægðir á bíl Ragnars Egilssonar, íbúa við Álfhólsveg í Kópavogi. Ragnar hefur látið koma fyrir öflugu myndeftirlitskerfi við heimili sitt og hefur hann birt myndbönd á Youtube af aðförunum eftir hvert einasta skipti.
Í nótt var maðurinn með hauskúpugrímu, en hann hefur áður verið í ýmsum gervum, m.a. jólasveinabúning. Eftir að hafa dregið til hjólbarða í eigu Ragnars stillti hann sér upp fyrir framan bílinn, leysti niður um sig og hægði sér við framhlið bílsins.
Ragnar telur að sami maðurinn hafi verið að verki í öll skiptin og að hann búi ekki í húsinu. Hins vegar telur hann, þó ósannað sé, að athæfið tengist langvarandi nágrannaerjum í húsinu. Raunar hafa þær deilur breyst og þróast. Kjarninn í þeim í dag snýst um að Ragnar gerir fjárkröfur á húsfélagið vegna skemmda á íbúð hans. Ófaglærður píplulagningamaður, sem aðrir íbúar kölluðu til, tók þá að sér að skipta um klóaklagnir hjá Ragnari, en lagði íbúðina hans í rúst, að sögn Ragnars. Ragnar er kominn með lögmann í málið og má búast við málaferlum hans við húsfélagið í nánustu framtíð.
„Þarna tel ég að verið sé að níðast á mér, sem ósjálfbjarga öryrkja,“ segir Ragnar, sem telur uppátækið runnið undan rifjum meðbúenda hans í húsinu.
Hann segir líka fullsannað að hann sé ekki sjálfur að verki því hann er með MS-sjúkdóminn og er bundinn í hjólastól. Myndefnið ber einnig með sér að miklu yngri maður en Ragnar, sem er um sextugt, er þarna að verki.
Fjallað hefur verið um tvö fyrri tilvikin í DV áður en í þriðja skiptið var maðurinn að verki fyrir utan hjá Ragnari þann 1. apríl. Þá skildi hann eftir saurslettur á hlið bílsins og áletrað blað á framrúðunni.
Myndband af atvikinu í apríl er hér fyrir neðan:
Ragnar segir að honum þyki þetta brölt vera fyndið öðrum þræði. Hann ætlar hins vegar ekkert að gefa eftir í deilum við nágranna sína og ætlar að ná fram þeim bótum sem hann telur húsfélagið skulda sér.