Morgunblaðið birti í morgun frétt undir fyrirsögninni: Gögn styðja orð Einars: Stöndumst ekki samanburð. Þar var fjallað um nýja úttekt Viðskiptaráðs á stöðu grunnskóla Íslands í alþjóðlegum samanburði. Þar kom fram að kennurum á Íslandi hafi fjölgað langt umfram nemendur síðasta áratuginn. Fjöldi nemenda á hvern kennara sé langt undir meðaltali OECD, kennsluskylda með minnsta móti og árlegur meðalkostnaður á hvern nemenda í hærri kantinum. Og á sama tíma sé frammistaða nemenda að fara versnandi.
Fréttaflutningur Morgunblaðsins fór fyrir brjóstið á Margréti Elísabetu Ólafsdóttir, prófessor við Listaháskóla Íslands. Hún vakti athygli á málinu inn á hópi Fjölmiðlanörda á Facebook þar sem hún sakaði Morgunblaðið um að taka þátt aðför Viðskiptaráðsins að íslensku skólakerfi þar sem kennarar séu gerðir að blórabögglum.
„Það má því spyrja hvert hugmyndin um hlutverk fjölmiðla sem fjórða valdsins fór, þegar þetta fjórða vald er orðið að málpípu fyrir öfl sem undanfarið hafa veist að ákveðinni starfsstétt en eru hættir að veita stjórnmálamönnum aðhald.
Það versta við þetta er að það er nánast vonlaust að fá fram málefnalega umræðu um skólakerfið hvort sem er í fjölmiðlum, hjá Viðskiptaráði eða kennurum sjálfum, sem eru komnir í þannig varnarstöðu að umræðan fer alltaf að snúast um þá en ekki skólakerfið. Kannski vegna þess að það eru þeir sem ráðist er á.“
Þessar átölur Margrétar fóru svo aftur á móti fyrir brjóstið á Stefáni Einari Stefánssyni, siðfræðing og þáttastjórnanda á Morgunblaðinu. Hann skrifaði:
„Magnað að sjá svokallaðan prófessor skrifa svona um fjölmiðilinn, að því er virðist í fullri alvöru. Er skrítið að illa sé komið fyrir menntakerfinu þegar kennarar á háskólastigi gera engar kröfur til sjálfs sín?“
Margrét svaraði því að hún sé ekki bara að vekja máls á þessu sem kennari heldur líka sem fyrrverandi blaðamaður sem meðal annars starfaði á Morgunblaðinu.
„Ég skrifa þetta ekki síður sem blaðamaður (m.a. á Morgunblaðinu) sem flúði inn í háskólann þegar fjölmiðlum tók að hnigna upp úr síðustu aldamótum. En vissulega líka sem háskólakennari m.a. kennaranema sem eru flestir í fullri vinnu með námi við að kenna – vegna þess að fólk fæst ekki til kennslu.“
Þá svaraði Stefán Einar: „Guði sé lof að þú skulir þó hafa hætt í fjölmiðlunum,“ en það svar fékk Margréti til að hlæja: „Fyrirgefðu en ég get ekki annað en hlegið að tilsvörum. Mikið afskaplega leyfirðu þér að vera dónalegur.“
Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, furðar sig á því að fólk haldi fram samsæriskenningum um fréttaflutning Morgunblaðsins, bæði hvað menntamál varðar og annað. Ásgeir skrifaði greinina sem Margrét kvartaði undan og kannast ekki við neina skipulega aðför að íslensku menntakerfi.
„Ég skrifaði greinina í blaði dagsins og vissara að ég játi það hér með að viðtal mitt við Björn Brynjúlf var ekki hluti af neinu ráðabruggi. Engin ákvörðun var tekin um það á ritstjórninni að nú skyldi aldeilis hjálpa Viðskiptaráði að gera aðför að kennurum, og meira að segja „halda með“ Einari Þorsteinssyni.
Viðskiptaráð sendi út fréttatilkynningu kl. 8 á sunnudagsmorgun – á fjöldamörg tölvupóstföng – með birtingarbann til 6 að morgni mánudags, og mér þótti efnið áhugavert og eiga erindi í umræðuna. Ég bað um grænt ljós hjá yfirmönnum minnar deildar, og stakk í skúffuna öðru efni sem ég hafði hugsað mér að gera skil í mánudagsblaðinu. Rúllaði ég svo upp viðtalinu við Björn Brynjúlf í hvelli og lét grafísku deildina útbúa þrjú fróðleg línu- og súlurit svo að efnið fyllti nærri heila síðu þegar upp var staðið. Greinin þótti nógu áhugaverð til að verðskulda tilvísun á forsíðu, og svo var greinin líka notuð á mbl.is og hefur verið mest lesna fréttin þar í allan dag.“
Ásgeir segir að samsærið, ef slíku sé fyrir að fara, sé miklu heldur hvers vegna aðrir fjölmiðlar sýndu málinu engan áhuga.
„En vilji fólk endilega spinna samsæriskenningar, þá held ég að væri nær að skoða hvers vegna greining Viðskiptaráðs fékk ekki athygli hjá fleiri fjölmiðlum. Ljóst er af smellunum á mbl.is í dag að landsmenn hafa mikinn áhuga á efninu, en í fljótu bragði sýnist mér bara Mogginn hafa unnið eitthvað upp úr póstinum sem Viðskiptaráð sendi út, og síðan að Mannlíf bættist við með morgunkaffinu – aðallega vegna þess að Mogginn hafði þá komið boltanum af stað. Mér skilst líka að Sprengisandur hafi pælt aðeins í málinu og þá út frá umfjöllun Moggans.
Í ljósi þess hvað fólk var að æsa sig yfir ummælum borgarstjóra um miðjan mánuðinn, og í ljósi þess hvað umræðan um skólakerfið og kjaramál kennara er logandi heit, er það umhugsunarvert (og kom mér á óvart) að ef maður skoðar þá íslensku fjölmiðla sem auðvelt er að fletta upp á vefnum þá er eins og Viðskiptaráð hafi ekki sent út nokkurn skapaðan hlut.
Svei mér þá ef það er ekki efni í betri samsæriskenningu, þegar fjölmiðlar hundsa verulega fréttnæmt efni frekar en að gera því skil.“