Bjartmar Leósson, einnig þekktur sem hjólahvíslarinn, birtir opið bréf til fjármála-, heilbrigðis- og dómsmálaráðherra. Þar segist hann í fimm ár hafa reynt að fylla upp í skarð sem myndast hefur vegna fjársveltis og vanrækslu stjórnsýslunnar í tilteknum málum. Höfuðborgin hafi stækkað mikið undanfarin ár og þar með hefur glæpum fjölgað. Engu að síður hefur lögreglan ekki fengið að vaxa í samræmi við borg og því neyðist lögregla til að forgangsraða málum og má illa við því að rannsaka hjólastuld.
„Það sem við glímum við hér er bein afleiðing þess að hér er fjársvelt og fáliðuð lögregla annars vegar og hins vegar meðferðarúrræði sem hafa hingað til verið langt frá því að ná að dekka almennilega það ástand sem hér hefur skapast þegar kemur að fólki með fíknivanda og glæpina sem mörg þeirra leiðast út í.“
Sem betur fer séu nú teikn á lofti um að meðferðarmálin séu að rata í réttan farveg. En öðru gildi með lögreglu. Lögreglan sé fáliðuð og fjársvelt og ekki við hana að sakast heldur ráðamenn.
„Ykkur ber skylda til að vera með puttann á púlsinum og vita hvað er að gerast í samfélaginu. Og þurfið að tryggja það að lögreglan og meðferðarúrræðin séu að höndla það sem er að gerast í þessum málum á Íslandi í dag.“
Bjartmar ásamt góðum liðstyrk hafi gert sitt í gengum árin til að endurheimta stolin hjól, en það umhugsunarvert að það komi í hlut almennra borgara að sinna þessu starfi.
„En á sama tíma hugsa ég oft um það að einhver er ekki að vinna vinnuna sína, fyrst við þurfum að sinna þessu.
Ég er bæði stoltur en líka svolítið hugsi yfir því að lögreglan bendi fólki á að tala bara við mig þegar þau tilkynna hjólastuld. Ekki vegna þess að þeir nenna þessu ekki, heldur vegna þess að þar á bæ þarf að forgangsraða.
Það er rosalega mikið af miklu alvarlegri málum sem lögreglan þarf að sinna. Undirmönnuð og undirfjármögnuð. Og svo mikið sem lögreglan nær ekki að tækla út af þessari stöðu.
Svo velti ég líka fyrir mér álaginu á lögregluþjóna í þessu undirmannaða og undirfjármagnaða starfi sem þeir sinna. Full mikill þungi á þeirra herðum vægast sagt. “
Það sé allt hreinlega rauðglóandi í þessum málum og sé það ráðamanna að bregðast við. Þangað til þurfi almennir borgarar eins og Bjartmar að halda götóttum báti stjórnvalda á floti. En þessi bátur flýtur ekki endalaust og þarf nauðsynlega að komast í viðgerð.