Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og matvælaráðherra, hefur ákveðið að stíga til hliðar og gefa ekki kost á sér til þings í komandi alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu á FB-síðu hennar.
Bjarkey hefur verið þingmaður í 20 ár og segir hún þetta hafa verið skemmtilegan tíma:
„Þetta hefur verið afar skemmtilegur tími og ég hef notið þess að hitta fjöldann allan af fólki og mynda góð tengsl víða í kjördæminu í gegnum árin. Það tel ég vera afar mikilvægt enda oft snúið að fylgja eftir mörgum þeim málum sem við landsbyggðarfólk þekkjum svo vel og kallar á sterkar raddir inn á Alþingi. Ég tel að ég hafi sinnt kjördæminu af alúð sem og landinu öllu þessi ár sem ég hef verið á þingi.“
Bjarkey segir stjórnmálavafstrið hafa skapað erfiðar heimilisaðstæður en hún hefur verið í fjarbúð síðastliðin 12 ár:
„Ég hef verið í fjarbúð s.l. 12 ár og farið heim nærfellt hverja helgi til að njóta samvista við fjölskylduna og er ég þakklát þeim fyrir þolinmæðina og stuðninginn alla tíð.“
Hún segir flókna stöðu framundan í pólitíkinni og óskar hún komandi ríkisstjórn velfarnaðar í sínum verkefnum.
Pistilinn má lesa með því að smella tengilinn hér fyrir neðan: