Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hætt rannsókn á fyrrverandi starfsmanni Lyfju sem var kærður til lögreglu fyrir tilefnislausar uppflettingar í lyfjagátt haustið 2021. Nútíminn greinir frá þessu og hefur fengið staðfest í tölvupósti frá embættinu.
Starfsmaðurinn sem var kærður er Vítalía Lazareva. Hún vakti landsathygli árið 2021 er hún steig fram í viðtali í hlaðvarpi Eddu Falak og sakaði þjóðþekkta athafnamenn um kynferðislega áreitni í heitum potti í sumarbústað.
Hún kærði mennina síðar fyrir áreitni og þeir kærðu hana fyrir tilraun til fjárkúgunar. Þau mál voru einnig felld niður.
Varðandi uppflettingarnar í lyfjagátt hefur Nútíminn einnig fengið svör frá Persónuvernd varðandi aðkomu embættisins að málinu: „Þar segir að Persónuvernd hafi lokið frumkvæðisathugun sinni með ákvörðun þann 27. júní 2023. Sú ákvörðun hefur ekki litið dagsins ljós fyrr en nú en í henni kemst stofnunin að þeirri niðurstöðu að embætti landlæknis hefði ekki gert viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja vðunandi öryggi persónuupplýsinga i lyfjaávísanagátt. Lagði stofnunin fyrir embættið að slíkt yrði gert í því skyni að varna gegn óheimilum aðgangi að persónuupplýsingum úr lyfjaávísanagátt,“ segir í frétt Nútímans.
Sjá nánar hér.