fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Stjórnarandstaðan er besti vinur ríkisstjórnarinnar

Sitjandi ríkisstjórn verður aðgerðarlítil ládeyðustjórn segja stjórnmálafræðingar – Í stöðugri fallhættu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 5. mars 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hefur setið við völd í tæpa tvo mánuði og nokkuð gustað um hana. Um liðna helgi voru helstu átakamálin sem stjórnin hefur þurft að glíma við tíunduð í DV. Þeirra á meðal var ósamstaða í stórum málum, svo sem sjómannaverkfallinu, og sú staðreynd að ekki styðja allir þingmenn stjórnarmeirihlutans ríkisstjórnarfrumvörp sem boðuð hafa verið.

En nú virðist hafa hægst nokkuð um. Það er í það minnsta mat stjórnmálafræðinga sem DV ræddi við. Þau Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, og Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, eru bæði þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin sé veik, hún verði ekki til stórræðanna og hafi ekki afl til að ráðast í grundvallarbreytingar. Hins vegar sé ekki ástæða til að ætla annað en að hún geti setið út kjörtímabilið, að óbreyttu. Eiríkur bendir raunar á að í þeim efnum sé sundruð stjórnarandstaða líflína stjórnarinnar, stjórnarandstaðan hafi enga burði til að vera valkostur við sitjandi stjórn.

Óeining er í eðli stjórnarinnar

Eiríkur segir stjórnina hafa farið af stað með lítinn stuðning og hafa lent í vandræðum með ýmis mál strax í upphafi. „Mér finnst hins vegar að það hafi hægst aðeins um núna upp á síðkastið, það sé meiri ró yfir stjórninni en var í upphafi. Það voru talsvert miklar erjur innan hópsins í upphafi. Það er samt einhver sérkennileg ólga innan stjórnarliðsins en í það heila hefur þetta gengið.“

Eiríkur segir að það segi margt um eðli ríkisstjórnarinnar sem nú situr að þingmenn stjórnarflokkanna leyfi sér að tala opinskátt gegn henni, líkt og Páll Magnússon og Ásmundur Friðriksson gerðu þegar þeir töluðu beint gegn yfirlýsingum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegsráðherra í sjómannaverkfalli. Hið sama megi segja um þá Brynjar Níelsson og Óla Björn Kárason sem báðir hafa lýst því að þeir styðji ekki frumvarp félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun. „Það segir auðvitað sína sögu um eðli þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að þingmenn hennar skuli leyfa sér að setja sig upp á móti henni og þeim málum sem hún leggur á. Þetta er auðvitað viðkvæm staða en það var ljóst frá upphafi. Það má ekki gleyma því að menn féllu ítrekað frá því að mynda þessa ríkisstjórn, áður en loksins varð af því, einmitt vegna þess að menn sáu fyrir sér svona vandræði. Þetta er í raun og veru bara eðli þessarar ríkisstjórnar.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mun þurfa að berjast fyrir lífi sínu

Eiríkur segir ómögulegt að segja til um framtíðina, hvort ríkisstjórnin geti setið út kjörtímabilið eða hvort áframhaldandi núningur verði til þess að upp úr slitni. „Þetta er ríkisstjórn þriggja flokka með minnsta mögulegan meirihluta og eðli málsins samkvæmt er hún í stöðugri fallhættu. Vegna þess hvernig hún er samsett er hún alltaf að berjast fyrir lífi sínu og mun þurfa að gera það út kjörtímabilið. Það steðjar að henni meiri hætta en vant er vegna þess að hún hefur svo tæpan meirihluta og innan hennar eru uppi svo ólík sjónarmið. Það hefur hins vegar ekkert gerst sem bendir til að sú hætta hafi aukist eða sé eitthvað meiri nú en var fyrirséð strax í upphafi.“

„Í raun hefur enginn stjórnarþingmaður hag af því að sprengja ríkisstjórnina“

Hafa ekki hag af því að sprengja stjórnina

Spurður hvort hann telji líklegt að stjórninni takist að þjappa sér saman og auka eindrægni í sínum röðum svarar Eiríkur því neitandi. „Ég held ekki. Ég held að sjónarmiðin séu svo ólík að það verði núningur áfram. Það hins vegar sem heldur ríkisstjórninni saman er að það er hagur allra þingmanna meirihlutans að hún haldi. Það eru þeirra sameiginlegu hagsmunir og í raun hefur enginn stjórnarþingmaður hag af því að sprengja ríkisstjórnina.

Stjórnarandstaðan mun ekki ná saman

Besti vinur núverandi ríkisstjórnar er hins vegar stjórnarandstaðan, sem er ein sú tvístraðasta sem við höfum nokkru sinni séð. Stjórnarandstaðan getur ekki tekið við eins og hún er núna samsett, það er bara algjörlega ómögulegt. Það er þetta sem gerir það að verkum að ríkisstjórnin er, þrátt fyrir innbyrðis veikleika, á vetur setjandi,“ segir Eiríkur sem telur ekki líkur á að stjórnarandstaðan nái að þjappa sér saman og bjóða upp á valkost við sitjandi stjórn. „Nei, bilið á milli Framsóknarflokksins annars vegar og Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingar hins vegar er of mikið. Þetta er það sem tryggir líf ríkisstjórnarinnar.“

Eiríkur Bergmann segir einhverja sérkennilega ólgu innan stjórnarliðsins.
Sérkennileg ólga Eiríkur Bergmann segir einhverja sérkennilega ólgu innan stjórnarliðsins.

Mynd: DV / Sigtryggur Ari

Mikilvægt að kjarasamningar héldu

Stefanía tekur að mestu leyti í sama streng og Eiríkur. „Eins og þetta kemur mér fyrir sjónir er bara ríkjandi ládeyða. Fyrir utan þessar skýrslur tvær sem Bjarni [Benediktsson] hefur þurft að svara fyrir þá hafa ekki komið fram mjög stór erfiðleikamál. Ráðherrar eru hver í sínu ráðuneyti að koma sér inn í mál og það er lítið komið frá þeim. Þau mál sem eru til umfjöllunar eru þingmannafrumvörp, til dæmis áfengisfrumvarpið,“ segir Stefanía og ítrekar að þrátt fyrir að það mál sé oft hengt á ríkisstjórnina þá sé það samt sem áður ekki stjórnarfrumvarp.

Mikilvægt hafi verið fyrir framhaldið, segir Stefanía, að verkalýðshreyfingin hafi ákveðið að rifta ekki kjarasamningum nú í liðinni viku. Það hefði getað orðið afdrifaríkt fyrir stjórnina og erfitt að takast á við harðar deilur á vinnumarkaði. Í því samhengi bendir Stefanía á óeiningu innan stjórnarinnar í nýafstöðnu sjómannaverkfalli. „Það sýndi veikleika stjórnarinnar, stjórnar sem treystir á eins manns meirihluta. Þar er hver þingmaður í raun með neitunarvald. Það gæti síðan skapað úlfúð innan stjórnarliðsins ef farið yrði í það í miklum mæli að sækja stuðning við umdeild mál til stjórnarandstöðunnar. Það verður að fara varlega í þeim efnum.“

Andstaða ákveðinna þingmanna kemur ekki á óvart

Stefanía segir það ekki koma sér á óvart að stjórnarþingmenn hafi leyft sér að tala með afgerandi hætti gegn ýmsum málum stjórnarinnar á fyrstu dögum samstarfsins. „Nei, það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart þegar horft er til þess hvaða þingmenn þetta eru. Páll Magnússon er til að mynda nýr á vettvangi stjórnmálanna og er að tala til sinna kjósenda fremur en flokksyfirstjórnarinnar. Óli Björn [Kárason] hefur haldið á lofti ákveðnum prófíl í sínum málflutningi í gegnum tíðina og hans afstaða rímar bara við það.“

„Þetta verður, trúi ég, aðgerðarlítil ríkisstjórn, miðjumoð“

Stjórnin ekki til stórræðanna

Stefanía segir að hún hafi fyrir fram sett spurningarmerki við það hvort ríkisstjórnin gæti orðið langlíf. Sú spurning standi enn. „Stjórnin er heppin að því leyti að samkomulag á vinnumarkaði hélt og það er uppgangur og góðæri. Það eru hins vegar ýmis vandræðamál við sjóndeildarhringinn, of mikil styrking gengis krónunnar, sala bankanna, losun hafta og heilbrigðiskerfið. Þessi mál eru hins vegar ekki komin fram þannig að það hefur ekki enn reynt á límið í ríkisstjórninni. Enn sem komið er heldur þetta samstarf áfram í hægagangi, það hefur lítið reynt á ríkisstjórnina enn sem komið er. Ég held að þessi ríkisstjórn, með þennan tæpa meirihluta, verði ekki til stórræðanna. Hún getur ekki markað algjörlega ný spor. Þetta verður, trúi ég, aðgerðarlítil ríkisstjórn, miðjumoð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans

Dómur kveðinn upp yfir manni sem réðst á starfsmann Landspítalans
Fréttir
Í gær

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv

Segir það verða sannkallaða martröð fyrir Rússa ef þeir ráðast inn í stórborgina Kharkiv