fbpx
Miðvikudagur 08.júlí 2020
Fókus

„Persónurnar verða margslungnar í tilfinningaríkri túlkun Unnar Aspar og Hilmis Snæs“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 24. september 2018 21:00

Dúkkuheimili, annar hluti

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Silja Aðalsteinsdóttir, íslensku- og bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri skrifar á heimasíðu Tímarits Máls og Menningar leikdóm um Dúkkuheimili, 2. hluti,  sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu á föstudag.

Höfundur: Lucas Hnath
Þýðing: Salka Guðmundsdóttir
Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir
Leikmynd: Börkur Jónsson
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikari:  Unnur Ösp Stefánsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Margrét Helga Jóhannsdóttir og Ebba Katrín Finnsdóttir.

„Hvert ætli þú hefðir svo sem getað farið?“ spyr Vilborg Dagbjartsdóttir Nóru Ibsens í ljóðinu „Erfiðir tímar“ (Kyndilmessa 1971) og áreiðanlega hefur þessi spurning sótt á huga margra undanfarin tæp 140 ár. Varð hún vændiskona í Kristjaníu? Skúringakona? Vinnukona? Eða gekk hún í sjóinn? Svo litla trú höfðum við á hugmyndaflugi hennar og seiglu og möguleikum kvenna árið 1879 að ég veit ekki til þess að nokkrum manni hafi dottið í hug að henni hafi gengið vel í lífinu – fyrr en ameríska leikskáldið Lucas Hnath steig fram með verk sitt Dúkkuheimili, 2. hluti. Það var frumsýnt í Kaliforníu í apríl 2017 og hefur síðan hlotið ýmsa vegsauka og í gærkvöldi var það frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í ágætri þýðingu Sölku Guðmundsdóttur og undir stjórn Unu Þorleifsdóttur.

Í verki Hnaths kemur Nóra (Unnur Ösp Stefánsdóttir) heim á sitt gamla heimili eftir fimmtán ára fjarveru, glæsilega búin og prýðilega á sig komin. Þar tekur á móti henni gamla barnfóstran Anna María (Margrét Helga Jóhannsdóttir), og fljótlega kemur í ljós að hún hefur átt von á Nóru – Nóra hefur boðað komu sína skriflega. En þó að þessar tvær konur hafi þekkst næstum alla ævi Nóru verða ekki eiginlegir fagnaðarfundir með þeim, það finnst á að gamla fóstran er bitur. Kannski ætti hún betra með að fagna Nóru ef Nóra ætti bágt.

Starfið sem Lucas Hnath fann handa Nóru er snilldarleg hugmynd. Á 18. og 19. öld voru konur meðal vinsælustu og tekjuhæstu rithöfunda Englands og Bandaríkjanna og hann lætur Nóru slást í þeirra hóp. Hún hefur skrifað bækur undir dulnefni – kvennabókmenntir – og mokað inn peningum. En frægð og vinsældir hafa nú komið henni í koll; hún stendur frammi fyrir kæru fyrir lögbrot af því að hún er ennþá – óafvitandi – gift Þorvaldi (Hilmir Snær Guðnason) en hefur staðið í viðskiptum eins og ógift kona. Hún þarf að fá skilnað og það strax. Svo fer að hún hittir bæði Þorvald  og yngsta barn sitt, dótturina Emmu (Ebba Katrín Finnsdóttir).

Leiktextinn er þéttur og vel hugsaður. Leikurinn á að gerast um aldamótin 1900 og manni bregður aðeins þegar talsmátinn verður óvænt mun nútímalegri en svo, en það er í samræmi við frumtexta Hnaths sem vill að áhorfendum finnist þeir vera að upplifa nýtt verk en ekki hundrað ára gamalt.  Hann vill koma á óvart, bæði með fléttu, orðavali og skoðunum persónanna og það finnst mér honum takast. Einvígi Nóru við Önnu Maríu, Þorvald og Emmu eru fersk og lifandi, forvitnileg og oft stuðandi. Þetta er vekjandi verk um samböndin við okkar nánustu, maka, börn og vini, efni sem fellur líklega seint úr gildi.

Umgjörðin um verkið á Nýja sviði Borgarleikhússins er sláandi. Börkur Jónsson gerir kalda og þurra leikmynd úr ferköntuðum flekum sem þykjast vera úr steinsteypu en þessa fleka lýsir Björn Bergsteinn Guðmundsson meistaralega í takt við framvindu og geðshræringar persónanna. Lýsingin stal reyndar senunni einstaka sinnum, svo mögnuð var hún. Húsgögn eru bara tveir stólar – það kemur fram að öllu sem Nóra átti á heimilinu var hent eftir að hún fór; kannski var ekkert annað eftir í stofunni. Stefanía Adolfsdóttir klæðir persónurnar afar myndarlega, og þær Nóru og Emmu fagurlega, og ævintýralegt var að sjá hvernig kjólarnir skiptu litum í lýsingunni. Yfir og allt um kring er svo tónlist Unu Sveinbjarnardóttur sem mér fannst alveg stórkostleg, bæði sú frumsamda en þó sérstaklega notkun Unu á fiðlustykki eftir Vivaldi sem ég man ekki eftir að hafa heyrt áður.  Það framkallaði stemningu sem var í senn himnesk og átakanlega jarðbundin.

Una Þorleifsdóttir er heppin að fá með sér leikarana sem léku Nóru og Þorvald í verðlaunasýningu Borgarleikhússins fyrir fjórum árum. Og afar skemmtilegt að fá þetta nýja leikrit meðan sú sýning er enn í tiltölulega fersku minni. Það er vissulega annar bragur á þeim hjónum nú, fimmtán árum síðar, svo margt sem hefur gerst sem ýmist er sagt eða ekki er hægt að orða en liggur undir öllum samtölum. Unnur Ösp og Hilmir Snær eiga í engum vandræðum, hvorki með beinan texta né undirtexta, og persónurnar urðu margslungnar í tilfinningaríkri túlkun þeirra.

Það var ánægjulegt að fá að sjá Margréti Helgu aftur í sterku og mikilvægu hlutverki og átök þeirra Nóru ristu djúpt. Unga stúlkan Ebba Katrín var sannfærandi sem hið svikna barn. Fullorðinsleg, næstum því hátíðleg, fullvissaði hún móður sína að hún bæri engan kala til hennar, raunar  hefði hún bara haft gott af því að missa móður sína á þennan hátt. En einnig þar sagði undirtextinn allt aðra sögu. Undirtextinn og það sem ekki er hægt að koma í orð var stundum tjáð í dansi sem einnig vakti hugrenningar og hugrenningatengsl við upprunalega Dúkkuheimilið og var oft sérkennilega áhrifamikill. Sveinbjörg Þórhallsdóttir dansari samdi sporin.

Dúkkuheimili, 2. hluti er djarft tiltæki hjá Lucasi Hnath og verulega gaman að það skuli hafa tekist svona vel bæði hjá honum og listamönnum Borgarleikhússins.

Nánari upplýsingar um sýninguna má finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Konan mín er of kassalöguð“

„Konan mín er of kassalöguð“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig
Fókus
Fyrir 4 dögum

Pírati opnar pólitískan sportbar

Pírati opnar pólitískan sportbar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Illugi illur og sendi bréf – „Óendanlega sorglegt að horfa á þetta myndband ykkar“

Illugi illur og sendi bréf – „Óendanlega sorglegt að horfa á þetta myndband ykkar“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Krókódílaveiðarinn og Darwin deildu gæludýri – Sturlaðar staðreyndir

Krókódílaveiðarinn og Darwin deildu gæludýri – Sturlaðar staðreyndir