fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Andie varð fyrir skotárás í Baltimore

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2007 markaði hin bandaríska Andie Fontaine tímamót þegar hán var fyrsti innflytjandinn til að taka sæti á Alþingi. Hán fæddist sem Paul Fontaine en tók upp nafnið Nikolov þegar hán gifti sig. Í sumar braut Andie annan múr þegar hán tilkynnti að að kynleiðréttingarferli væri að hefjast. DV ræddi við Andie um uppvöxtinn í Baltimore, innflytjendamál, veruna á Alþingi og leiðréttinguna.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

Varð fyrir skotárás

Andie fæddist og ólst upp í borginni Baltimore í Maryland-fylki Bandaríkjanna árið 1971. Þá bar hán nafnið Paul Fontaine. Móðir Andie starfaði sem aðstoðarlögmaður og faðir háns vann fyrir verkalýðshreyfinguna. Andie hefur alla tíð hneigst til vinstri og í dag lýsir hán sér sem sósíalista en það hefur hán að miklu leyti frá föður sínum. Faðir háns tók hán með sér á mótmæli og á samkomur og hán sá óréttlætið sem margir þurfa að lifa við, sérstaklega hörundsdökkt fólk. Í Bandaríkjunum er það heldur ekki sjálfsagt mál að vera í verkalýðsfélagi líkt og hér.

„Baltimore er svo sannarlega ekki leiðinleg borg, þvert á móti er hún mjög lífleg. Flestir þekkja Baltimore úr þáttunum The Wire og þeir gefa mjög raunsanna mynd af borginni. Í sumum hverfum býr aðallega hvítt fólk en svart í öðrum og mikill gæðamunur á innviðum. Ofbeldi lögreglunnar er einnig mikið vandamál í borginni,“ segir Andie.

Í borg þar sem glæpatíðni er há, byssueign almenn og lögreglumenn óhræddir við að beita valdi sínu koma iðulega upp árekstrar og Andie fór ekki varhluta af því. Í þrígang hefur fólk beitt skotvopnum gegn háni. Hán segir:

„Ég var aðeins tíu ára þegar það gerðist í fyrsta skiptið og meðtók ekki alvarleika málsins. Ég og vinir mínir vorum að leika okkur með leikfangabyssur og einhver hringdi í lögregluna og sagði þeim að við værum vopnaðir alvöru byssum. Lögreglumaðurinn stoppaði mig og ég tók upp byssuna, þá tók hann upp sína og óð í mig. Þegar hann sá að þetta var aðeins leikfang varð hann hræddur og skammaðist sín. Síðan varð hann reiður út í mig fyrir að vera með leikfangabyssuna, því hann hefði allt eins getað skotið mig.“

Í annað skiptið, þegar Andie var eldri, var skotið á bíl sem hán var farþegi í. Eftir að hafa komið við í verslun keyrðu hán og Jeremy, félagi háns, frá versluninni á stórum, bláum pallbíl. Jeremy svínaði þá fyrir annan bíl og farþegi þar dró upp byssu. Andie segir:

„Þetta gerðist svo hratt að ég áttaði mig ekki á hvað var að gerast. Við klesstum á bíl og ég heyrði byssuhljóðin: POP! POP! POP! en ég hélt að það væri ekki verið að skjóta á okkur. Jeremy sagði mér að beygja mig og þegar ég hlýddi ekki ýtti hann höfði mínu niður og beygði sig sjálfur. Hann brunaði áfram og keyrði yfir þrjú gatnamót á rauðu ljósi. Síðan stöðvaði hann bílinn úti í vegkanti og ég spurði hvað í fjandanum hann væri að gera. Þá sagði hann mér að farþegi í hinum bílnum hefði verið að skjóta á okkur og hæft bílinn að aftan. Á þeirri stundu fann ég fyrir miklum ótta, skalf og sá að við hefðum getað dáið. Jeremy sá þegar farþeginn setti höndina út um farþegagluggann og beindi byssu að bílnum okkar. Hann keyrði því utan í bílinn sem olli því að þeir keyrðu á annan kyrrstæðan bíl. Við ákváðum hins vegar að tilkynna ekki atvikið til lögreglunnar.“

 

Fékk nóg á gamlárskvöld

Þriðja skiptið skeði einnig þegar Andie var á leið úr verslun. Hópur krakka stóð fyrir utan verslunina og einn þeirra, sennilega um átta ára gamall, kom upp að Andie, lyfti upp skyrtunni og sýndi háni byssuna sem var innanklæða. Ólíkt því sem við sjáum í bíómyndum þá fara flest rán í Bandaríkjunum fram á þennan hátt. Andie var hins vegar aðeins með rúmlega einn dollara í reiðufé á sér og krakkinn varð fyrir sárum vonbrigðum.

Hvenær ákvaðst þú að flytja burt?

„Ég man mjög greinilega eftir þeim tímapunkti þegar ég sá að ég yrði að flytja úr borginni,“ segir Andie. „Það var á gamlárskvöld árið 1997. Í Maryland má aðeins slökkviliðið skjóta upp flugeldum en byssur eru leyfðar. Þess vegna fer fólk út á götur og skýtur upp í loftið. Ég sat í íbúðinni minni og hlustaði á skothríðina úr skammbyssunum og hríðskotarifflunum alls staðar í kring og hugsaði með mér: Þetta er brjálæði.“

Andie vissi hins vegar ekki hvert hán ætti að fara. Hán hafði lesið mikið um ásatrú og Íslendingasögurnar og ákvað því að fara í ferðalag um Ísland. Hán fór á puttanum um landið og kynntist þá fjölskyldu frá Hafnarfirði en þá stóð ekki til að flytja til landsins. Eftir að hán kom aftur heim til Baltimore skrifaðist hán á við fjölskylduna og eftir að hafa endurskoðað líf sitt ákvað hán loks að flytja búferlum hingað árið 1999.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram