Heiðrún Erla Stefánsdóttir átti ekki von á að söngkonan Svala Björgvinsdóttir myndi kíkja í heimsókn. Svala er í miklu uppáhaldi hjá Heiðrúnu sem lék hann á öskudaginn. Heiðrún hefur verið á Barnaspítala Hringsins í erfiðri aðgerð. Feykir.is greinir frá þessu. Í samtali við DV segir Hólmfríður Sveinsdóttir, móðir Heiðrúnar að heimsóknin hafi haft mikil og jákvæð áhrif á dóttur hennar.
Á Feyki kemur fram að Heiðrún hafi farið í aðgerð á góm sem hafi verið lokað með því að taka beinvef úr mjaðmakambi. Um er að ræða stóra aðgerð sem tók fimm klukkustundir. Tókst aðgerðin vel.
„Hún fór í skólann aftur í dag eftir hlé. Krakkarnir svifu á hana og spurðu: „Sástu Svölu virkilega,“ segir Hólmfríður í samtali við DV. Hún bætir við að það hafi verið kærkomin tilbreyting fyrir dóttur hennar að fá að ræða aðra og skemmtilegri hluti en veikindi sín við komu aftur í skólann.
„Ég er óendanlega þakklát Svölu að gefa sér tíma en hún hefur í mörg horn að líta á þessum tímapunkti. Hún frétti að Heiðrún væri mikill aðdáandi og heimsótti hana á Barnaspítalann upp á sitt einsdæmi. Það bað hana enginn um það. Það var fallega gert.“
Hólmfríður segir að áhrifanna af heimsókninni gæti enn.
„Þetta gerði daginn skemmtilega og áhrifin voru gríðarleg og öll jákvæð.“