fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

SKAPAÐU ÞITT DRAUMALÍF Í KARABÍSKA HAFINU

Sigrún Lilja Guðjónsdóttir (35) með námskeið fyrir konur:

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 13. maí 2017 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Lilja, sem oft er nefnd Gyðjan, býður í haust upp á glænýtt og spennandi námskeið fyrir konur. Námskeiðið fram fer í Karabíska hafinu um borð í einu glæsilegasta skemmtiferðaskipi í heimi. „Eftir að hafa útskrifað á annað hundrað konur af námskeiðinu mínu hér heima, Konur til athafna, og haldið þó nokkur „retreat“ fyrir konur á Balí hef ég fengið ómetanlega reynslu í að vinna með konum í að fylgja eftir sínum draumum og þrám,“ segir Sigrún brosandi.

Ársfrí í sjálfsleit

Sigrún Lilja er nýlega komin úr ársfríi þar sem að hún vann í sjálfri sér og sínum málum, sem hún talaði um í persónulegu forsíðuviðtali Séð og Heyrt í lok árs 2016. „Eftir að hafa tekið mér árshlé til að vinna í sjálfri mér og mínu, til að geta boðið upp á enn betri námskeið, hef ég nú þróað nýtt og spennandi „retreat“ fyrir konur sem byggir á fyrri reynslu, en stefnan er að sjálfsögðu alltaf að nýta reynsluna til að bæta sig fyrir komandi verkefni,“ segir Sigrún.

Lúxusferð fyrir allar konur

Því hefur hún sett saman Exclusive Empower Women’s Retreat sem fram fer á einu af stærstu og glæsilegustu skemmtiferðaskipum í heimi á Karabíska hafinu í haust. Lúxus og dekur verður haft í fyrirrúmi á meðan þátttakendur, sem eru eins og nafnið gefur til kynna konur, byggja upp sjálfstraust til að fylgja sínum draumum til fulls, mynda sér stefnu og hanna sitt draumalíf. Siglt verður til Haítí, Jamaíku og Mexíkó á þessu glæsilega skipi en allur matur er innifalinn um borð sem Sigrún lýsir sem engu slori. Það eru fjölmargir veitingastaðir um borð, Starbucks-kaffihús, ísbarir og bistro.

Sigrún naut þess í botn að vera á Balí og býður nú öðrum konum kost á því sama.
GYÐJAN NÝTUR LÍFSINS: Sigrún naut þess í botn að vera á Balí og býður nú öðrum konum kost á því sama.

Ferðin verður vel skipulögð og munu þátttakendur njóta alls hins besta um borð. Má þar nefna veggjaklifur, kennslu og prufu á brimbretti og að skauta svo fátt eitt sé nefnt. Það eru 20 sundlaugar um borð ásamt Broadway-sýningum á heimsmælikvarða. Á áfangastöðunum bíður svo VIP-meðferð kvennanna þar sem þær verða leiddar um staðinn og fá að njóta brots af því besta á hverjum stað fyrir sig.

Aðspurð hvort svona ferð sé ekki dýr svarar Sigrún að reynt verði að halda verðinu sanngjörnu ásamt því að hægt verði að skipta niður greiðslum. „Mig langar að hafa þetta á færi sem flestra. Því þörfin er mikil fyrir svona ferð. Það verða líka mismunandi herbergi í boði og verð eftir því. Ég hef líka ákveðið að bjóða upp á mjög góðan afslátt við forpöntun þegar sala á ferðum hefst, sá afsláttur verður í boði í nokkra daga.“ Það er því um að gera fyrir konur að fylgjast vel með á Facebooksíðu ferðarinnar eða á Snapchat: theworldofgydja til að geta nýtt sér afsláttinn.

Um borð í þessu skipi er allt sem hugurinn og líkaminn þurfa á að halda.
FAGURT FLEY: Um borð í þessu skipi er allt sem hugurinn og líkaminn þurfa á að halda.

„Konur eiga að setja sjálfar sig í fyrsta sætið“

„Vinna í okkur sjálfum vill oft gleymast í amstri dagsins, svo líða dagar, vikur, mánuðir og ár og ekkert hefur breyst. Oft og tíðum, og þá sérstaklega hjá konum, fara að koma fram svokölluð „burnout“-einkenni, sem ég þekki því miður mjög vel,“ segir Sigrún. „En að hafa farið í gegnum það sjálf og lært að vinna mig upp úr því og aftur inn í kraftinn minn hefur auðvitað verið mér dýrmætur lærdómur sem mun nú mögulega nýtast öðrum konum. Hvort sem það er til að fyrirbyggja að þetta gerist eða vinna sig upp úr því.“

Sigrún segir það geta tekið mánuði og jafnvel nokkur ár ef ekki er unnið markvisst í því að vinna sig upp úr „burnout-i“. Einkennin eru margvísleg en oft lýsa þau sér í örmögnun með þeim hætti að orkan einfaldlega hverfur og úthaldið með. Manneskja sem kannski var vön að geta unnið auðveldlega 10–12 tíma á dag kemst varla fram úr rúminu, og vinna í tvo tíma er jafnvel virkilegt átak. „Það er í raun skelfilegt að lenda í slíku en það er hægt að komast upp úr því og komast hjá því líka með því að setja sjálfa sig í fyrsta sætið, sem vill gjarnan gleymast hjá okkur konum.“

Byggir á eigin reynslu

Sigrún segir að konur séu oft höfuðið, herðarnar og allt annað á sínum heimilum auk þess sem þær séu margar hverjar að vinna gríðarlega mikið. „Kröfurnar sem við gerum til okkar eru ekki eðlilegar og þess vegna er „burnout“ svo algengt á meðal kvenna, því miður.“

Eftir eigin reynslu hefur hún útbúið prógramm sem hún vill nú miðla til annarra kvenna, bæði þeirra sem standa í sömu sporum og hún var fyrir ári og þeirra sem eru að bugast undan skyldum hversdagsins. „Í gegnum mína uppbyggingu úr „burnout-i“ þurfti ég að byrja algjörlega á byrjuninni, hver dagur var áskorun en ég bjó mér til prógramm til að vinna mig upp. Það prógramm getur nýst bæði konum sem eru með merki um örmögnun og líka þeim sem vilja ná tökum á lífi sínu; sameina áhugamál, vinnu og svo auðvitað framtíðaráform, en samt án þess að vinna sig í kaf. Það þarf að vera jafnvægi á þessu og með réttum tækjum og tólum er hægt að ná því,“ segir Sigrún.

„Lífið á að vera gefandi, ekki átök“

„Lífið þarf ekki að vera átök og tekið á hörkunni, og það á ekki að vera það. Lífið á að vera gaman, gefandi og hamingjuríkt á hverjum degi. Maður á að finna til tilhlökkunar þegar maður vaknar á hverjum morgni, ef svo er ekki þá þarf að breyta einhverju,“ segir Sigrún og brosir. „Og á þessu námskeiði munum við gera breytingar til betra og hamingjuríkara lífs, bæði í smáum og stórum skrefum. Hverjar breytingarnar eru er mismunandi hjá hverri og einni konu. En sjálfsvinnan sem við förum í verður gríðarleg.“

En ferðin verður ekki bara sjálfsvinna, konurnar munu einnig hafa nægan tíma til að slaka á og njóta sólarinnar og hugsa um það sem farið verður yfir. „Þetta verður mikið andlegt ferðalag fyrir alla þátttakendur og gríðarlega gefandi. Við förum djúpt í hvað konur raunverulega langar að fá í lífinu, hver og ein fær það upp á yfirborðið hjá sér með ákveðinni tækni sem ég hef notað lengi. Konurnar munu svo búa til markmið og plön, tæki og tól til að fylgja þessu eftir þegar heim er komið,“ segir Sigrún sem bíður spennt eftir að miðla af sinni reynslu til kvenna í haust. „Settu sjálfa þig í fyrsta sætið! Því þú átt það skilið.“

Dagsetningar og áfangastaðir fyrir þetta spennandi námskeið, Exclusive Empower Women’s Retreat, sem haldið verður í Karabíska hafinu í haust verður tilkynnt um mjög fljótlega en áhugasömum konum er bent á að fylgjast með á Facebook síðunni og á Snapchat:theworldofgydja.

Sól, strönd, sjór, hér má svo sannarlega njóta sín við sjálfsskoðun.
HÉR MÁ NJÓTA LÍFSINS: Sól, strönd, sjór, hér má svo sannarlega njóta sín við sjálfsskoðun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Seldist hratt upp á Nick Cave – Aukatónleikar boðaðir

Seldist hratt upp á Nick Cave – Aukatónleikar boðaðir
Fókus
Fyrir 5 dögum

Leikkonan stórglæsileg í nýju myndbandi og kom aðdáendum skemmtilega á óvart

Leikkonan stórglæsileg í nýju myndbandi og kom aðdáendum skemmtilega á óvart