Snorri, Andrea og Þórður eru í dómnefndinni – Sigurvegari Eurovision 2015 einnig
Eins og alþjóð veit fara úrslit Söngvakeppninnar fara fram í Laugardalshöll á morgun, laugardag. Þá keppa sjö lög um að verða framlag Íslendinga í Eurovision söngvakeppninni sem haldin verður í Úkraínu í maí.
Í tilkynningu frá aðstandendum Söngvakeppninnar kemur fram að valið á sigurlaginu verði með svipuðu sniði og síðastliðin ár.
„Atkvæði dómnefndar og símaatkvæði landsmanna vega jafnt í fyrsta vali. Þá kemur í ljós hvaða tvö lög eru stigahæst og þegar þau hafa verið flutt aftur, verður kosið á ný. Í það skipti ráðast úrslitin eingöngu með símakosningu landsmanna. Þess ber að geta að þegar einvígið hefst byrjar ný símakosning, þ.e. atkvæði greidd í fyrri hluta gilda ekki í einvíginu,“ segir í tilkynningunni.
Umrædd dómnefnd verður skipuð sjö fagmönnum sem koma hvaðanæfa að úr heiminum. Um er að ræða fjóra erlenda dómara en þrjá íslenska, en þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert í Söngvakeppninni.
Í dómnefndinni eru bæði einstaklingar sem hægt er að kalla „Eurovision-sérfræðinga” sem og fagfólk í tónlist og framleiðslu á tónlistar- og skemmtiefni.
Svíþjóð:
Måns Zelmerlöw – söngvari og sjónvarpsmaður. Sigurvegari Eurovision söngvakeppninnar 2015.
Ástralía:
Julia Zemiro – Eurovisionkynnir, sjónvarps- leik og söngkona.
Frakkland:
Bruno Berberes – Sjónvarpsframleiðandi. Hefur verið í dómnefnd í forkeppnum fyrir Eurovision í Frakklandi og Svíþjóð. Einn framleiðanda The Voice í Frakklandi.
Serbía:
Milica Fajgelj, umboðsmaður tónlistarmanna. Verið í sendinefnd nokkurra í landa í Eurovision keppnum í gegnum árin.
Ísland:
Snorri Helgason, tónlistarmaður
Andrea Gylfadóttir, söngkona:
Þórður Helgi Þórðarson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2