„Þetta var ótrúlega svekkjandi“
„Þetta var ótrúlega svekkjandi,“ segir Gunnar Theodór Gunnarsson, ökukennari með meiru, sem skellti sér á leik Barcelona og Paris Saint-Germain í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudag.
Leikurinn er einn sá eftirminnilegasti í sögu keppninnar enda þurfti Barcelona að vinna upp fjögurra marka forskot frá fyrri leiknum sem tapaðist 4-0. Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var staðan 3-1 fyrir Barcelona og útlitið ekki bjart. Á þeim tímapunkti þurfti Barcelona að skora þrjú mörk til að komast á áfram á þeim örfáu mínútum sem eftir lifðu.
Gunnar taldi – eins og eflaust margir – að Barcelona næði aldrei að skora þrjú mörk á þeim mínútum sem eftir lifðu. Gunnar og félagi hans sem var með honum á leiknum ákváðu því að drífa sig af vellinum til að komast hjá því að lenda í mannþrönginni eftir leikinn. Það hefðu þeir betur látið ógert.
„Þegar við vorum nýkomnir út af vellinum heyrðust fagnaðarlæti,“ segir Gunnar en þá var brasilíski snillingurinn Neymar búinn að skora gullfallegt mark beint úr aukaspyrnu og koma stöðunni í 4-1. „Svo heyrðum við önnur fagnaðarlæti stuttu síðar,“ bætir Gunnar við en þá var Barcelona nýbúið að skora fimmta markið og vantaði því aðeins eitt mark til að komast áfram.
„Svo vorum við komnir nokkuð víðs fjarri þegar allt gjörsamlega trylltist. Bílar flautuðu og það varð allt vitlaust,“ segir Gunnar sem missti af þessum ótrúlega lokakafla, en sá þó sjötta markið á skjá á nærliggjandi bar og þegar flautað var til leiksloka.
Gunnar segir að það sé vissulega svekkjandi að hafa misst af þessum ótrúlega lokakafla sem fer í sögubækurnar. Aldrei áður hefur liði tekist að komast áfram í Evrópukeppni eftir að hafa tapað fyrri leiknum með fjórum mörkum.