fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Kjartan rifjar upp daginn sem Jón Páll dó: „Við vorum þarna þrír að reyna að blása í hann lífi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 8. september 2020 10:23

Kjartan Guðbrandsson og Jón Páll.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjartan Guðbrandsson einkaþjálfari er líklega eini Íslendingurinn sem hefur sigrað keppnir í kraftlyftingum, vaxtarækt, aflraunum, fitness og skotfimi.

Kjartan, sem byrjaði að æfa með Jóni Páli Sigmarssyni, margföldum sterkasta manni heims, sem unglingur er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Kjartan var með Jóni Páli á æfingunni þegar Jón Páll lét lífið.

„Við ætluðum að taka réttstöðulyftu saman og gervihnattasjónvarpið sem var þarna hafði dottið úr sambandi. Hann var að hita upp niðri þegar ég ætlaði að hoppa upp til að plögga sjónvarpinu í gang aftur. Þegar ég kem niður og labba fram hjá afgreiðslunni þá segir sá sem er í afgreiðslunni: „Kjartan, ég held að Jón Páll sé dáinn.“ Þetta er enn þá bara í hálfgerðri þoku. Ég labba inn í sal í einhverri leiðslu og þá liggur Jón Páll þar og hafði greinilega dottið aftur á bak eftir einhvers konar aðsvif. Við vorum þarna þrír að reyna að blása í hann lífi. Ég man að sjúkrabíllinn var mjög fljótur á staðinn, en þetta er enn í móðu eins og ég segi, skuggalegt atvik. En ég man alltaf eftir því að aldrei þessu vant var mamma hans að æfa á þessum tíma og hún segir við mig: „Kjartan, Kjartan, hvað er að“ Og allt í einu erum við bara komin á spítala og það er lítill gluggi og svo bara kemur einn úr læknateyminu út og segir að þetta sé búið,“ segir Kjartan.

Kjartan fékk á þessu tímabili sinn skammt af dauðanum, þar sem hann missti móður sína óvænt, fleiri nána vini og son sinn á skömmu tímabili:

„Ég fékk lexíu í því hvað dauðinn kennir manni á þessu tímabili og það er ekkert sem kennir manni meira. Dauðinn kennir manni það að það er ekkert sjálfsagt og þú skalt njóta hverrar mínútu og hann kennir manni rosalega öfluga lexíu sem er að ganga til hvílu að kvöldi án þess að eiga í illdeilum við fólk. Það er ekkert til verra en óuppgerðir hlutir við fólk sem fer. Ég þekki það eftir að hafa misst báða bræður mína í fyrra og hittiðfyrra.”

Ógleymanlegt tímabil

Kjartan segir tímabilið þegar Gym 80 var í uppbyggingu ógleymanlegt og man sérstaklega vel eftir því þegar Jón Páll fékk hann til að koma að brjóta niður veggi:

„Þessi hugmynd með Gym 80 vaknaði bara á rúntinum og úr varð mjög mögnuð stöð. Ég gleymi því aldrei þegar það þurfti að brjóta veggina áður en stöðin opnaði af því að þarna var bara íbúð áður. Hann hringir í mig og við mætum með kúbein niður eftir. Hann byrjar með kúbeinið, en svo bara gafst hann upp á kúbeininu og byrjar að hlaupa niður veggina og gefa frá sér rosaleg hljóð. Hann var 140 kíló þarna og þetta var eins og í Marvel mynd. Það vantaði bara merkið framan á hann, því hann hafði allt, alla vöðvana og lúkkið og allt saman,” segir Kjartan og heldur áfram:

„Jón Páll var rosaleg fyrirmynd. Ég var svo heppinn að fá að ferðast með honum og sjá hvað hann var vinsæll erlendis. Hagmæltur, fyndinn, fljótur að hugsa. Hann var með allan pakkann. Ofboðslega aðlaðandi maður, góður karakter og góður vinur. Hann nýtir sína orku í ofurmannlegan ,,fókus” og setti allt í að verða bestur.“

Í viðtalinu fara Sölvi og Kjartan yfir lífshlaup Kjartans, sem hefur upplifað hluti sem eru lyginni líkastir, eins og tímabilið þegar hann þjálfaði einn ríkasta mann Grikklands. Þeir hittu kraftaverkafólk, keyrðu um Evrópu á Lamborghini og leituðu að geimskipum með leynisamtökum.

Viðtalið í heild má sjá hér að neðan. Þú getur einnig hlustað á þáttinn á Spotify.

https://www.youtube.com/watch?v=XezzJAb5vLo&t=3305s

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki