fbpx
Sunnudagur 25.júlí 2021
Fókus

Í skugga Svarthöfða – Áhættan sem borgaði sig

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 8. september 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hafði ekki minnstu hugmynd um að Svarthöfði yrði svona frægur. Ég hafði aðeins látið mig dreyma um að eitthvað sem ég væri að hanna myndi á endanum tilheyra þekktasta illmenni allra tíma,“ segir breski myndhöggvarinn Brian Muir í samtali við DV, en hann er einn sá eftirsóttasti í bransanum í sínu fagi og bjó meðal annars til búning Svarthöfða úr Stjörnustríðsmyndunum eftir teikningum myndlistarmannsins Ralph McQuarrie. Þess að auki bjó hann til búninga stormsveitarmannanna og kom einnig að gerð vélmennisins C-3PO.

Brian hefur hannað og handgert ýmsa muni fyrir Harry Potter, Indiana Jones, Krull, Alien, Litlu hryllingsbúðina, fimm James Bond-myndir og töluvert fleiri þekktar myndir úr kvikmyndasögunni. Myndhöggvarinn kemur til Íslands á næstu dögum og verður viðstaddur á ráðstefnunni Midgard 2018 í Laugardalshöll, hátíð sem hefur verið lýst sem íslenska svarinu við hinu stórfræga „Comic-Con“ fyrirbæri. Um er að ræða fyrstu hátíð þessarar tegundar á Íslandi og verður hún haldin dagana 15. og 16. september. Á ráðstefnunni verður klukkutíma langt spjall og geta aðdáendur fengið að heyra ýmsar sögur frá einum feðra Svarthöfða.

Verkefnið sem fáir trúðu á

„Ég var í fastri vinnu á þessum árum og ég tók þá ákvörðun að segja henni upp þegar ég fékk þetta tilboð,“ segir Brian og vísar til þess tíma þegar hann var 24 ára gamall og tók að sér vinnu sem upphaflega átti að taka sex vikur.

„Það fylgdi þessu auðvitað mikil spenna og óvissa en ákvörðunin reyndist síðan vera rétt vegna þess að ég endaði á því að vinna að myndinni í fjóra mánuði og ótalmargar dyr opnuðust. Í dag er erfitt að horfa aftur á það með eftirsjá þegar þessi vinna kom mér inn í kvikmyndaiðnaðinn.“

Brian segir það hafa verið gríðarlega áhættu á sínum tíma þegar hann þáði vinnuna við upprunalegu Star Wars-myndina. Vitað er að fáir í framleiðsluteyminu höfðu trú á verkefninu og þótti mörgum efniviðurinn kjánalegur og úreltur, sem olli mikilli streitu hjá höfundi myndabálksins. Kvikmyndagerðarmaðurinn George Lucas þurfti að synda á móti straumnum og áttu jafnvel leikararnir Carrie Fisher og Harrison Ford von á algjörum skelli.

Neikvæðu raddirnar hljóðnuðu á fyrstu aðsóknarhelginni. Myndin sló öll aðsóknarmet og tóku áhorfendur lokaútkomunni vægast sagt fagnandi. Star Wars ávann sér strax sess sem eitthvað mun stærra en hefðbundin kvikmynd, mun frekar eins konar fyrirbæri í dægurmenningu sem átti sér engan líka Sú staða myndabálksins hefur lítið breyst tæpum fjórum áratugum seinna.

Da Vinci-áhrifin

Brian hefur nú unnið að hátt í 70 stórmyndum og segist hafa fengið þann heiður á sínum tíma með að gerast fyrsti „lærlings-myndhöggvarinn“ í kvikmyndaiðnaðinum. Að sögn Brians er hann ekki lengi að koma auga á eftirlíkingar og segir hann smáatriðin liggja meðal annars í nefinu á Svarthöfða. Í andliti grímunnar er lítill stubbur að innanverðu þar sem þumall Brians smellpassar.

„Ég notaði þumalinn til þess að búa til lag nefsins á Svarthöfða. Í upprunalegri hönnun hans var aldrei talað um að hann væri með nef, þannig að þetta snerist í raun um að láta mótið og skúlptúrinn virka sem best,“ segir Brian.

„Það eru margir Svarthöfða-hjálmar til sem eru skuggalega líkir upprunalegri hönnun. Muninn má einnig gjarnan sjá í mótuninni og efninu, en ég sé alltaf strax þegar einhver notast við mína hönnun. Annars hefur líka verið gaman að sjá mismunandi tegundir hjálma sem eru allt öðruvísi en þeir sem ég  hannaði.“

Aðspurður hvort hann hafi verið aðdáandi vísindaskáldskapar eða fantasíusagna á yngri árum segir Brian nei. „Það breyttist eftir að Star Wars varð að svo stórum hluta lífs míns,“ segir hann. „En hvað sköpunarferlið og það allt varðar sótti ég alltaf meiri innblástur í eldgömlu snillingana, þá til dæmis Leonardo Da Vinci og Michaelangelo. Það voru listamennirnir sem ég leit upp til þegar ég byrjaði í þessu fagi og geri enn.“

Fullkomna fríið

Árið 2009 gaf Brian út ævisögu um feril sinn frá upphafi til ársins 1987. Bókin ber heitið In the Shadow of Vader og rekur söguna af því hvernig er að vera höggmyndasmiður í vestrænni kvikmyndagerð. Bækurnar eru að sögn Brians uppfullar af skrautlegum baksviðssögum og úr bransanum og stendur til að ræða nokkrar þeirra á ráðstefnunni.

„Aðdáendur tóku svo vel í bókina að ég ákvað að klára söguna og gefa út „framhaldið“, Beyond the Shadow, árið 2015 en hún tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið og leyfir lesendum að kynnast því hvernig afgangurinn á ferlinum hefur þróast,“ segir Brian.

Til stendur hjá Brian að láta vel um sig fara á Íslandi á komandi dögum en þetta verður önnur heimsókn hans til Íslands. „Við konan mín heimsóttum Ísland fyrst fyrir þremur árum og kolféllum fyrir því. Við eignuðumst marga góða vini í gegnum sameiginlegan áhuga á Star Wars og þeir tryggðu að á tveggja vikna dvöl okkar á tryggði sæjum við sem mest af Íslandi.“

Í miðju ferðalagi sínu stóðst Brian ekki þá freistingu að keyra Gullna hringinn, kíkja á svartar strendur Reynisfjöru og Jökulsárlónið svo eitthvað sé nefnt. „Það sem í rauninni heillaði mig mest var fjölbreytnin sem svona lítið land bauð upp á. Þessar skoðunarferðir í bland við hlýjar móttökur frá öllum sem við hittum gerðu dvölina að hinu fullkomna fríi,“ segir Brian.

„Við frúin hétum því að snúa aftur til Íslands og ég er þakklátur fyrir að Midgard-hátíðin hafi gefið mér ástæðu til þess.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hollywood-stjörnur upplifðu Ísland óséðar

Hollywood-stjörnur upplifðu Ísland óséðar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gripu hann glóðvolgann: Kærastinn átti fleiri kærustur sem þær vissu ekki af – Málið tók óvænta stefnu

Gripu hann glóðvolgann: Kærastinn átti fleiri kærustur sem þær vissu ekki af – Málið tók óvænta stefnu
Fókus
Fyrir 1 viku

91 árs birtir bikinímyndir af sér og græðir yfir milljón króna fyrir hverja færslu

91 árs birtir bikinímyndir af sér og græðir yfir milljón króna fyrir hverja færslu
Fókus
Fyrir 1 viku

Trekantsdraumurinn með nágrönnunum orðinn að martröð – „Hún kennir mér um“

Trekantsdraumurinn með nágrönnunum orðinn að martröð – „Hún kennir mér um“