Morgunblaðið og stjórnarandstaðan hafa farið mikinn gegn Ingu Sæland og linnulaust beint spjótum sínum að Flokki fólksins vegna þess að flokkurinn er skráður sem félagasamtök en ekki stjórnmálaflokkur. Formsatriði sem verður lagfært á landsfundi í febrúar, segir Inga Sæland, stormur í vatnsglasi. Hún segir árásirnar vera grímulaust einelti sem sprottið sé upp úr því að Sjálfstæðisflokkurinn logi nú stafna á milli vegna valdabaráttu, nú þegar kjósa þarf nýjan formann og varaformann, og vilji beina athyglinni annað. Inga er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Eyjan - Inga Saeland 1.
„Maður svo sem bjóst við ýmsu en ekki svona grímulausu einelti eins og ég er að verða vitni að þessa dagana. En, svona er þetta bara, þeir velja sér hvernig þeir kjósa að haga sér og sýna sitt innsta eðli og ég held nú að samfélagið, svona í heild sinni, sé farið að sjá í gegnum það, svo ekki sé meira sagt,“ segir Inga.
Hún segir Flokk fólksins hvergi banginn, hvorki við Hádegismóa né nokkra vini þeirra.
Þið fenguð gagnrýni fyrir að vera rangt skráð, vera skráð sem félagasamtök en ekki stjórnmálaflokkur og nú eru áhöld með stuðning við stjórnmálaflokka, hvort þið fáið slíkan stuðning. Er þetta ekki dálítill stormur í vatnsglasi?
„Ekki dálítill, þetta er alger stormur í vatnsglasi vegna þess að meginmarkmið með lögum um stuðning til stjórnmálaflokka byggir ekki á því hvort það sé eitthvert eitt orð sem sé ranglega skráð heldur hvort að raunverulega sé um starfsemi að ræða og hvort það sé raunverulega stjórnmálaflokkur á ferð, hvað þá stjórnmálaflokkur sem hefur verið á þingi í sjö ár og er nú kominn í ríkisstjórn. Meginmarkmiðið var að styðja við starf stjórnmálaflokka.“
Inga segir hægt að taka fleiri flokka út fyrir sviga en Flokk fólksins en hún hafi enga löngun til að draga fram neitt um aðra, hvorki félaga hennar í ríkisstjórn né stjórnarandstöðuna, til að benda á agnúa sem gætu komið þeim illa.
„Við erum bara að breyta þessu nafni núna formlega, úr félagasamtökum í stjórnmálaflokk, þannig að allir geti orðið glaðir. það hefur verið vitað frá upphafi að Flokkur fólksins er stjórnmálaflokkur og alls staðar skráður sem slíkur, á öllum vefmiðlum, öllum umræðum, öllum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og alls staðar. Ég hef verið Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, stjórnmálaflokksins Flokks fólksins. Ég hef aldrei heyrt okkur kölluð félagasamtök.“
Ég tek undir það, hef alltaf litið á Flokk fólksins sem stjórnmálaflokk.
„Það má reyna að finna ýmislegt til þess að draga fram og ég held nú kannski að írafárið sem er verið að búa til, það er verið að nota ferðina núna vegna þess að þau eiga svo bágt í Sjálfstæðisflokknum, þar logar allt stafnanna á milli, og nú er það nýjasta að ákveðin vonarstjarna sem skein og hefur skinið í flokknum, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hún hefur bara gefið það út, þvert á áður útgefin markmið að verða formaður Sjálfstæðisflokksins ef Bjarni Benediktsson stigi til hliðar. Nú hefur hún stigið fram og gefið það út að hún ætli ekki að sinna neinum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Við vitum að það logar þar allt stafnanna á milli í valdabaráttu og öðru slíku og þeim er að takast nokkuð vel að sigla undir radar með því, með því að draga fram eitthvað svona, einhvern tittlingaskít í orðsins fyllstu merkingu, sem í rauninni engu máli skiptir. Ég hvet bara alla til að fylgjast með því sem raunverulega er að gerast í þeirra eigin herbúðum, á þeirra eign vallarhelmingi, þannig að þeir séu nú ekki endalaust að hanga inni á vallarhelmingi okkar, þessarar fallegu ríkisstjórnar, til þess að reyna að klekkja á okkur. Ég held þeir ættu að eyða orkunni í að byggja upp og byrgja brunninn sem þeir eru allir að detta ofan í á eigin vallarhelmingi“ segir Inga Sæland.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.