fbpx
Mánudagur 07.október 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Málfrelsi og fólkið sem les ekki bækur

Eyjan
Sunnudaginn 15. september 2024 14:21

Ein fjölmargra mynda sem Edvard Munch málaði af bróður sínum Peter Andreas að lesa í bók. Þessi er frá árunum 1882–1883 og varðveitt á Nasjonalmuseet í Ósló.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var vel til fundið að veita Salman Rushdie bókmenntaverðlaun þau sem kennd eru við Halldór Laxness og hún var ánægjuleg stundin í Háskólabíói í fyrradag þegar verðlaunaafhendingin fór fram. Rushdie ræddi þar af yfirvegun um banatilræðið sem honum var sýnt fyrir tveimur árum þegar hann varð fyrir fjölmörgum hnífstungum og missti meðal annars sjón á öðru auga.

Ég keypti mér á staðnum áritað eintak af Hnífi, hugleiðingum í kjölfar morðtilraunar, bók sem Rushdie skrifaði til að takast á við afleiðingar árásarinnar — ofbeldisverkinu vildi hann svara með listaverki. Þar birtist aðdáunarverð karlmennska og æðruleysi og raunar í stíl við svo margt sem hann hefur látið frá sér fara. Mér kemur til hugar að eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York 11. september 2001 komst hann svo að orði að leiðin til að vinna bug á slíkri hermdarverkastarfsemi væri að láta ekki óttann stýra lífi sínu, en orðrétt sagði hann: „How to defeat terrorism? Don‘t be terrorised.“ Og í Hnífi, segir í þýðingu Árna Óskarssonar, að árásin í hitteðfyrra sé í huga Rushdies „eins og stór rauð blekklessa sem runnið hefði yfir fyrri blaðsíðu. Hún var ljót, en hún eyðilagði ekki bókina. Það var hægt að fletta á næstu síðu og halda áfram“.

Undirlægjuháttur gagnvart ofstækisöflum

Ári fyrir tilræðið komst Rushdie svo að orði við blaðamann The Guardian að líklega myndu fæstir þeirra sem tekið hefðu málstað sinn í kjölfar „dauðadóms“ erkiklerksins í Teheran 1989 gera það á okkar dögum. Helgaðist það af því að sífellt fleiri í okkar samtíma teldu óréttmætt að hópar manna yrðu fyrir móðgunum. Slík viðhorf væru orðinn miklu útbreiddari en fyrr og hefðu leitt af sér stórkostlega sjálfsritskoðun. Hann nefndi í tali sínu síðastliðinn föstudag að fjöldi titla hefði verið bannaður á opinberum bókasöfnum vestanhafs á undanförnum árum. Ógnin af ritskoðun væri nærri en margan grunar.

Í þessu sambandi mætti rifja upp umræðuna sem spratt í kjölfar birtingar Jótlandspóstsins á tólf teikningum af Múhameð spámanni árið 2005. Gagnrýnendur sögðu slíkar myndir særa trúartilfinningar þeirra sem játuðu íslamska trú og að vegið væri að sjálfsmynd þeirra. En þá kviknar eðlilega sú spurning hvers vegna í ósköpunum trúarleiðtogar ættu að hafi vald til að fyrirskipa hvaða teikningar megi birta og hverjar ekki? Við þurfum ekki að fara svo ýkja langt aftur til að finna þess ótal dæmi að mönnum væri hér á Vesturlöndum gerð refsing fyrir að brjóta gegn kennivaldi kirkjunnar. Þeir eru þó næsta fáir í okkar samtíma sem vildu hverfa aftur til þeirra tíma er kirkjuleiðtogar höfðu vald til að leggja höft á málfrelsi manna. Hvers vegna í ósköpunum skyldu menn því láta undan íslömskum ofstækismönnum?

Að amast við listrænni tjáningu á íslömskum trúarsetningum er ekkert annað en undirlægjuháttur gagnvart einhverjum verstu ofstækisöflum samtímans — klerkastjórninni í Teheran sem til að mynda bera ábyrgð á því stríði sem nú geisar fyrir botni Miðjarðarhafs. Í meðaumkun margra með öfgasjónarmiðum æðstuklerkanna í Íran birtist ef til vill útbreidd vanþekking á sögunni: menn hafa gleymt því að baráttan fyrir prentfrelsi á Vesturlöndum var öðrum þræði barátta gegn trúarofstæki sem gegnsýrt hafði vestræn þjóðfélög um aldir. Að takmarka málfrelsi yrði afturhvarf til myrkari tíma.

Fólkið sem les ekki bækur

Flestir þeirra sem ærðust af reiði og heift vegna Söngva Satans höfðu vitaskuld ekki lesið bókina — og þegar menn létust vera að brenna bókina í hinum íslamska heimi var oftar en ekki um að ræða pappaspjald sem titill bókarinnar hafði verið ritaður á.

Mótmælendur ímynduðu sér að þeir brenndu bókina. Oft á tíðum höfðu þeir ekki aðgang að henni og voru í ofanálag ólæsir. Sama má segja um tilræðismanninn — hann hafði vitaskuld ekki lesið bókina að neinu gagni.

Svona grunnhyggin afstaða er síður en svo bundin við íslamska ofsatrúarmenn. Menn móta sér gjarnan afstöðu til stórra deiluefna — og gerast jafnvel róttækir í baráttu fyrir tilteknum málstað — án þess að hafa lesið stafkrók um málefnið og þar af leiðandi ekki myndað sér skoðun eftir vandlega könnun andstæðra sjónarmiða. Skoðun viðkomandi er ef til vill bara sprottin af upphrópunum einhvers og áhorfi á myndskeið á kínverska samfélagsmiðlinum Tik-tok eða á einhverju öðru ámóta skólpræsi lágmenningar.

Og þegar rætt er um gildi lestrar og lestrarkunnáttu skyldu menn gjarnan horfa til mótmæla í nálægum löndum þar sem æstur múgur fer um með gripdeildum, brennir bifreiðar, brýtur rúður og gengur í skrokk á fólki. Þetta er af stórum hluta ólæs lýður, menn sem koma ekki orðum að hugsun sinni sem þess í stað brýst fram í ofstopa. Gildi menntunar verður seint ofmetið.

Byggjum á arfleifð genginna kynslóða

Rétt er að geta þess að ekki vakti fyrir Rushdie að móðga íslamska bókstafstrúarmenn með ritun Söngva Satans, hann einfaldlega var — og er — þeirrar skoðunar að trúarsetningar séu efniviður sem listamönnum sé frjálst að nota að vild við sköpun sína. Þannig hefðu menn til að mynda umgengist kristindóminn um aldir.

Rushdie ræddi einmitt á föstudaginn var um innblástur verka sinna — ekkert sprettur upp úr tómarúmi, sagan allt um kring hefur áhrif. Hann minntist sér í lagi á frásagnir móður sinnar, sömuleiðis eigin reynslu, en persónur verka hans eru að vonum samsettar úr raunverulegum fyrirmyndum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga — enginn stekkur alskapaður út úr höfði Seifs. Það gildir líka um þau skáld sem brotið hafa viðtekin form í skáldskap. Nefna mætti í því sambandi Írann Samuel Beckett sem bar á góma í samtalinu á föstudaginn var. Upp í hugann koma líka tvö önnur skáld sem rituðu á frönsku, Eugène Ionesco og Arthur Adamov, annar rúmenskur hinn rússneskur. Þeir lögðu stund á absurdisma og þrátt fyrir formbrotið byggðu þeir á arfleifð fyrirrennara sinna í listinni, enda allir gagnmenntaðir á klassíska vísu, rétt eins og Rushdie.

Við erum ekki bara nauðbeygðir til að byggja á arfi kynslóðarinnar heldur er skylda okkar að rækta þann arf. Hannes Pétursson skáld skrifaði árið 1962 um menningarvanda samtímans — að hann fælist í því að „skila óbornum kynslóðum fortíð þjóðarinnar jafnt og nútíð sem einingu. Við verðum að vera brúarsmiðir! Steinboginn sem reistur skal verður að hvíla á þremur stólpum: einum í fortíð, öðrum í nútíð, hinum þriðja í ókomnum tíma“.

Mig langar að taka undir þessi orð og bæta því við að hér gegna skáldin lykilhlutverki, þau endurmóta í sífellu sýn okkar á veruleikann með því að sækja í fornan sagnabrunn. Til þess eiga þau að hafa fullt frelsi. Á sama tíma þarf að ala upp nýjar kynslóðir manna sem lesa bækur svo menn fái skilið tilveruna, skilið sig sjálfan. Slíkt er nauðsynlegt siðmenntuðu samfélagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Lögfræðingar og lögfræðiálit

Óttar Guðmundsson skrifar: Lögfræðingar og lögfræðiálit
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Það er síminn til þín 

Það er síminn til þín 
EyjanFastir pennar
01.09.2024

Svarthöfði skrifar: Ómissandi menn

Svarthöfði skrifar: Ómissandi menn
EyjanFastir pennar
31.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum
EyjanFastir pennar
25.08.2024

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali
EyjanFastir pennar
24.08.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt