Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi, var spurður að því í kappræðum frambjóðenda á Heimildinni að nokkrum dögum áður en hann tilkynnti um framboð sitt hafi hann fengið skilaboð úr herbúðum Katrínar Jakobsdóttur þar sem hann var hvattur til að hætta við framboð.
„Hvort ég vildi ekki láta þar við sitja því hún væri jafnvel að fara að bjóða sig fram Og ef ég ætlaði virklega að vera svo vitlaus að bjóða mig fram núna, þarna fyrir páskana, þá hlyti ég að hafa vit á því að draga framboðið til baka því hún kæmi fram eftir páska.“
Þessi ummæli hafa vakið töluverða athygli og var Baldur spurður nánar út í málið í kappræðum Morgunblaðsins í dag. Þar var þrýst á hann að opinbera nákvæmlega hver hafi haft samband við hann.
Baldur sagðist ekki vilja gefa það upp og var þá spurður hvort að það væri nú ekki eðlileg krafa til forseta að hann væri hreinskilin í svona málum.
„Ég svaraði spurningunni mjög hreinskilningslega, en maður lætur ekki nöfn fylgja úr einkasamtölum, þó maður geti sagt að maður hafi orðið fyrir þrýstingi.“
Katrín Jakobsdóttir var eins spurð út í málið og hún útilokaði ekki að einhver stuðningsmaður hennar hafi hringt í Baldur, en hún viti þá ekki hver. Hún hafi spurt alla sem hafa starfað náið með henni að framboðinu og enginn þeirra kannist við símtalið.
„En ég ætla ekki að útiloka að einhver stuðningsmaður minn hafi hringt í Baldur“