Þrívegis á síðustu dögum hef ég hitt fyrir gamla kunningja á förnum vegi. Eðlilega taka menn tal saman og mesta forvitni vekur hvað verið er að fást við. Þessir þrír ágætismenn sem um ræðir höfðu starfað úti í atvinnulífinu um árabil við góðan orðstír en eiga það sammerkt að hafa nýverið ráðið sig til starfa hjá hinu opinbera. Þetta þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart sé horft til tölfræðinnar sem sýnir stórfjölgun ríkis- og bæjarstarfsmanna síðustu misseri enda aðhaldskrafan engin á þeim bæjunum.
Ekkert bendir til annars en starfsmönnum hins opinbera muni enn fjölga. Á ríkisstjórnarfundi í byrjun árs var ákveðið að skipaður yrði starfshópur „til að útfæra hugmyndir um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun“. Af tilkynningum að dæma er um fremur þrönga túlkun á mannréttindum að ræða, einkanlega félagslegum réttindum. Þannig virðist þegar útséð með að umrædd stofnun muni styrkja við eignar- og atvinnuréttindi svo dæmi sé tekið enda liggja áhugasvið þeirra sem hæst tala um mannréttindi bara á sumum mannréttindum — ekki öðrum. Hvað sem því líður er erfitt er að sjá nokkra knýjandi þörf fyrir umrædda ríkisstofnun, ekkert frekar en næstnýjustu stofnunina; Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála.
Ég hef oftsinnis í þessum pistlum gagnrýnt útþenslu báknsins, þær margvíslegu hættur sem henni eru samfara og leiðir til úrbóta. Að því sögðu er rétt að hafa í huga að sérhvert menningarríki þarf að hafa á að skipa hópi vel menntaðra og hæfra sérfræðinga til að ráða fram úr aðsteðjandi vandamálum og í ýmsum tilfellum verður slíku starfi helst sinnt af hinu opinbera. Í ljósi ofvaxtar ríkis og bæjarfélaga er orðið tímabært að ræða opinskátt að sum starfsemi er einfaldlega mikilvægari en önnur en á sama tíma og báknið þenst út hafa ýmis grundvallarverkefni orðið hornreka, þeim illa sinnt eða jafnvel verið aflögð.
Byggingarannsóknir hornreka
Veðrátta hér á landi er sérstök í ýmsu tilliti. Veður eru æði oft válynd og umhleypingar óvíða meiri. Þetta hefur að vonum í för með sér meiri veðrun mannvirkja en ella og gefur tilefni til umfangsmikilla rannsókna á byggingatækni, eftirlits með byggingum og fyrirmælum um notkun byggingarefna.
Fram til ársins 2007 starfaði hér á landi Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins en það ár var starfsemi hennar færð undir Nýsköpunarmiðstöð Íslands en þeir sem til þekkja segja að síðan þá hafi byggingarannsóknir farið halloka, orðið utaneltu í hinni nýju stofnun. Nú er svo komið að „nýja“ stofnunin hefur sömuleiðis verið lögð niður. Í fyrra voru kynntar hugmyndir þáverandi ráðherra málaflokksins þess efnis að byggingariðnaðurinn sjálfur sækti um styrki í hundrað milljóna króna rannsóknarsjóð. Á slíku fyrirkomulagi eru ýmsir meinbugir. Ef einstaka verktakafyrirtæki eiga að kortleggja þessi mál og koma sér upp rannsóknaraðstöðu er vandséð að viðkomandi hafi hvata til að deila rannsóknarniðurstöðum sínum með öðrum — sem er algjört skilyrði í raunverulegu vísindasamfélagi. Þá er eðlilegra að prófanir á efnum fari fram á vettvangi óháðrar rannsóknarstofnunar en ekki fyrirtækja á markaði. Niðurstöður þeirra rannsókna geta þá gagnast allri byggingastarfsemi í landinu.
Þetta var hægt fyrir fjórum áratugum
Vart líður sú vika að ekki sé greint í fréttum frá raka- og myglu í húsum. Dr. Ríkharður Kristjánsson verkfræðingur benti á það í samtali við Vísi fyrir nokkrum árum að eftirliti væri ábótavant með byggingaframkvæmdum eftir að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður. Þar hefði verið vakað yfir öllum byggingargöllum og reynt að afstýra að þeir yrðu. Hann fullyrðir að það hafi verið fyrir tilstuðlan stofnunarinnar sem tókst að eyða alkalískemmdum í steypu:
„Það var engin pólitík, embættismannahik eða hugsað um lögsóknir heldur farið í að útrýma gallanum. Ef stofnunin væri starfandi í dag í sinni gömlu mynd hefði hún getað eytt þessum myglumálum á stuttum tíma.“
Ríkharður sagði í grein á Vísi í júlí 2020 frá störfum sínum fyrir Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins og svokallaða steinsteypunefnd á ofanverðum áttunda áratug síðustu aldar. Á vettvangi nefndarinnar voru gerðar rannsóknir á alvarlegum göllum í steinsteypu sem og hönnunargöllum sem Ríkharður segir hafa verið „himinhrópandi“. Í kjölfarið hefðu til að mynda áhættusöm fylliefni í steypu verið bönnuð. Að mati hans er breytingin nú aðallega pólitísk:
„Tæknimenn stofnana borgarinnar hafa misst völdin til stjórnmálamanna sem ekki þora að taka flóknar ákvarðanir nema eftir langt pólitískt samtal og til lögfræðinga sem leita dauðaleit að einhverju sem gæti skapað viðeigandi stofnun bótaskyldu óháð ágóða heildarinnar.“
Og Ríkharður fullyrðir að ógjörningur væri á okkar tímum að leysa alkalívandamálin líkt og gert var fyrir fjörutíu árum.
Byggingavörur eru nú langflestar innfluttar en Ríkharður bendir á að ýmsar þeirri henti engan veginn fyrir innlenda veðráttu og kalli á leka, grotnun og ýmis konar önnur vandkvæði sem loks þurfi að útkljá í dómsölum. Nauðsynlegt sé að koma á fót prófunaraðstöðu á vettvangi óháðrar rannsóknarstofu. Aukinheldur þurfi að gera þá kröfu til innflytjenda byggingarvara að þeir fái samþykki viðkomandi rannsóknarstofnunar á vörunum líkt og tíðkaðist áður. Hefja þurfi umfangsmikla úttektir á mannvirkjum og fela rannsóknarstofnun á þessu sviði völd til að grípa inn í ef í ljós kemur að innflutt efni og lausnir valda vandamálum, hafa ónóga endingu eða innihalda efni sem vitað er að endast illa hérlendis.
Innan Háskóla Íslands er starfandi fjöldi stofnana sem sinnir rannsóknum, nefna má Rannsóknarstofu um mannlegt atferli, Rannsóknarstofu í bernsku- og æskulýðsvísindum, Rannsóknarstofu um jafnrétti, kyngervi og menntun, Rannsóknarstofu í hreyfivísindum, Rannsóknarstofnun um fjölskyldumálefni, Rannsóknasetur í safnafræðum, Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti og þannig mætti lengi telja. Allt gott og blessað en líklega er þjóðhagslegt mikilvægi rannsóknarstofnana æði misjafnt. Auðvelt er að sýna fram á gríðarlegan fjárhagslegan ábata af starfrækslu óháðrar rannsóknarstofnunar í mannvirkjagerð sem hefði eftirliti með byggingastarfsemi og notkun byggingarefna. Og ef til vill á slík rannsóknarstofnun best heima í óháðu vísindaumhverfi Háskóla Íslands eða Háskólans í Reykjavík.