fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Guðmundur sendir ráðherrum opið bréf: „Þetta var svikið“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 2. júní 2022 15:50

Guðmundur Hrafn Arngrímsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, birti í dag, fyrir hönd Samtaka leigjenda, opið bréf til þeirra ráðherra sem sjá um mál leigjenda á Íslandi. Í bréfinu gagnrýnir Guðmundur ríkisstjórnina fyrir að efna ekki loforð sín, hvorki um endurskoðun á ákvæði húsaleigulaga né um aukinn stuðning við hagsmunasamtök leigjenda. „Þetta var svikið,“ segir í bréfinu sem birtist á Vísi.

„Það er erfitt að vera fastur á leigumarkaði og þurfa að sinna tveimur, þremur vinnum til að færa leigusala sínum okurleigu og geta eftir það brauðfætt sig og sína. Um skamma hríð getur fólk í þessari stöðu bætt við sig starfi fyrir samtök leigjenda, vitandi að samtakamáttur leigjenda í réttindabaráttu er eina leiðin út úr vandanum. En þegar uppskera slíkrar vinnu er ekkert nema svik loddara sem lofa mörgu fögru en svíkja allt, þá missir allt venjulegt fólk vonina. Og þegar vonin hverfur deyr allt.“

Þá óska samtökin eftir fundi með ríkisstjórninni eða þá þeim ráðherrum sem málefni leigjenda falla undir.

Hér fyrir neðan má lesa bréfið í heild sinni:

3. apríl 2019 tilkynnti ríkisstjórn Ísland um aðgerðir ríkisvaldsins til stuðnings kjarasamningum, sem síðan hafa verið kallaðir Lífskjarasamningar. Í yfirlýsingunni ríkisstjórnarinnar var því lofað að koma á leigubremsu og að stuðningur við hagsmunasamtök leigjenda yrði aukinn.

Á þessum tíma stóð yfir tilraun til að endurreisa Samtök leigjenda, sem stofnuð höfðu verið 2013. Þau samtök voru dregin áfram af sjálfboðaliðastarfi þar til samtökin lognuðust út af seint á árinu 2016.

Sjálfboðaliðar Samtaka leigjenda lögðu á árunum 2013-16 óteljandi vinnustundir í að sinna nefndum og starfshópum þáverandi ríkisstjórnar um húsnæðismál í von um að geta snúið stefnu stjórnvalda í einhverju mæli. Þeir upplifðu síðan djúp vonbrigði þegar í ljós kom að tillögum þeirra var í engu sinnt, að allt var gert sem leigufyrirtækin báðu um en ekkert sem leigjendur óskuðu eftir. Leigjendur stóðu frammi fyrir algjörum svikum ráðherranna sem höfðu tælt þá til samstarfs með fögrum orðum en ekki sinnt neinu sem leigjendur lögðu til. Óskir leigjenda voru þó ekki aðrar en að færa íslenskan leigumarkað nokkur hænuskref í átt að því sem er í nágrannalöndum okkar. Sjálfboðaliðar leigjenda gengu frá borði með þá tilfinningu að íslenska ríkið þjóni aðeins hinum fjársterku og valdamiklu og sinni í engu sjálfsögðum og hófstilltum óskum þeirra sem búa við stjórnlaust óréttlæti.

Þegar tilraun var gerð til endurreisnar Samtaka leigjenda haustið 2018 hafði ástandið versnað mikið á leigumarkaði. Allt hafði farið eins og Samtök leigjenda höfðu spáð. Allt sem aðrir hagaðilar lögðu til, og sem ríkisstjórnin gerði að sinni stefnu, hafði magnað upp vandann. Hin endurreistu Samtök leigjenda leituðu til verkalýðshreyfingarinnar um aðstoð og stuðning við að koma fótum undir starfsemi sína og ná fram einhverjum réttarbótum í tengslum við komandi kjarasamninga. Afrakstur þess voru loforð gagnvart leigjendum sem verkalýðshreyfingin fékk ríkisstjórnina til að setja í yfirlýsingu sína um stuðning stjórnvalda við lífkjarasamninginn.

Í fyrsta lagi lofaði ríkisstjórnin að ákvæði húsaleigulaga yrðu endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.

Þetta var svikið.

Í öðru lagi lofaði ríkisstjórnin að stuðningur við hagsmunasamtök leigjenda yrði aukinn.

Þetta var svikið.

Árangurinn af endurreisn Samtaka leigjenda 2018-19 varð því ekki annar en enn ein svikin loforð stjórnvalda gagnvart leigjendum. Þau sem höfðu tekið að sér að leiða baráttu leigjenda í það sinnið gáfust upp.

Það er erfitt að vera fastur á leigumarkaði og þurfa að sinna tveimur, þremur vinnum til að færa leigusala sínum okurleigu og geta eftir það brauðfætt sig og sína. Um skamma hríð getur fólk í þessari stöðu bætt við sig starfi fyrir samtök leigjenda, vitandi að samtakamáttur leigjenda í réttindabaráttu er eina leiðin út úr vandanum. En þegar uppskera slíkrar vinnu er ekkert nema svik loddara sem lofa mörgu fögru en svíkja allt, þá missir allt venjulegt fólk vonina. Og þegar vonin hverfur deyr allt.

Eftir þessi svik kom kórónafaraldur og því var ekki gerð tilraun til að endurnýja samtök leigjenda fyrr en haustið 2021. Það var óhjákvæmilegt. Stjórnvöld höfðu ekkert gert til að bæta stöðu leigjenda og ástandið á leigumarkaði var jafn óþolandi og fyrr.

Við þessa endurvakningu Samtaka leigjenda var lögð megináhersla á byggja upp samtakamátt leigjenda sjálfra, fjölga félögum og byggja upp öflugan samræðuvettvang. Síðan hafa þúsundir leigjenda gengið til liðs við Samtök leigjenda eða tekið þátt í því samfélagi sem félagið hefur byggt upp, umræðu, fundum, aðgerðum.

En endurreist samtök hafa líka tekið þátt í samtali við stjórnvöld, m.a. vegna vinnu átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum. Og reynslan er sú sama og 2013-16. Sjálfboðaliði á vegum Samtaka leigjenda sat fundi með launuðu starfsfólki ráðuneyta, stofnana og ýmissa hagsmunahópa, einn leigjandi meðal húseigenda og leigusala. Þau sem leiddu umræðuna fyrir stjórnvöld voru meira að segja leigusalar. Og niðurstaða vinnunnar var eftir þessu.

Átakshópurinn blessaði algjör svik ríkisstjórnarinnar gagnvart leigjendum. Hópurinn féll frá þeirri tillögu að ákvæði yrðu sett í húsaleigulög um leigubremsu og frá tillögu um stuðning við hagsmunasamtök leigjenda. Innviðaráðuneytið hefur haldið því fram að þýðingarstyrkur til Neytendasamtakanna sé ígildi stuðings við hagsmunasamtök leigjenda, en það er fráleit túlkun ráðuneytinu til skammar.

Núverandi ríkisstjórn hefur því enn einu sinni svikið leigjendur og Samtök leigjenda. Hún hefur tekið upp stefnu fyrri ríkisstjórna um að í engu skuli mæta óskum leigjenda en leigumarkaðurinn aðlagaður að kröfum leigusala.

Þetta er afstaða sem þekkist ekki í okkar heimshluta. Alls staðar í nágrannalöndum okkar hefur annað hvort verið byggður upp stór félagslegur leigumarkaður með ódýru og öruggu húsnæði eða að leigumarkaðurinn er regluvæddur til að vernda leigjendur gegn okri og óöryggi. Í mörgum löndum hefur hvort tveggja verið gert. Hérlendis hefur hvorugt verið gert. Þessi ríkisstjórn, eins og fyrri ríkisstjórnir, kastar leigjendum fyrir ljónin, sem ráða öllu á hinum stjórnlausa, villta leigumarkaði. Óskapnaði sem er sköpunarverk stjórnvalda.

Stjórn Samtaka leigjenda krefjast þess að ríkisstjórnin hafni niðurstöðum átakshóps um framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu húsnæðismarkaði og krefjist þess að hópurinn felli inn í tillögurnar loforðin sem ríkisstjórnin gaf 3. apríl 2019.

Stjórn Samtaka leigjenda óskar síðan eftir fundi með ríkisstjórninni eða þeim ráðherrum sem málefni leigjenda falla undir, þ.e. forsætisráðherra, innviðaráðherra, fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra, til að útskýra fyrir ráðherrunum hversu frumstæður, og langt að baki því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, íslenskur leigumarkaður er. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið ríkisstjórnar og leigjenda, í raun allra landsmanna nema örfárra okrara, að færa stöðu og réttindi leigjenda að því sem sjálfsagt þykir í okkar heimshluta.

Ósk stjórnar Samtaka leigjenda er því tvíþætt: 1. kallið tillögurnar til baka og 2. mætið leigjendum á fundi.

Með fyrirfram þökk og velvild

F.h. stjórn Samtaka leigjenda

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Katrín og kosningastjórinn afsala sér biðlaunum

Katrín og kosningastjórinn afsala sér biðlaunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“