fbpx
Þriðjudagur 21.júní 2022
Eyjan

Hörð ályktun trúnaðarráðs Bárunnar í garð Sólveigar Önnu og Eflingar – „Ofbeldi á hvergi að þrífast“

Eyjan
Sunnudaginn 1. maí 2022 11:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Trúnaðarráð Bárunnar, stéttarfélags, hefur gefið frá sér harða ályktun í garð Eflingar í tilefni verkalýðsdagsins, sem er í dag. Þar er hópuppsögn allra starfsmanna skrifstofu Eflingar, sem tók gildi í dag, fordæmd sem og framferði Sólveigar Önnu Jónsdóttir, formanns Eflingar og félaga hennar af Baráttulistanum.

„Báran, stéttarfélag harmar þá stöðu sem launafólk innan ASÍ hefur orðið vitni að vegna átaka innan hreyfingarinnar (ASÍ) þar sem ráðist hefur verið að starfsfólki hreyfingarinnar, forseta ASÍ og fleirum og vegið að grundvallarréttindum launafólks. Trúnaðarráð Bárunnar, fordæmir þá ósvífnu og óskiljanlegu ákvörðun Baráttulista stjórnar Eflingar að segja öllu starfsfólki á skrifstofu félagsins upp störfum.“

Í ályktun segir að álíka aðgerðir hafi hingað til aðeins tíðkast í fyrirtækjarekstri sem neyðarúrræði. Stéttarfélögum beri að verja rétt launafólks og velferð starfsfólks eigi að vera í fyrsta sæti.

„Ein af frumskyldum stéttarfélaga er að verja rétt fólks til vinnu og þeim ber skylda til að sýna gott fordæmi og stuðla þannig að því að réttindi vinnandi fólks séu ávallt sett ofar öðrum hagsmunum. Velferð starfsfólks á að vera í fyrsta sæti. Trúnaðarráð Bárunnar lýsir yfir stuðningi við forseta ASÍ, Drífu Snædal sem komið hefur starfsfólki Eflingar til varnar í þessu dæmalausa máli.“

Fordæma ofbeldið sem einkennir umræðuna

Trúnaðarráð Bárunnar gagnrýnir jafnframt að hvorki miðstjórn ASÍ né Starfsgreinasamband Íslands hafi tekið afstöðu með starfsmönnum Eflingar og þar með grundvallargildum verkalýðshreyfingarinnar.

„Þessi framganga gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir baráttu hreyfingarinnar fyrir betri kjörum.“

Trúnaðarráð Bárunnar vekur eins athygli á því að flestir starfsmenn Eflingar, sem nú eru að missa vinnuna, eru konur „en það dregur úr trúverðugleika hreyfingarinnar í baráttunni fyrir jafnrétti og aukinni virðingu fyrir kvennastörfum almennt.“

Eins fordæmir trúnaðarráð umræðuna í kringum málefni Eflingar og framferði formannsins, Sólveigar Önnu Jónsdóttur.

„Trúnaðarráð Bárunnar fordæmir það ofbeldi sem einkennt hefur umræðuna í kringum málefni Eflingar. Félagsfólk í verkalýðshreyfingunni á skýlausa kröfu til þess að forsvarsmenn hreyfingarinnar sýni háttsemi í orðavali og ráðist ekki á félaga sína eða starfsfólk með yfirgangi og ósannindum. Hreyfingin og félagar hennar verðskulda meiri virðingu en umræðan undanfarna mánuði hefur borið vitni um. Ofbeldi á hvergi að þrífast og síst af öllu innan verkalýðshreyfingarinnar.“

Ástæða uppsagna sé krafa um hollustu við Sólveigu Önnu

Trúnaðarráð Bárunnar lýsir yfir fullum stuðningi við starfsfólk Eflingar og hafnar útskýringum sem stjórn Eflingar hefur gefið fyrir hópuppsögninni.

„Trúnaðarráð Bárunnar lýsir yfir fullum stuðningi við starfsfólkið. Trúnaðarráð Bárunnar hafnar útskýringum stjórnar Eflingar og telur einsýnt að ástæða uppsagnanna sé krafa um hollustu við formann og stefnu hans umfram kröfur um fagmennsku og þjónustu við félagsfólk.“ 

Í ályktun er framganga Vilhjálms Birgissonar, formanns Starfsgreinasambandsins, og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, gagnrýnd.

„Trúnaðarráð Bárunnar furðar sig á framgöngu formanns SGS og VR/LÍV sem verja aðför meirihluta stjórnar Eflingar að starfsfólki og telur þá hafa brugðist trausti verkalýðshreyfingarinnar sem formenn tveggja stærstu landssambandanna innan ASÍ. Ennfremur hafa þeir brugðist þeim skyldum sínum að verja starfsfólki gegn ósvífinni aðför að réttindum þess.“

Treysta sér ekki til að verja eigið starfsfólk

Stjórn Bárunnar telur að það verði erfitt fyrir stéttarfélag að taka slaginn fyrir félagsmenn sína ef það treysti sér ekki til að verja sitt eigið starfsfólk.

„Stjórn Bárunnar telur einsýnt að ef verkalýðshreyfingin treystir sér ekki til að verja eigið starfsfólk þá verði erfitt að taka slaginn fyrir almenna félagsmenn vegna þess fordæmis sem þetta gefur atvinnurekendum.“

Að lokum segir í ályktuninni:

„Kæru félagar Meginhlutverk stéttarfélaganna er að semja um kjarasamninga. Báran, stéttarfélag hefur nú fengið niðurstöður úr kjaramálakönnun félagsins. Það er ekki annað hægt en að fagna áhuga þeirra og ekki síst finna samhljóminn með forystu hreyfingarinnar. Það eru skýr skilaboð frá grasrótinni að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á, að ná upp lægstu launum. Meðal annars að afnema tekjutengingar á lífeyrisgreiðslur, auka aðgengi að fullorðinsfræðslu, tryggja lága vexti fyrir íbúðarhúsnæði og tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir alla án íþyngjandi kostnaðar. Þetta samræmist þeirri stefnu sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt áherslu á og sjáum við ekki ágreining meðal félagsmanna við stefnu og málflutning Drífu Snædal fyrir hönd ASÍ. Kæru félagar styrkur okkar er fjöldinn, fjölbreytileikinn, ólíkar áherslur og lýðræðislegt samtal án þess fordæmalausa ofbeldis sem hefur viðgengist.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Össur vill Loga burt og Kristrúnu á toppinn – „Eina manneskjan sem þeir vilja ekki sem formann“

Össur vill Loga burt og Kristrúnu á toppinn – „Eina manneskjan sem þeir vilja ekki sem formann“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir fólk tapa peningum á því að nýta sér fasteignasala og hvetur fólk til að selja sjálft – „Það er komið nóg af þessari vitleysu“

Segir fólk tapa peningum á því að nýta sér fasteignasala og hvetur fólk til að selja sjálft – „Það er komið nóg af þessari vitleysu“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Tekist á í Kastljósi – „Einari er kannski vorkunn að koma svona nýr inn og láta teyma sig svolítið af gömlum meirihluta“

Tekist á í Kastljósi – „Einari er kannski vorkunn að koma svona nýr inn og láta teyma sig svolítið af gömlum meirihluta“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ný borgarstjórn tekur til starfa – Þetta eru formenn ráða

Ný borgarstjórn tekur til starfa – Þetta eru formenn ráða