fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Þingmaður og þrír rithöfundar hjóla í Ólaf Ragnar fyrir orð hans um stríðið – „Engin samúð með Úkraínu“

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 21. mars 2022 09:58

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, var gestur í Silfrinu á RÚV í gær. Þar ræddi hann við Egil Helgason, stjórnanda þáttarins, um stríðið í Úkraínu. Það sem Ólafur sagði um stríðið og Rússland hefur fallið í nokkuð grýttan jarðveg hjá hópi fólks.

Í þættinum talaði Ólafur meðal annars um efnahagsþvinganirnar sem lönd heimsins hafa sett á Rússland vegna innrásarinnar í Úkraínu. Ólafur benti á að þær hafa ekki verið að virka sem skyldi, sérstaklega í ljósi þess að stór lönd austan við Evrópu hafa verið að semja um viðskipti við Rússland að undanförnu.

„Áhrifin á rússneska hagkerfið af þeim viðskiptaþvingunum sem við í Evrópu og Bandaríkin koma sér saman um skipta kannski miklu minna máli en við höldum. Ef við ætlum að þvinga Rússana inn í einhverja atburðarás verðum við að nota einhver tæki sem bíta,“ sagði hann.

Ólafur sagði að stefna Vesturlanda í samskiptum við Rússland eftir kalda stríðið hafi ekki orðið til þess að halda frið í Evrópu. Þá sagði hann að Vesturlönd þurfi að finna nýjar leiðir til að veita Rússlandi aðhald.

Þingmaður ósammála forsetanum fyrrverandi

Ljóst er að ekki eru öll sammála orðunum sem Ólafur lét falla í þættinum í gær. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hélt til að mynda fyrst að henni hefði misheyrst þegar hún hlustaði á Ólaf í þættinum. „Hlustaði á Silfrið með öðru eyranu í morgun og ákvað að hlusta aftur í kvöld á fyrrum forseta íslenska lýðveldisins því ég hélt að líklega hefði mér misheyrst,“ segir hún í færslu á Facebook-síðu sinni.

„En nei. Aðspurður hvort innrás Rússa inn í fullvalda lýðræðisríki hefði komið honum á óvart játaði hann að aðferðin hefði komið á óvart en að við yrðum bara að vanda okkur hvernig við værum nú að koma fram við Rússana. Þetta væri ósigur fyrir viðhorf okkar vesturlanda gagnvart Rússum. Að við yrðum að breyta því, líklega bera meiri virðingu fyrir Pútín.“

Helga Vala skilur ekki hvers vegna hún ætti að bera meiri virðingu fyrir forsetanum í Rússlandi. „Afsakið mig en ég skil alls ekki hvers vegna á að bera meiri virðingu fyrir leiðtoga sem svífst einskis þegar kemur að sviptingu almennings á grundvallarréttindum, morðum á pólitískum andstæðingum, lokun frjálsra fjölmiðla, lýðræðishömlum, spillingu og hótunum,“ segir hún.

„Hvers vegna eiga Vesturlönd að beygja sig undir slíka stjórnarhætti og láta það gott heita þegar slíkur leiðtogi leiðir sitt ríki til innrásar í annað ríki, myrðir þar þúsundir almennra borgara og hrekur aðra á flótta? Mikið vona ég að þessar skoðanir fyrrverandi forseta íslenska lýðveldisins séu ekki til útflutnings.“

„Engin samúð með Úkraínu“

Þrír rithöfundar taka svo í svipaða strengi og Helga Vala, þeir Illugi Jökulsson, Hallgrímur Helgason og Einar Kárason. Allir birtu þeir færslu eftir þáttinn þar sem þeir gagnrýna Ólaf. „Því miður er fyrrverandi forseti lýðveldisins Íslands blindur aðdáandi Pútins einræðisherra Rússlands og vill að íslensk utanríkisstefna snúist um að eltast við duttlunga hans og reyna eftir fremsta megni að uppfylla allar hans óskir. (Hann orðaði það ekki nákvæmlega svona, en þetta var inntakið.),“ segir Illugi í sinni færslu.

Þá birtir Illugi mynd af Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu með færslunni og lýsir aðdáun sinni á honum. „Ég er hrifnari af þessum manni hér, sem er ekki einræðisherra, ekki þjófur, ekki morðingi, ekki kúgari, ekki landvinningamaður, ekki árásarseggur og hefur ekki varpað sprengjum á barnaspítala.“

Hallgrímur segir í sinni færslu að Ólafur tali eins og sósíalistinn Gunnar Smári Egilsson. „Allt Vesturlöndum að kenna. Engin sök hjá Pútín. Engin samúð með Úkraínu.“

Einar segir svo að þeir sem sjái einhver rök í því að ráðast inn í Úkraínu ættu bara að halda þeim fyrir sjálfa sig. „Þyki nú einhverjum það skiljanlegt og eðlilegt að menn sem stjórni herveldum láti ráðast inn í nágrannalönd, sprengja þar spítala og vöggustofur, leggja íbúðahverfi í rúst, skilja eftir lík um allar götur, reka milljónir fólks með börn sín og gæludýr út á vergang og flótta; sjái menn fyrir slíku athæfi skynsamleg og þaulhugsuð rök, mætti þá ekki biðja þá sömu að geyma þannig útskýringar fyrir sjálfa sig inni í sínum eigin steinköldu hjörtum?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt