fbpx
Laugardagur 24.september 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: VG er jaðarflokkur þrátt fyrir allt

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 10. október 2021 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í löndum þar sem viðhöfð er hlutfallskosning til þings, líkt og hér, eru flokkar að jafnaði margir og því getur reynst örðugt að lesa skýran „vilja kjósenda“ úr úrslitum kosninga — og það er jafnvel enn erfiðara hér á landi þar sem ekki er um eiginlegar blokkir flokka að ræða til hægri og vinstri. Það að stjórnarmeirihlutinn hélt velli með afgerandi hætti í nýliðnum alþingiskosningum má sannarlega að einhverju marki lýsa sem traustsyfirlýsingu við ríkisstjórnina eins og margir hafa bent á — sér í lagi í ljósi þess að forystumenn stjórnarflokkanna höfðu ítrekað látið þess getið í aðdraganda kosninganna að þeir hygðust ræðast við að þeim loknum. Að því sögðu þá stendur Sjálfstæðisflokkur í stað en Framsóknarflokkur getur vel við unað með fimm nýjum mönnum. Vinstri græn tapa aftur á móti 4,3% milli kosninga — sem er nálega sama hlutfallstala og Sósíalistaflokkurinn mældist með á landsvísu. Og ef ekki væri fyrir feiknavinsælan formann VG má ætla að fylgistap flokksins hefði orðið mun meira.

Almennur flokksmaður tekur til máls

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð þegar við blasti stjórnarkreppa — pólitísk upplausn misserin á undan og tvennar alþingiskosningar kölluðu á að málin yrðu hugsuð upp á nýtt. Aðrir kostir voru trauðla í boði og lítil alvara með kaffiboðinu á Syðra-Langholti.

Kristinn Karl Brynjarsson bílstjóri ritaði áhugaverða grein um þessi mál á dögunum frá sjónarhóli almenns flokksmanns í Sjálfstæðisflokknum. Í grein sinni sem birtist á Vísi rifjar Kristinn Karl upp að hann hefði sett fyrirvara við ráðherraval Vinstri grænna á sínum tíma. Það að gera framkvæmdastjóra Landverndar að umhverfisráðherra væri nánast eins og ef forstjóra stórrar útgerðar yrði boðið að setjast í stól sjávarútvegsráðherra. Grípum niður í greinina:

„Það hefur líka komið á daginn, að umhverfisráðherra hefur fyrst og fremst með embættisfærslum sínum, verið upptekinn af því að gera Landvernd til geðs, frekar en að huga að heildarhagsmunum þjóðarinnar. Frumvarp ráðherrans um hálendisþjóðgarð var þvert á tillögur starfshóps skipaðan fulltrúum allra flokka á þingi og hagsmunaaðila sem að með einum öðrum hætti nýta hálendið í leik og starfi. Frumvarpið líkist meira því að hafa verið skrifað á skrifstofu Landverndar en að ráðherrann hafi tekið tillit til tillagna starfshópsins. Afar umdeilt friðunaræði ráðherrans í undanfara kosninga í andstöðu við að minnsta kosti annan stjórnarflokkinn er svo annað dæmi um gerrræðislega einræðistilburði ráðherrans.“

Kristinn Karl hafði sömuleiðis efasemdir um val á heilbrigðisráðherra og þær áhyggjur hans hafi verið á rökum reistar þegar við blasi nú að biðlistar í heilbrigðiskerfinu hafi lengst úr hömlu vegna einstrengingslegra viðhorfa ráðherrans sem hefur vart mátt til þess hugsa að aðgerðum væri sinnt annars staðar en á yfirfullum ríkisspítölum. Í greininni voru nefnd ýmis önnur dæmi þess að málefni sem heyra undir ráðherrann hafi stefnt í óefni á kjörtímabilinu, hvort sem um væri að ræða rekstrarvanda hjúkrunarheimila eða skimanir fyrir krabbameini.

Það er áleitin spurning hvort Sjálfstæðisflokkur ætli aftur að leiða VG til valda — því hvað sem líður vinsældum Katrínar Jakobsdóttur er hugmyndafræði Vinstri grænna á jaðri stjórnmálanna — víðs fjarri grundvallargildum Sjálfstæðisflokks.

Það var miðjan sem hafði vinninginn

Jú, ríkisstjórnin hélt velli en úr niðurstöðum kosninganna má líka lesa að kjósendur greiddu helst atkvæði flokkum sem eru á hinni „breiðu miðju“ og kosningasigur Framsóknar skýrasta merkið þar um (en athugum að Sjálfstæðisflokkur er líka inni á miðjunni). Flokkar sem eru fjær miðjunni í einhverjum skilningi töpuðu fylgi og á ég þar við Samfylkingu, Pírata og Miðflokkinn, að Vinstri grænum ógleymdum. Miðjuflokkurinn Viðreisn bætti líka við sig lítilsháttar fylgi og fékk fimm menn kjörna — einum fleiri en fyrir fjórum árum. Kjósi Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur að vinna áfram saman er miklu nærtækari kostur að þeir reyni myndun ríkisstjórnar með Viðreisn heldur en VG. Slík stjórn væri líka miklu nær því að fanga vilja kjósenda með öllum fyrirvörum um hversu langt sé hægt að ganga í slíkum túlkunum. Eftir að Birgir Þórarinsson gekk úr röðum Miðflokksins og til liðs við Sjálfstæðisflokk eru þingmenn flokksins orðnir 17 talsins og samanlegt hefðu sjálfstæðismenn, framsóknarmenn og viðreisnarmenn þá 35 þingmanna meirihluta.

Í samtölum við sjálfstæðisfólk heyri ég að það er gjarnan tortryggið á samstarf við Viðreisn í ljósi stefnunnar í Evrópumálum og stjórnarslitanna haustið 2017. Auðvitað var mjög áhættusamt að mynda ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar með eins manns meirihluta en ríkisstjórnin kom góðum verkum til leiðar á stuttum líftíma sínum og ekki við Viðreisn að sakast að upp úr því samstarfi slitnaði — og heldur ekki Bjarta framtíð eingöngu. Vandræðamálin sem leiddu til falls stjórnarinnar skrifast ekki síður á Bjarna sjálfan sem sinnti illa forystuhlutverki sínu í ríkisstjórn sem hékk á bláþræði. Fyrir vikið hlotnaðist Bjarna sá vafasami heiður að verða fyrsti forsætisráðherrann sem ekki flytur gamlársræðu í sjónvarpi — enda sat stjórnin ekki fram yfir áramótin. Í sáttmála þeirrar stjórnar hafði líka tekist að semja um framhald Evrópumálanna — sem yrðu áfram til umfjöllunar. Og athugum í þessu sambandi að Viðreisn hefur líka lagt áherslu á alþjóðasamvinnu almennt sem full þörf er á að efla í margvíslegum skilningi burt séð frá deilum um aðild að Evrópusambandinu.

Niðurstöður kosninganna sem fylgdu í kjölfar falls ríkisstjórnar Bjarna voru óskýrar sem endaði með þeim undrum að formaður Sjálfstæðisflokks leiddi forystumenn sósíalista til öndvegis í íslenskum stjórnmálum sem forsætisráðherra og forseta Alþingis. Bjarna var vorkunn, ella stefndi í djúpa stjórnarkreppu og aðstæður því afar erfiðar eins og áður var getið. Nú er allt annað uppi á tengingnum og vel hægt að mynda þriggja flokka miðjustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Viðreisnar sem gæti sameinast um skýra stjórnarstefnu í ýmsum höfuðmálaflokkum — í stað þess að sitja uppi með ráðherra Vinstri grænna sem praktísera stefnu sem er langt úti á jaðri stjórnmálanna og algjörlega úr takti við vilja þorra þjóðarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
31.07.2022

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun
EyjanFastir pennar
29.07.2022

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid
Aðsendar greinarFastir pennar
08.07.2022

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?
Fastir pennarFókus
04.07.2022

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr
EyjanFastir pennar
14.06.2022

„Þú líka Brútus“

„Þú líka Brútus“
EyjanFastir pennar
12.06.2022

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Flýtum lagningu Sundabrautar

Flýtum lagningu Sundabrautar