fbpx
Föstudagur 29.maí 2020
Eyjan

Þorsteinn Pálsson skýrir afsögn dómsmálaráðherra: „Þær geta einfaldlega ekki báðar sagt satt, Sigríður og Katrín“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 19. mars 2019 13:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins og einn stofnenda Viðreisnar, reifar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu á dögunum í pistli á Hringbraut. Segir hann að tekist hafi að ræða viðbrögðin við dómnum af yfirvegun og telur að eðlilegt sé að láta reyna á áfrýjun miðað við álit minnihlutans í dómnum.

Þá víkur Þorsteinn sögunni að afsögn Sigríðar Andersen og segir ástæðuna skipta verulegu máli, því athygli hafi vakið að umræðan hafi engu ljósi varpað á hvers vegna Sigríður hafi sagt af sér:

„Dómur Mannréttindadómstólsins var ekki sjálfstæð ástæða til að krefjast afsagnar. Þó að embættisverk ráðherrans hafi verið tilefni dómsins og hann hafi látið álit sitt í ljós á þeim kom ekkert nýtt fram um þau atvik sem Alþingi vissi ekki um þegar afstaða var tekin til spurningar um afsögn í fyrra. Dómurinn felur það fyrst og fremst í sér að íslensk lög um skipan dómara eins og þau eru túlkuð af Hæstarétti fullnægi ekki í einu og öllu kröfum mannréttindasáttmálans. Þó að Sigríður Andersen hafi borið ábyrgð á ólögmætri skipan dómara í Landsrétt ber hún ekki ábyrgð á þeim lögum sem í gildi eru um skipan dómara og enn síður á túlkun Hæstaréttar á þeim lögum.“

Hvern truflaði persóna Sigríðar ?

Þorsteinn segir fyrstu viðbrögð Sigríðar hafa verið rökrétt, ef miðað sé við þá siðferðislegu mælikvarða sem Katrín Jakobsdóttir hafi sett í fyrra þegar öll kurl málsins hafi komið í ljós:

„Opinber ástæða þess að ráðherra sagði af sér daginn eftir var líka allt önnur. Sem sagt sú að ráðherra vildi ekki að persóna hennar truflaði vinnu við að greiða úr þeim flækjum sem dómurinn leiddi til,“

segir Þorsteinn og spyr hverja persóna Sigríðar hafi truflað, líkt og hún bar við sem ástæðu afsagnar sinnar:

Opinberlega voru það ekki embættismenn eða dómarar, ekki fræðimenn, ekki þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ekki þingmenn Framsóknar, ekki þingmenn VG, ekki þingmenn Miðflokksins. Þingmenn Viðreisnar kröfðust ekki beint afsagnar en töldu mikilvægt að traust ríkti um viðbrögðin og bentu á að þeir hefðu tekið afstöðu til setu ráðherrans á síðasta ári í atkvæðagreiðslu um vantraust. Þingmenn Samfylkingar og Pírata kröfðust hins vegar afsagnar afdráttarlaust. Engir aðrir.“

Ekki allur sannleikurinn

Þorsteinn segir að í þessu ljósi virðist sem að Sigríður hafi einungis verið að láta undan kröfum Samfylkingar og Pírata, en tekur fram að fæstir geti nú trúað því.

„Flestir hallast að hinu að forsætisráðherra og þingmenn VG hafi í raun og veru verið áhrifavaldarnir um afsögnina. En sé svo hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ekki sagt allan sannleikann um aðkomu sína og flokks síns að málinu. Þær geta einfaldlega ekki báðar sagt satt, Sigríður og Katrín, nema þær viðurkenni að Samfylkingin og Píratar hafi í raun ráðið málalokum. Þetta er óþægileg staða fyrir ríkisstjórnina. Alveg sérstaklega er það erfitt fyrir forsætisráðherra ef svo er að hún hefur ekki sagt allan sannleikann um aðkomu sína að afsögn dómsmálaráðherrans.“

Leyndi upplýsingum

Þorsteinn segir óumdeilt að Sigríður hafi brotið lög við skipan dómara í Landsrétt, en alvarlegast hafi verið að halda upplýsingum leyndum fyrir Alþingi, er hún óskaði eftir stuðningi þess við tillögu sína.

Þannig er mál með vexti að ráðherrum er skylt að leita faglegs mats starfsmanna í viðkomandi ráðuneyti áður en ákvarðanir eru teknar um einstök mál. Ráðherra fékk slík álit, en ákvað að hafa þau að engu. Hún hafði vald til þess en þurfti þá að sýna fram á að hún hefði málefnaleg rök fyrir því.  Íslenskir dómstólar féllust svo ekki á að ráðherra hefði með málefnalegum rökum hnekkt áliti dómnefndar og faglegu mati starfsmanna ráðuneytisins. Þegar dómsmálaráðherra óskaði eftir stuðningi samráðherra í ríkisstjórn og í framhaldi af því eftir stuðningi Alþingis leyndi hún bæði samráðherrana og Alþingi faglegu mati embættismanna í ráðuneytinu. Vandinn er sá að bæði  samráðherrar í ríkisstjórn og Alþingi áttu rétt á að hafa sömu faglegu upplýsingar og ráðherrann þegar afstaða var tekin til beiðni ráðherra um stuðning við ákvörðunina.“

Katrín lækkar siðferðiskröfurnar

Þorsteinn segir brotið býsna alvarlegt, þó það hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir ríkisstjórnarskipti. Segir hann að Katrín Jakobsdóttir hafi í kjölfarið gert sig seka um mistök, er hún lækkaði siðferðislega mælikvarða sína:

„Í ljósi alvarleika brotsins hefði forsætisráðherra að réttu lagi átt að sjá til þess að dómsmálaráðherrann viki um leið og þetta tiltekna brot var upplýst. Það gerði forsætisráðherra ekki og greiddi meira að segja atkvæði gegn vantrausti. Í því fólst í raun og veru staðfesting forsætisráðherra á því að einstakir ráðherrar gætu haldið mikilvægum upplýsingum frá Alþingi án þess að það hefði nokkrar afleiðingar. Sú afstaða lýsti afar lágum siðferðilegum mælikvörðum og minni kröfum en áður var almennt talið að giltu um þetta efni.“

Viðurkenning á mistökunum

Þorsteinn segir að sé það rétt að afsögn Sigríðar hafi verið tilkomin vegna kröfu Katrínar og VG, sé það viðurkenning á mistökum sínum en um leið sé það leiðrétting:

„Greinilegt er að forsætisráðherra vill ekki viðurkenna mistök af þessu tagi fyrir opnum tjöldum. Þess vegna þykir fara best á því að láta líta svo út sem Sigríður Andersen hafi vikið fyrir kröfum Pírata og Samfylkingar um að pirra ekki þingmenn þeirra í umræðum um viðbrögð við dómnum.  En ástæðan fyrir því að máli skiptir að upplýst verði um raunverulegt tilefni fyrir afsögn Sigríðar Andersen er einfaldlega sú að almenningur á rétt á að vita hvort ráðherrum er heimilt án afleiðinga að leyna Alþingi upplýsingum. Það á að vera alveg skýrt hvort forsætisráðherra hefur breytt afstöðu sinni til þess álitaefnis eða ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Vigdís ósátt: „Þessi tillaga snýst um að hægt verði að bjarga mannslífum“

Vigdís ósátt: „Þessi tillaga snýst um að hægt verði að bjarga mannslífum“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Landsbankinn lokar í Bolungarvík – Bæjarstjórinn með áhyggjur af gamla fólkinu

Landsbankinn lokar í Bolungarvík – Bæjarstjórinn með áhyggjur af gamla fólkinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Telur hugmynd stjórnvalda vonda -„Má spyrja sig hvort það sé til lengdar skyn­sam­legt“

Telur hugmynd stjórnvalda vonda -„Má spyrja sig hvort það sé til lengdar skyn­sam­legt“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Skoða beina fjárstyrki til verst settu sveitarfélaganna

Skoða beina fjárstyrki til verst settu sveitarfélaganna
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðmundur segist eiga stóra vopnageymslu af upplýsingum um starfsmenn RÚV

Guðmundur segist eiga stóra vopnageymslu af upplýsingum um starfsmenn RÚV
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Á þingpöllum: Gífuryrði gagnast engum

Á þingpöllum: Gífuryrði gagnast engum