fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Íslensk verslun harðlega gagnrýnd: „Kaupa ódýrt dót af AliExpress og selja með margfaldri álagningu“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 4. september 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska netverslunin Nýkaup hefur verið gagnrýnd fyrir að kaupa ódýrar vörur af síðum eins og AliExpress og selja síðan með margfaldri álagningu. Fyrrum viðskiptavinir segjast hafa lýst óánægju sinni á Facebook-síðu verslunarinnar en voru „blokkaðir“ af stjórnendum síðunnar í kjölfarið.

DV hafði samband við eiganda og stjórnarformann Nýkaupa og var blaðamaður beðinn um að senda fyrirspurn í tölvupósti. Blaðamaður hefur ekki fengið nein svör þrátt fyrir ítrekun. Tæpri klukkustund eftir að greinin var birt fékk blaðamaður svar frá Stefáni Þór Sigfússyni, eiganda Nýkaupa.Það er hægt að lesa svarið frá honum í heild sinni neðst í greininni. Hann segir meðal annars:

Ég hef aldrei fengið gagnrýni á mig fyrir að vera óheiðarlegur í viðskiptum, það er ef fólk hefur fengið gallaða vöru eða ekki líkað hún að hún hafi ekki verið endurgreidd eða bætt á einhvern hátt. Það er mér einstaklega mikilvægt […] Það veit hver maður að Ísland er lítið og ef ég ætlaði að lifa af í smásölubransanum þá myndi lítið þýða fyrir mig að selja lélega vöru eða svíkja fólk.  Ég hef því haft það að leiðarljósi og koma fram af heiðarleika og gera mitt besta að sinna mínum viðskiptavinum. Orðspor mitt er mér mjög mikilvægt.“

Nýkaup selur alls konar vörur, eins og öryggismyndavélar, þriftæki, leikjavélar og vekjaraklukkur. Hér að neðan má sjá skjáskot tekið af síðunni fyrr í morgun og brot af þeim vörum sem eru til sölu.

Skjáskot/Nýkaup.is

„Auglýsir grimmt“

DV barst ábending um vörur og starfsemi Nýkaupar og var sagt að „fólk ætti að vara sig á“ henni.

„Nýkaup heitir hún og auglýsir grimmt á Facebook, þar auglýsir hún vörur af AliExpress með margfaldri álagningu og notar meira að segja myndirnar af Ali. Þegar ég benti á þetta í kommentum við auglýsingu frá þeim og linkaði í samskonar vöru af AliExpress var ég að sjálfsögðu blokkaður,“ kom fram í ábendingunni til DV.

DV fór á stúfana og fann blaðamaður ýmislegt sem renndi stoðum undir staðhæfingarnar sem komu fram í ábendingunni.

Vörur frá AliExpress

Margar af þeim vörum sem Nýkaup selur má finna með fljótlegri leit á AliExpress. Til dæmis „Original Hurricane sjálfvirkur skrúbbur“ sem Nýkaup selur á 11.890 krónur er sami bursti og er til sölu á AliExpress fyrir 23,65 dollara eða þrjú þúsund krónur. Sendingargjaldið er 176 krónur og tekur um 22-38 daga að fá vöruna senda samkvæmt AliExpress.

 

Hurricane burstinn sem er til sölu á Nýkaup.is.
Sami, eða afar svipaður, bursti á AliExpress.com

Þjónustuhættir Nýkaupa hafa verið til umræðu í hinum ýmsu Facebook-hópum og hefur verið sérstaklega talað um Hurricane burstann.

„Mér var eytt út af Facebook-síðunni þeirra þegar ég lét þá vita hversu óánægð ég væri með Hurricane þrifburstann sem þeir væru að selja á vel uppsprengdu verði – sagði þeim hversu illa hann virkaði og fékk ekkert svar – bara eytt út,“ skrifar ein kona á Facebook.

„Mér var líka eytt út af síðunni þeirra þegar ég lýsti óánægju minni með Hurricane sópinn… algjört drasl að mínu mati,“ skrifaði önnur við færsluna.

Í sömu færslu segist ein ekki mæla með Nýkaup. „Þeir kaupa ódýrt dót af AliExpress og Ebay og selja með margfaldri álagningu og svo blocka þeir fólk sem setja út á þá.“

Í Facebook-hópnum Verslun á netinu spurði einn hópmeðlimur í mars á þessu ári „hvernig er Nýkaup að reynast ykkur?“

Þar fékk hann þau svör að „Nýkaup er bara síða sem selur dót af AliExpress á okurverði svo ég myndi aldrei kaupa neitt af þeim.“

Sex þúsund króna munur á grænmetisskera

Nýkaup selur einnig grænmetis- og ávaxtaskera sem kallast Mandoline skeri, og kostar hjá þeim 9.997 krónur.

Skerinn á Nýkaup.is

Sama skera má finna á AliExpress á 2.000-3.400 krónur og sendingargjaldið til Íslands er um 930 krónur.

Skerinn á AliExpress.

Það er einnig hægt að finna skerann til sölu á Amazon og má þar finna nokkrar af sömu myndum og Nýkaup notar. Þar er skerinn hins vegar dýrari og kostar rúmlega 4.500 krónur.

Skerinn á Amazon og ein af myndunum þar af skeranum.

Nýkaup selur einnig kodda ætlaður óléttum konum, koddinn kostar hjá þeim 11.897 krónur og hinn sami koddi kostar 1.300-2.300 krónur og sendingargjaldið til Íslands er um 2.500 krónur.

T.v.: Koddinn til sölu á Nýkaup.is. T.h.: Koddinn til sölu á AliExpress.com

Eins og fyrr segir hafði DV samband við eiganda og stjórnarformann Nýkaupa. Nýkaup er rekið af fyrirtækinu 2211 ehf. Stjórnarformaður Nýkaupa bað blaðamann um að senda fyrirspurn í tölvupósti. Engin svör hafa borist þrátt fyrir ítrekun.

UPPFÆRT 12:45

Stefán Þór Sigfússon, eigandi Nýkaupa, sendi svar rétt í þessu sem birtist hér í heild sinni.

Ég hef starfað við þetta í nokkur ár og myndað viðskiptatengsl við hina ýmsu birgja erlendis. Það hefur tekið tíma að byggja upp samskipti við góða birgja  því  samskonar (svipaðar) vörur geta verið til á mörgum síðum og hjá mörgum framleiðendum, ég fæ alltaf sýnishorn áður en ég sel vöru og set hana svo í sölu ef mér finnst hún góð.

Nokkrir punktar sem gott er að vera meðvitaður um.

  • Á Íslandi skal seljandi veita 2. ára ábyrgð af raftækjum. Hún gildir líka hjá Nýkaup.
  • Hjá Nýkaup getur þú skilað vöru og fengið endurgreitt ef hún hentar ekki.

Það eru margir sem mikla fyrir sér að versla á netinu erlendis, vilja heldur vera í samskiptum við íslenska aðila, hafa ábyrgð og geta skilað.

Það eru auðvitað líka mörgum sem finnst ekkert mál að versla á netinu erlendis frá.

Ég er ekki með neina einokun og fólki er auðvitað frjálst að versla á erlendum síðum, þar sem margoft þú færð hlutina á lægra verði.  Sjálfum finnst mér ekki sanngjarnt þegar fólk gagnrýnir mína vöru og segist geta keypt hana annarstaðar á lægra verði.  Fólk verður þá auðvitað að bera saman epli og epli ekki epli og appelsínur.

Ég hef aldrei fengið gagnrýni á mig fyrir að vera óheiðarlegur í viðskiptum, það er ef fólk hefur fengið gallaða vöru eða ekki líkað hún að hún hafi ekki verið endurgreidd eða bætt á einhvern hátt. Það er mér einstaklega mikilvægt.

Ég er með netverslun og nota þar þá auglýsingar á netinu, ég skal alveg fús viðurkenna það að ef að fólk setur comment undir og segist geta keypt annarstaðar á lægra verði, þá tek ég commentið í burtu. Því þar er fólk ekki að bera saman epli og epli og það er ekki sanngjarnt.  Og sumir eru því miður bara beinlínis dónalegir.  Einnig hefur fólk jafnvel pantað svipaða vöru (ekki sami framleiðandi) á Ali Express eða öðrum síðum, varan hefur verið léleg og þá skrifar það undir hjá mér að það hafi ekki staðið undir væntingum.  Ég get auðvitað ekki ábyrgst vöru sem hefur verið keypt á erlendum síðum og svipar til minnar vöru því þetta er auðvitað ekki sama varan.  Ef varan er keypt hjá mér, og hefur ekki staðið undir væntingum þá er hún endurgreidd.

Það veit hver maður að Ísland er lítið og ef ég ætlaði að lifa af í smásölubransanum þá myndi lítið þýða fyrir mig að selja lélega vöru eða svíkja fólk.  Ég hef því haft það að leiðarljósi og koma fram af heiðarleika og gera mitt besta að sinna mínum viðskiptavinum. Orðspor mitt er mér mjög mikilvægt.

Hvað varðar gagnrýnina á að fólk sé lengi að fá vörur sínar þá les það því miður oft ekki alveg lýsinguna.  Ég set stundum inn vöru sem ég er búin að fá sýnishorn af en veit ekki hvernig vörunni er tekið og sel því fram í tímann.  Það er fólk kaupir vöruna en fær hana ekki afhenta fyrr en eftir 2-4 vikur.  Ég panta sem sagt meira magn í einu og til þess að takmarka áhættuna.

Það er þannig með mjög margar vörur að þær eru dýrari á Íslandi en á erlendum síðum, það á auðvitað alls ekki bara við um mína vöru.

Innifalið í verðinu hjá mér er, 2 ára ábyrgð af raftækjum og skilaréttur.  Fyrir utan alla tolla og öll gjöld.  Ég er milliliður og sel vöruna auðvitað með álagningu.  Ég tel ekki að hún sé meiri en gengur og gerist í smásölubransa.

Sem betur fer hefur heimurinn opnast og fólk getur með einum takka verslað sér vöru erlendis á hagstæðu verði, oft ódýrara en heima, það er þá auðvitað val hvers og eins að versla hana á íslenskri eða erlendri síðu.

Ef þú hefur einhverjar fleiri spurningar þá endilega leitaðu til mín. 

Þú getur líka kíkt til mín í heimsókn ef þú vilt.

Hlý kveðja, Stefán Þór.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Í gær

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“