Um 32% Íslendinga eru hlynnt því að leyfa sölu léttvíns í matvöruverslunum en meirihluti, eða slétt 58% eru því andvíg. Andstaða við sölu léttvíns í matvöruverslunum hefur aukist frá því í byrjun febrúar 2016 þegar hátt í 35% voru því hlynnt og um 52% andvíg. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem birt er í dag, en niðurstöðurnar eru sambærilegar þeim sem komu fram í nýlegri könnun MMR.
Lítið fleiri eru hlynntir sölu bjórs í matvöruverslunum, eða á bilinu 33%-34%, en meirihluti er einnig andvígur hér eða rúmlega 56%. Andstaðan hefur einnig aukist hér, því í byrjun febrúar 2016 voru rösklega á bilinu 37%-38% hlynnt sölu bjórs í matvöruverslunum og á milli 50%-51% andvíg.
Yfirgnæfandi meirihluti almennings er andvígur sölu sterks áfengis í matvöruverslunum eða hátt í 74% svarenda. Þegar niðurstöður eru skoðaðar úr öllum spurningunum þremur kemur í ljós að rúmlega 66,3% eru ekki hlynntir, þeir sem eru andvígir eða í meðallagi, sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum.
Yngra fólk er jákvæðara í garð áfengissölu í matvöruverslunum en þeir sem eldri eru, íbúar Reykjavíkur og Norðurlands eru nokkuð jákvæðari en íbúar annarra landshluta en andstaðan er mest á Vesturlandi og Vestfjörðum. Einhleypir eru að sama skapi mun jákvæðari í gerð sölu áfengis í matvöruverslunum en gift fólk. Þegar litið er til stjórnmálaskoðana þá eru kjósendur Bjartrar framtíðar og Pírata jákvæðastir, en kjósendur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar neikvæðastir.
Könnunin var gerð dagana 21.-27. febrúar 2017, spurðir voru 845 einstaklingar á aldrinum 18 til 75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá.