Watkins, sem var söngvari rokksveitarinnar Lostprophets, var drepinn í fangelsinu síðastliðinn laugardag – skorinn á háls og er talið að honum hafi blætt út á nokkrum sekúndum.
Lostprophets var ein stærsta rokksveit Bretlands á fyrsta áratug þessarar aldar og náði sveitin toppi breska vinsældalistans árið 2006 með plötu sinni Liberal Transmission.
Aðdáendur sveitarinnar trúðu margir vart sínum eigin augum þegar fréttir fóru að berast af skelfilegum glæpum söngvara sveitarinnar.
Í desember 2012 var Watkins handtekinn vegna vörslu fíkniefna en síðar komu miklu hræðilegri hlutir í ljós. Watkins var ákærður í þrettán liðum fyrir kynferðisbrot gegn börnum, þar á meðal tilraun til að nauðga eins árs stúlku.
Rannsókn leiddi í ljós að hann hafði brotið kynferðislega gegn börnum og ungmennum að minnsta kosti frá árinu 2008. Við leit á tölvu hans fannst einnig ólöglegt efni, þar á meðal kynferðislegt efni af börnum og dýrum. Í umfjöllun DV á mánudag kom fram að lykilorðið á tölvu hans hafi verið „I FUK KIDZ“.
Mail Online varpaði ljósi á líf Watkins í Wakefield-fangelsinu og er óhætt að segja að það hafi ekki verið neinn dans á rósum.
„Það er óskráð regla að þú spyrð ekki fólk hvaða glæp það framdi, en allir vissu að Watkins hafði reynt að nauðga barni. Það hafði verið ráðist á hann áður og hann var áreittur á hverjum degi. Hann var einfari, sjálfhverfur og virtist iðrast einskis. Hann átti enga raunverulega vini og eyddi miklum tíma einn í klefa sínum,“ segir fyrrverandi samfangi hans.
Í umfjölluninni kemur fram að Wakefield-fangelsið sé það fangelsi á Bretlandseyjum sem einna erfiðast er að afplána í.
„Wakefield er illa farið fangelsi, það er skortur á starfsfólki og þau sem vinna þar þjást af lítilli starfsánægju,“ segir fangavörður í Wakefield. „Það kemur enginn til vinnu með bros á vör.“
Í Wakefield afplána margir af hættulegustu kynferðisbrotamönnum Bretlands dóma sína. Af 630 föngum sem afplána þar hafa um 2/3 verið dæmdir fyrir kynferðisbrot. Aðrir hafa verið dæmdir fyrir hrottaleg ofbeldisbrot eða morð.
Þó að lífið innan fangelsisins hafi verið erfitt virðist Watkins hafa notið vinsælda utan veggja fangelsisins, ef marka má umfjöllun Mail Online.
Vitni segja að hann hafi reglulega fengið heimsóknir frá kvenkyns aðdáendum sínum, þar meðal þremur „goth-stúlkum“ á þrítugsaldri. Sást hann halda í hönd einnar þeirra og kyssa aðra. Þá er fullyrt að hann hafi fengið yfir 600 aðdáandabréf frá mismunandi konum.
„Hann fékk mikinn fjölda bréfa, einkum frá konum, sem í sumum tilfellum báðu hann um að giftast sér. Það er óskiljanlegt í ljósi þeirra hræðilegu glæpa sem hann framdi,“ segir heimildarmaður.
Í umfjöllun DV á mánudag kom fram að talið væri að morðið á Watkins hafi verið skipulagt og átt sér einhvern aðdraganda. Ekki sé talið víst að það tengist þeim hræðilegu glæpum sem hann framdi. Frekar að það tengist annað hvort fíkniefnaskuld eða það að Watkins hafi ekki vilja borga fyrir „vernd.“
Tveir menn eru grunaðir um morðið, Rashid Gedel, 25 ára, og Samuel Dodsworth, 43 ára.