Fjölmiðlar í Úkraínu eru fremur bjartsýnir fyrir leik sinna manna gegn Íslandi í undankeppni HM í kvöld.
Úkraínumenn eru með bakið upp við vegg, aðeins með eitt stig eftir tvær umferðir í riðlinum. Eins og Strákarnir okkar hafa þeir spilað við Frakkland og Aserbaísjan það sem af er. Ísland er aftur á móti með þrjú stig.
„Andstæðingurinn er þekktur fyrir að spila einfaldan en árangursríkan fótbolta, sérstaklega þegar kemur að föstum leikatriðum,“ segir um íslenska liðið í úkraínska miðlinum RBC.
„Sumir leikmenn þeirra koma úr bestu deildunum en það er engin stjarna í heimsklassa,“ segir þar enn fremur.
Leikurinn hefst klukkan 18:45 í kvöld. Ísland mætir svo Frökkum í sömu keppni á mánudag.