Nokkuð hefur verið rætt og ritað um þá ákvörðun Breiðabliks að framlengja samning Halldórs Árnasonar á dögunum.
Halldór er að klára sitt annað tímabil sem þjálfari Breiðabliks en hann varð Íslandsmeistari á sinni fyrstu leiktíð.
Halldór fékk nýjan samning á dögunum til ársins 2028 en tímasetning hans hefur verið til umræðu, Breiðablik fór í gegnum rúma tvo mánuði án þess að vinna leik í Bestu deildinni.
Samkvæmt heimildum 433.is höfðu hið minnsta tvö félög í Bestu deildinni á þessum tímapunkti sett sig í samband við Halldór um að taka við þjálfun liðsins.
Samkvæmt heimildum 433.is var KR eitt þessara lið en Óskar Hrafn Þorvaldsson er í dag þjálfari KR. Óskar er einnig yfirmaður knattspyrnumála hjá KR. Engar formlegar viðræður áttu sér stað en samtalið var opnað.
Óskar og Halldór hafa unnið náið saman í gegnum árin, þeir unnu saman hjá Gróttu og svo fylgdi Halldór honum til Breiðabliks þegar hann tók við þjálfun liðsins árið 2020. Halldór tók svo við Breiðablik þegar Óskar tók við Haugesund í Noregi.
Heimildarmaður 433.is telur að Óskar Hrafn hafi nokkurn áhuga á því að stíga úr sviðsljósi þjálfunar eftir tímabilið og starfa bara sem yfirmaður knattspyrnumála. Staðan í Vesturbæ gæti því breyst í vetur en það veltur eflaust líka á því hvort liðið muni leika í Bestu deildinni eða í Lengjudeildinni.
Ljóst er að Halldór mun ekki taka við KR en Heimir Guðjónsson sem er að hætta með FH hefur einnig verið orðaður við þjálfarastarfið í Vesturbæ.
Tvær umferðir eru eftir í deildinni og situr KR á botni deildarinnar, liðið þarf að vinna bæði ÍBV og Vestra í síðustu tveimur umferðunum til að eiga von á því að sleppa við fall.