Sævar Atli Magnússon landsliðsmaður hvetur fólk til að mæta snemma fyrir leik Íslands og Úkraínu í undankeppni HM í kvöld.
Uppselt er á leikinn, eins og á leikinn gegn Frökkum eftir helgi, enda Strákarnir okkar í dauðafæri um að koma sér allavega í umspil um sæti á HM.
„Það verður geðveik stemning og ég hvet fólk til að mæta snemma. Ég er búinn að spila í Danmörku og Noregi og fólk er duglegt að mæta snemma á völlinn,“ segir Sævar, sem er leikmaður Brann í Noregi og þar áður Lyngby í Danmörku.
„Þá færðu smá leikdagsupphitun og við finnum líka fyrir því í upphitun og svona. Ég hlakka mikið til,“ segir hann enn fremur.
Ítarlegra viðtal við Sævar er í spilaranum, þar sem er komið inn á komandi leiki Íslands, lífið í Brann og fleira til.