54. Sambandsþing UMFÍ verður haldið á Fosshóteli, Stykkishólmi 10.-12. október 2025. Þar verður lagt til leiðbeinandi tilmæli til íþróttafélaga vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum.
Mikið hefur verið fjallað um sölu áfengis á íþróttaviðburðum undanfarið og ætlar UMFÍ að fjalla um það.
Markmið tilmælanna er að tryggja að sala áfengis á viðburðum íþróttafélaga sé í samræmi við lög og reglur, að tekið sé mið af samfélagslegri ábyrgð félaganna og að hugað sé sérstaklega að öryggi barna og ungmenna.
Samkvæmt íslenskum lögum er sala áfengra drykkja hvort sem hún er á vegum íþróttafélaga eða annarra leyfisskyld. Einungis sýslumenn geta veitt slík leyfi með útgáfu rekstrar- eða tækifærisleyfa að fenginni umsögn hlutaðeigandi sveitarstjórnar, slökkviliðs, heilbrigðisnefndar, byggingarfulltrúa, vinnueftirlits og lögreglu.
Í einhverjum tilfellum hefur borið á misbresti í þessum efnum, meðal annars á viðburðum íþróttafélaga, þar sem sala áfengra drykkja átt sér stað án þess að viðeigandi leyfi hafi verið fyrir hendi eða framkvæmdin ekki verið í samræmi við skilyrði laga, sem er miður.
Ber félögum að bæta úr slíkum misbrest án tafar. Íþróttafélög eru máttarstólpar í uppeldis- og forvarnarstarfi á íslandi, njóta mikils trausts og bera því ríka samfélagsábyrgð. Það er því sérstaklega mikilvægt að félögin fylgi viðeigandi reglum í hvívetna í allri sinni starfsemi og séu öðrum til fyrirmyndar.
„Ljóst er að sala áfengra drykkja á enga samleið með barna og uppeldisstarfi en taka verður tillit til þess að starfsemi fjölmargra íþróttafélaga er miklu viðameiri en svo að hún snúi einungis að börnum og unglingum. Víða sinna íþróttafélög mjög mikilvægu félagslegu hlutverki og eru viðburðir félaganna, hvort sem er átt við kappleiki meistaraflokka eða önnur hátíðarhöld, jafnan með fjölmennustu mannamótum hverrar sveitar. Viðburðir íþróttafélaga eru jafnframt hluti af afþreyingarmarkaði og þurfa því að standast samanburð við aðra menningar- og afþreyingarviðburði, bæði hvað varðar þjónustu og skipulag. UMFÍ beinir þeim tilmælum til íþróttafélaga sem fengið hafa útgefin viðeigandi leyfi að þau sýni fyllstu varkárni og ábyrgð þegar kemur að sölu áfengra drykkja á viðburðum sínum. Á þetta sérstaklega við á kappleikjum þar sem börn og ungmenni eru meðal áhorfenda. Í þeim tilgangi að tryggja að upplifun allra gesta verði sem best og stuðla að sátt ríki um ólíka þjónustuþætti og tekjuöflun félaganna, er mikilvægt að komið sé til móts við ólíka hópa stuðningsmanna,“ segir í greinargerð.
UMFÍ mælist til þess að:
• Sala áfengra drykkja fari ekki fram á sama sölustað og börn og ungmenni versla aðrar vörur eða veitingar.
• Dregið sé úr sýnileika áfengra drykkja eins og kostur er.
• Boðið sé upp á sérstök „fjölskyldusvæði“ í áhorfendastúkum eða á áhorfendapöllum þar sem ölvun eða meðhöndlun áfengis er með öllu óheimil.
• Sé það á annað borð heimilt að bera drykki inn í áhorfendastúku eða á áhorfendapalla verði viðeigandi gæsla til taks innan slíks svæðis.
• Gæsla sé ávallt til fyrirmyndar og þeir einstaklingar sem sinna því hlutverki séu vel til þess fallnir og aldrei yngri en 20 ára.
• Ávallt sé þess gætt að frágangur, tiltekt og þrif séu til fyrirmyndar. Ekki séu ummerki um sölu áfengra drykkja í mannvirkjum þegar starfsemi ungmenna fari fram. Þá séu hirslur og geymslur kyrfilega læstar og aðgengi að þeim sé stýrt vel.