fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Matur

Tannsmiður vann loksins smákökukeppni eftir margar tilraunir: „Núna get ég hætt á toppnum“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Föstudaginn 16. nóvember 2018 07:40

Sigurvegarinn Carola.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Auðvitað er ég glöð. Ég veit ekki um neinn sem vinnur keppni og er drullufúll,“ segir Carola Ida Köhler. Carola bar sigur úr býtum í smákökusamkeppni Kornax þetta árið með kökum sem heita einfaldlega Hvít jól. Carola var að vonum himinlifandi þegar henni var tilkynnt um sigurinn.

„Fyrst hélt ég að það væri verið að ljúga að mér,“ segir Carola og skellir upp úr. „Albert Eiríksson hringdi og grínaðist í mér, spurði mig hvort ég gæti ekki farið að senda inn einhverjar almennilegar smákökur. Þá hugsaði ég með mér að ég hefði ekki einu sinni komist í úrslit. Síðan sagði hann mér að ég hefði unnið og þá gólaði ég eins og vinningshafar eiga að gera. Vinningshafar eiga að sýna gleði.“

Borðar sítrónur eins og epli – með hýði og öllu

Ekki skemmdi fyrir að Carola fékk ýmislegt í verðlaun fyrir smákökurnar, til að mynda KitchenAid-hrærivél, gjafabréf frá Nettó og gjafakörfu frá Nóa Siríus. Smákökurnar eru afar ljúffengar, þó Carola segi sjálf frá, en til að kunna að meta þær þarf maður að hafa smekk fyrir aðalhráefninu.

Carola með næst-yngsta barnabarninu sínu, Eldeyju Idu.

„Þær eru ógeðslega flottar og hrikalega góðar, það er að segja ef þú fílar sítrónu. Ég elska sítrus út af lífinu og er ein af fáum sem borða sítrónu eins og epli, með börk og öllu. En þetta var þróunarvinna og ég var í marga daga að baka frá grunni þar til kakan varð eins og ég vildi hafa hana,“ segir Carola. Um er að ræða sítrónukökur með fyllingu, skreyttar með súkkuklaði og gullflögum.

„Ég ætla ekki að taka aftur þátt í þessari fjandans keppni“

Þetta er þó langt frá því að vera fyrsta smákökukeppnin sem hún tekur þátt í.

„Það er gott að þessi keppni er bara einu sinni á ári því ég þyngist alltaf um tvö kíló á meðan á þróun stendur yfir. Ég væri komin í sirkus ef ég væri að taka þátt í mörgum svona keppnum,“ segir Carola og skellihlær. Hún er mikl keppnismanneskja en þetta er í fyrsta sinn sem hún hrósar sigri í smákökukeppni Kornax sem er haldin á hverju ári.

„Mér finnst gaman að taka þátt og keppa, en ég er alveg jafn glöð þegar ég vinn eins og ég er ofboðslega svekkt þegar ég tapa. Ég er búin að taka þátt í þessari keppni í mörg ár og hef alltaf verið ansi framarlega. Dóttir mín vann þessa keppni árið 2015 með pínu hjálp frá mér en í ár langaði mig að vinna keppnina. Ég hef yfirleitt lent í fjórða eða fimmta sæti, orðið æðislega fúl og sagt: Ég ætla ekki að taka aftur þátt í þessari fjandans keppni. Síðan byrja ég alltaf að baka þegar ég veit af keppninni. Maðurinn minn kom einmitt heim um daginn og fann voðalega góða lykt. Hann spurði mig hvort ég væri að baka fyrir jólin. Nei, Nonni minn, ég er ekki að baka fyrir jólin. Þá sagði hann: Ekki segja mér að þú sért að baka fyrir smákökukeppni,“ segir Carola og hlær. „Það er eins og ég hafi verið í álögum. Fyrst ég byrjaði að taka þátt þá varð ég að vinna. Núna get ég hætt á toppnum.“

Ef marka má keppnisskapið efast blaðamaður þó um að Carola láti staðar numið hér. Ætlar hún í alvöru að hætta þátttöku í smákökukeppninni fyrir fullt og allt?

Spurðu mig eftir ár,“ segir hún eftir talsvert hik. „Þegar þú hringir í mig aftur verð ég búin að vinna aðra hrærivél. Nei, svona að öllu gríni slepptu hætti ég sjálfsagt núna. Kannski.“

Skiptir út skemmdum tönnum

Carola tekur lífinu ekki of alvarlega – nema þegar keppni er annars vegar.

Carola vinnur sem tannsmiður og vinnur því við að smíða nýjar tennur í staðinn fyrir þær skemmdu. Það er því pínulítið mótsagnakennt að hún sé svona mikill sælgætisgrís. Hún segir allt í lagi að fá sér nammi og kökur svo lengi sem maður þrífi tennurnar vel.

„Elskan mín, þú þarft bara að tannbursta þig eins og þér var kennt. Svo notarðu tannþráð til að ná restinni og þar með er þetta komið. Þú gerir þetta kvölds og morgna ef þér þykir vænt um tennurnar þínar.“

Þetta er bara spurning um að vinna

Carola bakar mikið, þá sérstaklega í aðdraganda smákökukeppninnar, þó hún baki aldrei fyrir jólin. Það má segja að hún taki allan bakstursáhugann út þessar vikur sem fara í þróun á hinni fullkomnu smáköku og þá vill hún hafa eldhúsið út af fyrir sig.

„Ég baka inn í nóttina þegar ég fæ algjöran frið. Þá eru ekki læti úti og allir farnir að sofa. Þetta er samt enginn gæðatími eða hugleiðsla fyrir mér. Ég hef hins vegar alltaf haft gaman að því að taka þátt i keppnum. Hjá mér er þetta ekki spurning um að taka þátt – þetta er spurning um að vinna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa